Mistök! Nei, þetta eru ekki nein mistök.

Það er hægt að gefa vitlaust til baka fyrir mistök. Það er hægt að senda tölvupóst á þingmann fyrir mistök. En meðferð Landsbanka Íslands hf á peningamarkaðssjóðnum er ekki hægt að flokka sem mistök. Ekki einu sinni tæknileg mistök.

Í pappírum vegna kaupa á Peningabréfum kom nafn Landsvaka hf hvergi fram. Ég vissi ekki að það félag væri til fyrr en eftir hrun. Bréfin hétu auk þess "Peningabréf Landsbankans". Áramótastaða var merkt Landsbankanum og öll yfirlit líka. Svo maður vissi ekki einu sinni að maður væri að skipta við eitthvað dótturfélag.

Þessi bréf voru kynnt sem "örugg fjárfesting" bæði af ráðgjöfum og á prenti.

Ef ásakanir um að "óeðlilega stórum hluta fjármuna sjóðsins hafi verið fjárfest í félögum tengdum eigendum Landsbankans" reynast réttar, þá bara geta það ekki verið mistök. Þeir sem sýsla með sjóðina bæði vita hverjir eiga þá og hvaða reglur þeim eru settar.

Ég tapaði 31,2% af mínum sparnaði og er í engu betur settur þó viðskiptamenn séu beðnir afsökunar. FME vísar þessu vonandi til lögreglu sem fyrst.

Sagt er að nýja rannsóknarnefndin skoði þetta, er nokkuð búið að skipa hana ennþá? það liggur svo sem ekkert á.


mbl.is NBI og Landsvaki viðurkenna mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veldu bara flokk, þá veistu hvað þér á að finnast!

Það var í mötuneytinu um daginn að yngsta fólkið sat saman við borð og ræddi kreppuna. Þeim fannst erfitt að fóta sig í endalausum fréttum af sukki og spillingu. Þau eru á þeim aldri að hafa bara haft kosningarétt í einum þingkosningum, kannski tvennum. Sum nýttu hann önnur ekki.

Þegar þau voru komin í þrot sagði einn pilturinn: "Veldu bara flokk, þá veistu hvað þér á að finnast". Þetta þótti þeim þjóðráð, svona í gríni.

Á þingi situr fólk sem gerir bara eins og flokkurinn segir ... en það er önnur saga.

Þetta kom upp í hugann þegar ég las þessa færslu Egils á Silfureyjunni. Sú lýsing sem hann dregur upp af flokkakreppunni er sorglega sönn. Unga fólkinu dugir ekki einu sinni að velja sér flokk til að vita hvað þeim á að finnast.

 


RÚV átti lélegustu frétt vikunnar

Ef verðlauna ætti fjölmiðil fyrir verstu frétt liðinnar viku væri sjónvarpsfrétt í tíu-fréttum RÚV á fimmtudagskvöldið sjálfkjörin. Í yfirliti Vefsjónvarpsins heitir hún "Árás á jólatré í Aþenu".

jólatré

Í þessari 25 sekúndna frétt um mótmælin í Grikklandi er ekki minnst orði á hverju er mótmælt. Ekki orð um morðið á hinum 15 ára Alexandros, ekki orð um pirring almennings í garð stjórnvalda og ekki orð um að "700-evru kynslóðin" telur að ESB hafi brugðist Grikkjum.

Af fréttinni að dæma eru Grikkir bara pirraðir út í jólatré og vilja losna við það með því að kveikja í því. Heiti fréttarinnar gefur því miður rétta mynd af innihaldi hennar. Samkvæmt fréttinni tókst lögreglu og slökkviliði að slá skjaldborg um tréð og bjarga því frá íkveikju.


Bloggfærslur 22. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband