Minnkandi þolinmæði Samfylkingarmanna

Í nýrri skoðanakönnun MMR minnkar stuðningur kjósenda Samfylkingar við ríkisstjórnina um heil 10 prósentustig frá því í október. Það er ekki lítið. Greinilegt að Davíðsmál eru farin að reyna á þolrifin og ekki nema rétt helmingur Samfylkingar sem styður ríkisstjórnina.

Það hlýtur bara að vera tímaspursmál hvenær spennan á stjórnarheimilinu verður óbærileg. Ég hef haldið mig við að spá kosningum 20. júní en ef svo fer sem horfir verður kosið fyrr.

Það er ekki nema þriðji hver kjósandi sem styður ríkisstjórnina og er það mikið fylgishrun frá því í október. Þetta er merki sem má ekki líta framhjá. Tólfti hver kjósandi á Íslandi vill fá nýjan stjórnmálaflokk og Íslandshreyfingin virðist vera að komast á blað aftur.

Skyldi Guðni snúa aftur og Davíð? Jafnvel Jón Baldvin? Væri það ekki alveg úr takt að endurvinna gamla refi fyrir Nýja Ísland?


mbl.is Vilja nýja stjórnmálaflokka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

EVRA: Einföld lausn sem kostar ekkert!

Hvers vegna er þetta ekki bara drifið af í einum grænum? Það er alltaf verið að benda á góðar lausnir en samt gerist ekket.

Virtur sérfræðingur segir að besti kosturinn sé að taka upp evru einhliða.
Virtur sérfræðingur segir okkur að það væri algjört glapræði.
Virtur sérfræðingur segir að krónan sé okkar sterkasta vopn í kreppunni.
Virtur sérfræðingur segir okkur að taka upp dollar.
Virtur sérfræðingur segir að það eigi að fastbinda krónuna við sterkan gjaldmiðil.
Virtur sérfræðingur segir okkur að sækja um í ESB til að koma krónunni í skjól, til að byrja með.

Getur verið að ástæðan fyrir því að ekkert gerist sé að þetta sé bara ekki svona einfalt. Ef til væri patentlausn sem kostar ekkert, þá væri engin kreppa.

Í Fréttablaðinu í gær, á bls. 30, er grein eftir Michael Emerson, sem er virtur sérfræðingur. Hann veltir fyrir sér einhliða upptöku evru. Í grein hans eru fjórar meginspurningar og nokkrar aðrar sem fljóta með. Auðvitað á að skoða þá hugmynd, eins og aðrar. Öll umræða er góð.

Ég mæli með að menn lesi þessa grein og rýni vel í svörin. Telji síðan hvað eru margir lausir endar. Ég ætla ekki að skrifa einhvern langhund um þá grein, en bendi á tvo punkta í niðurstöðum Emersons.

" ... má segja að EES + evra jafngildi nánast fullri aðild. Hversu hyggileg þessi leið er í pólitískum skilningi skal ósagt látið"

... myndu Íslendingar gera sér bjarnargreiða með því að taka um evru (einhliða) skömmu áður en þeir sæktu um inngöngu"

Samkvæmt Emerson er því um tvennt að velja: Annað hvort að taka upp evru einhliða eða sækja um aðild að ESB. Þetta tvennt fer mjög illa saman að hans mati. Eftir þessu að dæma munu þeir sem styðja aðild Íslands að ESB væntanlega standi harðir á móti einhliða upptöku evrunnar.


mbl.is Einhliða upptaka evru tæki 4 vikur og kostaði 80 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband