Jóhanna lýsir yfir uppgjöf

Það eru magnaðar yfirlýsingar í stefnuræðu Jóhönnu Sigurðardóttur varðandi IceSave klúðrið. Ítrekað hafa kratar haldið því fram að okkur beri að greiða IceSave, ekki síst þeir sem fara mikinn á blogginu. Enga undankomuleið sé að finna í regluverki möppudýranna í Brussel. En nú kemur leiðtoginn fram með yfirlýsingar sem ganga þvert á þennan margendurtekna "sannleika" kratanna. 

Hér er bein tilvitnun í ræðu Jóhönnu:

Það er ekki réttlátt að Íslendingar séu látnir gjalda fyrir gallaða löggjöf Evrópusambandsins. Það er ekki réttlátt að Bretar og Hollendingar hreinsi hendur sínar af því að þeirra eigið fjármálaeftirlit hafi brugðist, ekki síður en okkar, í Icesave málinu og það er afar ósanngjarnt að þeir skuli torvelda samstarf Íslands og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Við urðum fórnarlömb þess að allar þjóðir sem við eigum helst samskipti við, bæði austan hafs og vestan, töldu nauðsynlegt að verja gallaðar fjármálareglur til þess að forða áhlaupi á banka víða um heim.

Þetta er skýrt. Ekkert sem þarf að túlka eða útskýra. Jóhanna segir hreint út að löggjöf ESB sé gölluð, að framganga Breta og Hollendinga sé ekki réttlát, að Íslendingar séu fórnarlömb gallaðra reglna í fjármálaheiminum. Að Íslendingar séu órétti beittir og að knúin hafi verið fram ósanngjörn niðurstaða.

Hvað gerir þjóðarleiðtogi þá?

Hann hlýtur að berjast gegn óréttlætinu, standa á rétti sínum og setja fram kröfu um réttláta niðurstöðu. Standa með þjóð sinni. Nei, ekki Jóhanna Sigurðardóttir. Hún lýsti yfir uppgjöf.

Kalt hagsmunamat segir mér að við eigum ekki annarra kosta völ en að gera upp Icesave reikningana.

Þessi uppgjöf er útskýrð með nokkrum klassískum klisjum um AGS, erlent fjármagn, gjaldeyrisvaraforða og ótta við einangrun frá alþjóðsamfélaginu (les: Evrópusambandinu). Stjórnmálamaður sem ekki treystir sér til að standa á rétti þjóðar sinnar á ekki að gegna embætti forsætisráðherra.

Annað sem vekur athygli í ræðunni er að ESB umsóknin er ekki nefnd nema eins og í framhjáhlaupi; þrjár setningar á blaðsíðu þrjú. Það þykir greinilega ekki vænlegt lengur að hafa Evrópusambandið í forgrunni. Og verður það vonandi aldrei aftur.

 


mbl.is Skattkerfinu breytt óhikað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drögum ESB umsókn til baka

Lýðræði: Stjórnarfar þar sem almenningur getur með (leynilegum) kosningum haft úrslitavald í stjórnarfarsefnum; réttur og aðstaða einstaklinga og hópa til að láta í ljós vilja sinn og hafa áhrif á öll samfélagsleg málefni.

Þannig er orðið lýðræði skýrt í Orðabók Menningarsjóðs. Viljum við búa við lýðræði á Íslandi?

Með Lissabon samningnum er lagður grunnur að "Nýja ESB" þar sem Evrópusambandinu verður breytt í eitt sjálfstætt sambandsríki; með forseta, utanríkisráðherra, ríkisstjórn, dómstólum, eigin gjaldmiðli o.s.frv., og nú einnig eigin stjórnarskrá. Eins og verkin sýna er það síður en svo ætlun valdamanna í Brussel að leyfa þegnum nýja Evrópuríkisins að kjósa framvegis um neitt sem skiptir máli.

Hingað til hefur "einróma samþykki" verið meginreglan í starfi Ráðherraráðs ESB. Það var gerlegt meðan ríkin voru 15 en nú þegar stefnir í að þau verði 30 innan fárra ára er það óraunhæft. Við þessu er brugðist í Lissabon stjórnarskránni, með ýmsum breytingum. Kröfu um einróma samþykki er vikið til hliðar, neitunarvald fellt niður í 54 málaflokkum og í stað einfalds meirihluta þarf framvegis 55% atkvæða og 65% íbúafjölda til að ná fram málum innan ráðsins.

Með þessum breytingum minnkar vægið sem Ísland hefði innan ráðsins niður í nánast ekki neitt (0,064%). Það þýðir að almenningur á Íslandi á engin tök á að "láta í ljós vilja sinn og hafa áhrif á öll samfélagsleg málefni". Með öðrum orðum, með inngöngu í ESB erum við að kjósa frá okkur lýðræðið.

Ef við viljum áfram eiga möguleika á að búa við lýðræðislegt stjórnarfar væri það stórt gæfuspor inn í framtíðina að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Nýja ESB.

 


Bloggfærslur 5. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband