"God bless his political memory"

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, er ekki besti vinur utanríkisráðherra í dag. Össur segir forsetann ekki hafa umboð til að gera neitt annað en það sem Alþingi ákveður. 

Össur er eflaust búinn að steingleyma því þegar hann sjálfur laumaðist úr landi sem ferðamaður í fyrrasumar - án vitneskju þingsins, ríkisstjórnarinnar og utanríkisnefndar - og leitaði stuðnings við mál sem Alþingi hafði ekki afgreitt.

Forseti ÍslandsÓlafur Ragnar stóð sig mjög vel í viðtali á Bloomberg í dag.

Það var kröftugt hvernig hann lýsti yfirgangi Gordons Brown, bæði þegar hann sagði Ísland gjaldþrota og þegar hann beitti hryðjuverkalögum. Inn á milli skaut Ólafur frábærri athugasemd: "God bless his political memory".

Össur utanríkisráðherra ætti að vera Ólafi Ragnari þakklátur. Hann var óhræddur við að segja það sem flestir hugsa og ráðamenn áttu að segja fyrir löngu, en gerðu ekki.

Ólafur Ragnar hafði meira umboð til að tala í dag en Össur hafði á Möltu í fyrra, 98% atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu er nokkuð skýrt umboð.

 


Þingmaður sakar ráðherra um geðvillu

Það þarf að auka virðingu Alþingis. Um það virðast allir vera sammála, bæði formlegar nefndir, almenningur og ráðamenn. Á sama tíma og þetta er rætt birtir Þór Saari grein þar sem hann segir Steingrím J Sigfússon "illa haldinn af Hubris heilkenninu".

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þingmenn Hreyfingarinnar tjá sig um andlegt jafnvægi kolleganna. Þráinn Bertelsson gæti lesið tölvupóst frá fyrrum flokksfélaga um það.

Hubris heilkenni er brenglun eða "geðvilla", sem er íslenska orðið sem Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar notar um fyrirbærið (sjá hér #15). Geðvilla þessi stafar af (miklum eða skjótfengnum) völdum og lýsir sér m.a. í hroka, firringu og skorti á auðmýkt. Orðatiltækið dramb er falli næst á við um hinn veika, þar sem með ásökun um Hubris er jafnan gefið í skyn að fall eða refsing sé innan seilingar.    

Um fjármálaráðherrann segir Þór Saari:

Það sem blasir hins vegar við er að formaður VG er orðinn svo illa haldinn af "Hubris" heilkenninu að hann gerir ekki lengur greinarmun á réttu eða röngu og segir einfaldlega það sem honum persónulega hentar hverju sinni.

Þessa grein birti Þór Saari á a.m.k. fjórum stöðum; Smugunni, Svipunni og Tíðarandanum, auk bloggsíðu sinnar.

Niðrandi ummæli um nafngreint fólk eru of algeng í netheimum, sér í lagi í nafnlausum athugasemdum við blogg og fréttir. Það getur verið erfitt að eiga við það en það er aldeilis fráleitt að þingmaður svívirði ráðherra í greinarskrifum á netinu.

Það skiptir engu máli hversu ósammála Þór Saari er Steingrími J Sigfússyni eða hversu óánægður hann kann að vera með embættisfærslu hans, það réttlætir ekki opinberar ásakanir um geðvillu.

Ef það á að auka virðingu Alþingis þurfa þingmenn að byrja á sjálfum sér, bæði innan þings og utan. Að sýna fólki tilhlýðilega virðingu og viðhafa háttvísi og kurteisi, bæði í ræðustól og á öðrum vettvangi. Að bera geðvillu á ráðherra í skrifum á netinu eykur ekki virðingu fyrir þingmönnum eða þinginu og er óviðeigandi með öllu.

 


Skrýtnasti flokkurinn

Evrópusamtökin eru skrýtin pólitísk hreyfing, líklega sú skrýtnasta í heimi. Aðal baráttumál félagsmanna er að svipta þjóð sína forræði í eigin málum og koma því undir fjarlægt vald. Meira að segja formleg yfirráð yfir verðmætustu auðlind sinni og öllum rétti til löggjafar í orkumálum, svo dæmi séu nefnd.

En við búum við skoðanafrelsi, sem betur fer. Evrópusamtökin eiga fullan rétt á sínum skoðunum eins og aðrir. Og dýrmætt málfrelsið gefur öllum rétt til að tjá skoðanir sínar. Evrópusamtökin hafa því stjórnarskrárvarinn rétt til að hafa rangt fyrir sér og fara með fleipur.

Til að vinna skoðunum sínum fylgi beita samtökin öllum ráðum. Síðustu dagana hafa árásir á íslensku krónuna verið áberandi og allt frá rafvirkja til ritstjóra lagt hönd á plóg. En hvaða skoðun sem við höfum á Evrópumálunum getum við öll verið sammála um nokkur atriði:

  • Krónan hefur aldrei átt sæti á Alþingi Íslendinga.
  • Krónan hefur aldrei samið fjárlög.
  • Krónan samdi ekki frumvarpið sem varð að Ólafslögum og færði okkur verðtrygginguna, sem enn er í gildi.
  • Krónan hefur aldrei tekið ákvörðun um að fella gengið.
  • Krónan hefur aldrei verið fjármálaráðherra og ekki viðskiptaráðherra heldur.
  • Krónan átti ekki sæti í einkavæðingarnefnd.
  • Krónan var hvorki í stjórn Kaupþings né Íslandsbanka. Ekki einu sinni í Landsbankanum. 

Samt tala menn iðulega um krónuna eins og hún sé lifandi vera, með sjálfstæðar skoðanir og mikil völd og vilji láta illt af sér leiða. Að hún sé óværa sem þarf að koma fyrir kattarnef. Að léleg stjórn efnahagsmála sé þessari kynjaveru að kenna, en ekki valdhöfum.

Blóraböggull er handhægt vopn

Þegar á móti blæs er gott að geta bent á blóraböggul. Allt er betra en að finna sekt hjá sjálfum sér. Þá er svo einfalt að gera gjaldmiðilinn að sökudólgi í miðju óörygginu sem fylgdi í kjölfar hrunsins. Einmitt á meðan fólk sér kjör sín og eignir rýrna er rétti jarðvegurinn fyrir svona boðskap. Og ef menn geta slegið tvær flugur í einu höggi og unnið vondum málstað fylgi í leiðinni, þá er þetta alveg kjörið.

Með því er líka hægt að færa fókusinn frá hinni raunverulegu stefnu Evrópusamtakanna, sem er að gefast upp á að ráða eigin málum. Slagorð um uppgjöf og aumingjaskap er ekki líklegt til vinsælda. Þess vegna hafa menn líka búið til orðaleppa eins og "að deila fullveldi sínu með öðrum þjóðum" til að nota um uppgjafarstefnuna.

En ekkert er nýtt undir sólinni. Það eru mörg dæmi um að skaðlegar hugmyndir fái hljómgrunn. Milljónir manna trúðu á yfirburði kommúnismans fyrir örfáum áratugum. Svo kannski er ég að hafa félagsmenn Evrópusamtakanna fyrir rangri sök. Kannski er þetta fólk sem trúir því, í hjartans einlægni, að það sé einhver vitglóra í því fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið. Enginn illvilji í garð þjóðarinnar, bara venjulegt velviljað fólk sem heldur að það sé að gera rétt.

Við verðum bara að treysta á að skynsemin hafi betur.

 


Íslenska krónan árið 1922

Reglulega er lækkun á verðgildi íslensku krónunnar gagnvart þeirri dönsku notuð sem rök fyrir því að nú þurfi að leggja hana af og taka upp "sterka mynt" í staðinn, evruna. En í þá umfjöllun vantar ávallt það sem mestu máli skiptir. Þess í stað er hamrað á því að frá því að leiðir gjaldmiðlanna skildi árið 1922 hafi verðgildi dönsku krónunnar tvöþúsundfaldast gagnvart þeirri íslensku.


ÁRIÐ 1922
voru Íslendingar ein fámennasta og fátækasta þjóð Evrópu. Fáeinum áratugum síðar var þjóðin orðin ein sú ríkasta. Risastökk frá örbyrgð til allsnægta, sem hefði verið útilokað með ónýta mynt.

Reykjavik1920ÁRIÐ 1922 var höfuðstaður Íslands fátæklegur kaupstaður í Kvosinni en Kaupmannahöfn var borg með 6-sinnum fleiri íbúa en Ísland.

ÁRIÐ 1922 lágu þjóðvegir um alla Danmörku, dönsku járnbrautirnar höfðu þá gengið í 78 ár og Kastrup flugvöllur var í smíðum; einn fyrsti alþjóðaflugvöllurinn fyrir farþegaflug í heiminum.

ÁRIÐ 1922 stóð vegakerfið á Íslandi saman af nokkur malarvegum og troðningum. Hér var ekkert flugfélag og enginn Íslendingur með réttindi til atvinnuflugs.

ÁRIÐ 1922 var háskólinn í Köben meira en fjögurra alda gamall en á Íslandi var háskóli enn aðeins draumur. Húsakostur danskra var prýðilegur, en á Íslandi var hann mun lakari og sumir bjuggu enn í torfbæjum. Og þannig mætti áfram telja.

EN ... ÁRIР2010 búa Íslendingar við áþekk kjör og Danir í nútímalegu samfélagi með öllum þægindum 21. aldarinnar. Framfarirnar á Íslandi eru meiriháttar. Kreppan setur tímabundið strik í reikninginn, en afrekið er staðreynd. 

Á 88 árum hefur danska krónan tvöþúsundfaldast í verði gagnvart krónunni okkar, en framfarir og uppbygging eru a.m.k. hundrað sinnum meiri hér en í Danmörku á sama tíma.

Krónan var látin fylgja pundinu í fjórtán ár með slæmum árangri. Ef íslenska krónan hefði fylgt þeirri dönsku alla tíð hefði ekki orðið neitt risastökk en við ættum tvöþúsund sinnum sterkari krónu.

Vill einhver skipta?

 


Ég held með bændum

"Það ætti að leggja niður landbúnað og flytja hann inn í dósum" sagði ein sögupersónan í Punktinum hans Péturs, ef ég man rétt. En ég held með bændum, þótt aldrei hafi ég verið í sveit. Það væri nær að endurreisa stolt hins íslenska bónda.

Tvö síðustu sumur hef ég ferðast nokkuð innanlands og nýtt mér þjónustuna Beint frá býli sem hefur farið mjög vaxandi síðustu ár. Þetta er eitt af því sem bændur leggja til aukins fjölbreytileika í íslensku samfélagi.

Grænmeti í Árnessýslu, silungur frá Útey við Laugarvatn, nautakjöt frá Hálsi í Kjós og sauðakjöt frá Stað í Reykhólahreppi er meðal þess sem ég hef keypt beint frá býli. Að auki ávexti, kæfur, sultur, rjómaís, egg, reyktan rauðmaga og ýmislegt smálegt víða um land. Og nú er hægt að komast á bændamarkað í Reykjavík, þótt það jafnist ekki á við heimsókn í sveitina.

En bændur gera meira. Svo miklu meira.

bóndi kornÞegar maður keyrir um sveitir landsins er fátt yndislegra en að sjá bleika akra og slegin tún, kýr á beit og hesta í haga. Og þegar bóndi keyrir traktorinn og rúllar heyinu upp í "sykurpúða" er hann að nýta eina af auðlindunum; það sem landið gefur. Víða eru skjólbelti og öflug trjárækt, sem verður myndarlegri með hverju árinu. Bændur gera fallegt landið enn fallegra.

Búskapur hefur breyst mikið á fáum áratugum. Menn eru ekki lengur bara með nokkrar kýr í túninu heima og fé á fjalli eins og forðum. Nýjungarnar eru margvíslegar, t.d. eru ekki margir áratugir síðan kjúklingur var nær óþekktur á borðum landsmanna. Menn höfðu efasemdir um gróðurhúsin þegar þau komu en nú er íslensk kornrækt orðin að veruleika. Bændur hafa í raun verið duglegir við nýsköpun af ýmsu tagi.

Ferðaþjónusta og orkubúskapur

ferðaþjónusta bændaBændur bjóða upp á fjölbreytta ferðaþjónustu; gistingu, veitingar, sumarhús, hestaferðir, jöklaferðir og margt fleira. Margir fóru útí ferðaþjónustu til að drýgja tekjurnar, núna er hún ómissandi þáttur í þjónustu við ferðamenn hringinn í kringum landið. Án framlags bænda væri útilokað að bjóða upp á þá fjölbreyttu kosti sem ferðalöngum standa til boða.

Svo er það orkubúskapurinn. Bændur virkja ár og læki og selja rafmagn inn á landsnetið. Aðrir bora eftir heitu vatni á jörðum sínum og selja orku til neytenda. Það er ekki lengur hægt að setja samansem merki á milli bænda og sauðkindarinnar. Það er löngu liðin tíð. Bændur í dag eru jafnan vel menntaðir í búfræðum og margir með fína menntun á háskólastigi, enda störf til sveita orðin mjög fjölbreytt og krefjandi.

Umtalsverð atvinnusköpun

Þau störf sem landbúnaðurinn skapar - fyrir utan bústörf - skipta þúsundum. Nokkur fyrirtæki vinna úr mjólk og framleiða osta, jógúrt og fleira. Enn fleiri eru í kjötvinnslu og þar eykst fjölbreytnin á hverju ári. Grillkjöt af öllum gerðum er gott dæmi. Allt skilar þetta margvíslegum tekjum í ríkissjóð auk þeirra gæða sem víða má sjá og hvergi eru færð til bókar. Ef landbúnaðurinn væri "fluttur inn í dósum" myndu meira en tíu þúsund Íslendingar missa vinnuna.

Bóndi er bústólpi

sauðfjársmölunÍ viðtengdri frétt er sagt frá ólgu meðal sauðfjárbænda vegna verðskrár sláturleyfishafa og nýlega var talað um að sekta bændur fyrir að selja mjólk umfram kvóta. Reglulega heyrum við svo frá fólki sem sýpur hveljur yfir styrkjum til íslensks landbúnaðar. Þó myndu afskrifaðar skuldir miðlungs útrásardólgs dekka styrki til landbúnaðarins í einhverja áratugi.

Kerfið er auðvitað ekki gallalaust, en það fylgir sjaldnast sögunni hvað við fáum fyrir peningana. Það er þó svo miklu meira er ódýr mjólk og kótelettur á grillið.

Í flestum/öllum vestrænum löndum er landbúnaður styrktur. Tveir stærstu styrkþegar Evrópusambandsins eru stórar sykurverksmiðjur á Ítalíu. Hér ganga greiðslur beint til bænda í samræmi við framleiðslu. Kerfin geta því verið margvísleg.

Hvetjum bændur til frekari dáða

Frekar en að þrengja að bændum ættu stjórnvöld að vinna að metnaðarfullri framtíðarsýn fyrir fjölbreyttan íslenskan landbúnað í góðri samvinnu við bændur. Renna stoðum undir búskapinn, lækka orkuverð til gróðurhúsa, lækka verð á áburði og ýta undir frekari nýsköpun. Þá mætti styrkja bændur enn betur til uppgræðslu og skógræktar því enginn hugsar betur um sveitir landsins en þeir sem búa þar.

Allt þetta er líka stór þáttur í að halda landinu öllu í byggð, að halda landinu fallegu, að viðhalda öflugri þjónustu í hinum dreifðu byggðum og að byggja undir ferðaþjónustu til framtíðar. Á endanum græðum við öll.

 


mbl.is Ólga í sauðfjárbændum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skæruliðinn Ögmundur

Áður en Ögmundur Jónasson náði að setjast í ráðherrastólinn fékk hann ljóta pillu frá samstarfsflokknum. Sigríður Ingibjörg sagði , fyrir hönd "fleiri innan flokksins", að hún efaðist um að að friður verði um Ögmund. Ekki beint skynsamleg leið til að...

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband