Er búið að rassskella Heimdall?

Fyrir tíu dögum sendi Heimdallur frá sér djarfa ályktun. Þar kröfðust ungir sjálfstæðismenn breytinga á stjórn Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Þeir fóru meira að segja fram á að báðir stjórnarflokkarnir gerðu breytingar á ráðaherraliði sínu. Krafa Heimdellinga var mjög skýr og birt í öllum fjölmiðlum.

Þegar ályktunin kom datt manni í hug að einhver eldri væri með í ráðum, sæti jafnvel undir stýri meðan allir ungliðarnir voru sendir út að ýta. En núna heyrist hvorki hósti né stuna. Samt hefur ekki verið nein lognmolla á þeim sviðum þar sem ungliðarnir kröfðust breytinga.

Ungir framsóknarmenn gerðu kröfur um breytingar á stjórn síns flokks og Guðni sagði af sér. Þegar ungir sjálfstæðismenn létu í sér heyra hélt maður að unga fólkið ætlaði nú að láta til sín taka í kreppunni og standa fyrir nauðsynlegri naflaskoðun. En Heimdallur, þessi útvörður ásanna, gelti bara einu sinni.

Voru ungliðarnir kallaðir fyrir og teknir á beinið af Flokknum? Er kannski búið að rassskella Heimdall og segja honum að sitja og bíða stilltur eftir landsfundi? Það má vera að þeir séu að stilla saman strengi sína í Evrópumálum en það er skrýtið að þeir þegi þunnu hljóði yfir öllu öðru sem er að gerast. Af nógu er að taka.


Þetta endar með rothöggi

Þegar seðlabankastjóri flutti ræðu á frægum morgunverðarfundi 18. nóvember hófst bardagi sem stendur enn. Og nú er farinn að færast hiti í leikinn. Davíð sagði, ríkisstjórnin svaf. Geir svaraði, seðlabankinn sagði ekki neitt. Það var fyrsta lotan.

Nú heldur atið áfram. Davíð sló fram 0% yfirlýsingunni en Geir svaraði, að þetta hafi kannski verið símtal. Og nú fylgir Geir sókn sinni eftir og opnar á Evrópuviðræður, sem hann styður samt ekki sjálfur. Skyldi þetta enda með rothöggi.

Hannes, hornamaður Davíðs, hefur sig lítið í frammi í augnablikinu en Þorgerður, sem vill engin hornkerling vera, fylgist með úr stúkunni enda bardaginn bæði spennandi og skemmtilegur. Össur fylgist líka með en er ekki skemmt, hann heldur að það sé eitthvað rotið við þetta. Björgvin og Ingibjörn eru líka orðin nett pirruð.

Það skrýtna við þennan bardaga er að ef Geir tapar þá fær hann samt verðlaunin. Stjórnin springur og ný stjórn mynduð, jafnvel án kosninga. Þá getur Geir myndað nýja stjórn með Vinstri grænum, vegna andstöðu beggja við aðild að Evrópusambandinu. Geri verður áfram forsætisráðherra en Davíð víkur. 

Það ætti að vera hægt að veðja á þennan bardaga á Lengjunni.


mbl.is Aðildarviðræður koma til greina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hurðaskellir í Evrulandi - nýr þröskuldur

Hvað eru þá eiginlega mörg ár þangað til Ísland á einhverja möguleika á evru? Maður hlýtur að spyrja sig eftir lestur makalausrar greinar í Mogganum í dag. Á blaðsíðu 39 er grein eftir mann sem heitir Erik Berglof og er yfirhagfræðingur Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu.

Þetta er mjög sérstök grein. Bæði er það fyrirsögnin Evrudyrunum skellt (og ekkert spurningarmerki á eftir) og svo hvernig maðurinn skrifar greinina. Hann talar ítrekað um hræsni. Hér er dæmi:

"Burtséð frá þeirri hræsni vestrænna ríkisstjórna, að setja sig á háan hest í þessu máli, um leið og þær eru að bjarga bönkum út af yfirgengilegu klúðri í sínu regluverki, er þessi tillaga meingölluð"

Hin meingallaða tillaga sem hann talar um er að bæta við nýju Maastricht skilyrði. Að sjötta skilyrðið verði "gæði bankakerfis". Þetta telur hann hækka þröskuldinn svo mjög að dyrunum að Evrulandi verði skellt.

Erik er að fjalla um fund bankamanna úr öllum heimshornum, sem haldinn var í Frankfurt. Það er óvenjulegt að embættismaður sem ber titilinn "yfirhagfræðingur" noti svona málfar í fræðilegum skrifum. Hann segir m.a. að bankamenn hafi "baðað sig í ljómanum af tíu ára tilvist evrunnar". Og aftur talar hann um hræsni: 

"Að gera gæði bankakerfis að nýju skilyrði fyrir aðild að evru er ekki bara hræsni, það gerir illt verra."

Greinin snýr að mestu að vanda banka í A-Evrópu sem flestir eru undir stjórn vestrænna banka. Vandi þeirra er mikill, hann er að miklu leyti "búinn til af vestrænum bönkum" og eftirlitsmenn hafa brugðist í að vara við öfgum. Hljómar það kunnuglega?

Móðurfélögin hafa takmarkaða getu til að styðja við dótturfyrirtæki sín í A-Evrópu. Svo spurningin er hvaða bankar það séu sem á að bjóða eignarhlut í þeim íslensku? Hvaða styrk munu þeir hafa til að styðja við dótturfélög á Íslandi?

Hvað þýðir þessi hurðarskellur fyrir Ísland? Ef skipta á út krónunni fyrir evru og fara réttu leiðina er hún löng og tímafrek. Ef það tæki Ísland fast að áratug að uppfylla núgildandi Maastricht skilyrðin fimm og ef hið nýja skilyrði verður sá þröskuldur sem Erik Berglof lýsir, er varla hægt að búast við evru á Íslandi fyrr en 2023. Kannski síðar.

Það er þá ekki um annað að velja en að hvetja íslensku krónuna til dáða!

 


Bloggfærslur 6. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband