14.11.2009 | 23:29
„Þið hafið sýnt okkur að þetta er raunhæft markmið"
Einn af ráðherrunum í ríkisstjórn ESB fundaði í vikunni með norrænum ráðherrum vinnumála um aðgerðir til að bregðast við atvinnuleysi. Í Fréttablaðinu í dag er rætt við ráðherrann (bls. 8), sem heitir Vladimír pidla og fer með atvinnumál, félags- og jafnréttismál.
Hann segir: "Með evrunni fækkar óvissuþáttunum og stöðugleiki eykst. Til lengri tíma litið er evran því góð fyrir vinnumarkaðinn."
pidla segir einnig að horft sé til Íslands í atvinnumálum, enda atvinnuleysi mjög lítið hér allt fram að hruninu í fyrra. Þið hafið sýnt okkur að þetta er raunhæft markmið."
Sýnt að hvað sé raunhæft?
Atvinnuleysi hér á landi hefur löngum verið lítið, eða mjög lítið, allt fram að hruni. Frá aldamótunum hefur meðal atvinnuleysi innan ESB hins vegar verið yfir 7% allan tímann og nálgast nú tveggja stafa tölu. Misjafnt eftir löndum, en þetta er meðaltalið.
Allan þann tíma sem þetta tókst á Íslandi stóðum við utan þátttöku í fjölþjóðlegu myntsamstarfi. Nú eigum við, að mati ráðherrans, að minnka atvinnuleysi með því að fara inn í umhverfi þar sem þetta hefur ekki tekist. Hvernig má það vera?
Þetta skýrir pidla með því að nú sé í fyrsta sinn sett upp áætlun til að koma jafnvægi á fjármálamarkaði (tímabært), að gerðar hafi verið breytingar á ráðgjöf ESB í atvinnumálum og að margvíslegum sjóðum verði beitt til að efla atvinnustig.
Til að fá ráðgjöf og aura úr sjóðunum þarf Ísland að ganga í Evrópusambandið. Hann er þó ekki sannfærðari um ágæti áætlananna en svo að hann segir "mikla óvissu" í spám um atvinnuleysi og býst við auknu atvinnuleysi innan ESB. Jafnvægið muni byrja að skapast upp úr miðju næsta ári.
Í samtali við RÚV nefnir hann einnig annað. Að glíma þurfi við langtímavandamál á borð við sífellt hærri meðalaldur. Hér á landi er fæðingartíðnin hærri og aldurssamsetningin hagkvæmari en í Evrópusambandinu, svo þetta vandamál er ekki í kortunum hjá okkur. Það setur atvinnumálin hér í annað samhengi.
Atvinnuástandið verður ekki bætt með brusselskum spám, einum saman. Við vitum að í þokkalegu árferði hefur gengið vel að halda uppi góðu atvinnustigi á Íslandi. Reynslan er traustara vitni en módel og spár. Það getur tæplega verið skynsamlegt að skipt um kúrs núna og ganga þá leið sem ekki hefur skilað árangri.