"Við Hlemmtorg rís gasstöðin gamla eins og forðum"

Það mátti búast við því að ólgan brytist út með einhverjum hætti. Á Austurvelli fannst flestum þetta  sniðug mótmæli þegar "litli fánamaðurinn" dró Bónusgrísinn að húni um síðustu helgi. Og með öllu meinlaus. Handtakan, mótmælin og atburðirnir í dag sýna að það er mikil ólga undirliggjandi. Fréttin af gasinu á lögreglustöðinni við Hlemm kallaði fram í hugann eitt af gömlu snilldarverkum Megasar:

Við Hlemmtorg rís gasstöðin gamla eins og forðum
ég get ekki tjáð það né túlkað með orðum
hve allt þetta gaman er grátt
hvað það grátlega er allt marklaust og smátt.
En við Hlemmtorgið gnæfir gasstöðin þeirra svo hátt.

Birt án formlegs leyfis höfundar en í góðri trú um að það væri auðsótt (og með fyrirvara um fjórðu línu, heimildum ber ekki saman um hana svo ég treysti á eyrað).

Úr laginu Gamla gasstöðin við Hlemm.
Af plötunni Fram og aftur blindgötuna (1976)
Höfundur: Megas (Magnús Þór Jónsson)

 


mbl.is Mótmæli við lögreglustöðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þess vegna mæti ég

Enn heyri ég of marga finna sér ástæðu til að mæta ekki á Austurvöll. Eða búa hana til. Sumir segja að mótmælin snúist bara um einn seðlabankastjóra, það er rangt. Aðrir að þetta séu sellufundir fyrir vinstriflokka, sem er líka rangt. Enn aðrir blogga um að þetta séu bara kröfufundir um inngöngu í ESB, sem er fráleitt. Sumir setja fyrir sig einstaka ræðumenn þó þeir séu orðnir um tuttugu og tali hver á sínum forsendum. Aumasta afsökunin er þó veðrið.

Ég mæti vegna þess ...

... að kerfið er hrunið og það er ekki einkamál stjórnvalda hvernig byggt er upp. 

... að orðspor Íslands hefur boðið hnekki erlendis og stjórnin aðhefst of lítið í því.

... að ég get ekki sett traust mitt á óbreytta sitjandi stjórn.

... að ég tel að skipa eigi þjóðstjórn sem situr þangað til hægt er að kjósa.

... að upplýsingar sem við fáum eru oft misvísandi. Stundum rangar.

... að enn hefur ekki einn einasti maður í stjórnkerfinu þurft að stíga til hliðar.

... að í öllum ríkisbönkunum sitja stjórnendur úr þeim gömlu.

... að nú er frjór jarðvegur fyrir nýjar hugmyndir. Þær verða að komast að.

... að það er vanvirðing við kjósendur að ætla sitja sem fastast.

... að gamli klíkuskapurinn er svo augljóslega enn til staðar.

... að það er pólitískt ofbeldi að neita fólki um kosningar, tilræði við lýðræðið.

... að mátturinn býr í fjöldanum. Því fleiri sem mæta, því stærri verður röddin.

... að ég vil sjá Nýja Ísland rísa, en ekki síga aftur í gamla farið.

Þess vegna mæti ég. Mættu líka, þín vegna.

 


Við reddum þessu bara og gerum okrið snarlega löglegt

Námsmaður keypti sér rauðvín. Honum fannst það dýrt og kvartaði. Ekki til Neytendasamtakanna heldur til Umboðsmanns Alþingis. Og Umboðsmaður skrifaði bréf til dýralæknisins í fjármálaráðuneytinu og benti á stjórnarskrárbrot. Aðstoðarmaður hans lofar að redda málinu snarlega og gera okurverðið löglegt. Þannig var fréttin í stuttu máli.

Umboðsmaður er að sjálfsögðu formlegur. Segir að "verulegur vafi sé á" að heimildir séu "fullnægjandi miðað við þær kröfur sem leiða af stjórnarskrá ..." Og hann gerir athugasemdir við þær reglur "sem fjármálaráðherra hefur viðhaft við ákvörðun álagningar við smásölu áfengis hjá ÁTVR."

Formlegt, vandað og rökstutt, eins og alltaf hjá Umboðsmanni Alþingis.

Viðbrögð ráðuneytisins eru ekki þau að lækka verðið og fara að lögum. Brjóta ekki gegn kröfum sem leiða af stjórnarskrá. Aldeilis ekki. Heldur skal vinda sér í að gera þetta löglegt hið snarasta. Aðstoðarmaður ráðherra kalla það að "... skjóta traustari stoðum undir álagninguna hjá ÁTVR". Hann lofar líka að athuga hvort breyta þurfi lögum.

Það er eitthvað fallegt við þessa frétt. Og íslenskt.


mbl.is Álagning ÁTVR ólögmæt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband