31.8.2009 | 11:16
14 - 14 - 14
Það er ekki aðeins að Styrktarsjóður hjartveikra barna hafi höfðað mál gegn gamla Landsbankanum heldur hefur ríkisstjórnin boðað skaðabótamál á hendur þeim sem velt hafa byrðum á ríkið eftir bankahrunið. Sama ríkisstjórn og ákvað að láta íslenska skattgreiðendur gangast í ábyrgð fyrir IceSave.
Þegar atkvæði voru greidd um IceSave voru það í raun aðeins 28 þingmenn sem greiddu atkvæði um ríkisábyrgðina. Fjórtán sögðu já og fjórtán sögðu nei. Aðrir fjórtán sátu hjá og einn var fjarverandi. Svo voru 20 þingmenn Samfylkingarinnar sem sögðu já en voru að hugsa um allt annað. Þau atkvæði eru samt talin með og við sitjum uppi með reikninginn.
Fjórtán þingmenn Vinstri grænna sögðu já. Líklega til að verja eða réttlæta samninginn vonda, sem þeir telja að Flokkurinn sinn beri ábyrgð á. Kannski telja þeir ekki aðra leið færa, en hugsanlega er aðeins pólitískri skákblindu Steingríms Joð um að kenna.
Fjórtán þingmenn úr þremur flokkum sögðu nei. Þar af allir þingmenn Framsóknar. Þeir hafna því að íslenska ríkið taki á sig ábyrgð og gríðarlega bótaskyldu sem ekki hefur verið skorið úr um að lögum.
Fjórtán þingmenn sátu hjá. Vildu ekki "setja sig gegn frumvarpinu" og samþykktu þannig gjörninginn með hjásetu sinni. Aumara verður það ekki. Eða hvað?
Svo eru það þessir tuttugu.
Upphaflega frumvarpið var ein lagagrein, máttlaust og án allra fyrirvara. Allir þingmenn Samfylkingarinnar (og nokkrir Vg að auki) voru tilbúnir að samþykkja það með hraði í júlí. Andstaða Ögmundar og barátta Framsóknar leiddi til þess að nýtt frumvarp var búið til. Margfalt stærra og betra, en meingallað samt.
Það vita það allir Íslendingar, ungir sem aldnir, karlar og konur, hvar í flokki sem þeir standa, að jafnvel þótt gamla frumvarpið hefði verið fiskað upp úr pappírstætaranum og borið undir atkvæði hefðu allir þingmenn Samfylkingarinnar sagt já. Þeir voru nefnilega ekki að kjósa um IceSave. Kratarnir voru aðeins að kjósa burt hindrun á velferðarbrúnni til Brussel. Það er í raun enn átakanlegra en að skila auðu.
Ræða fjármálaráðherra fyrir atkvæðagreiðsluna er svo kapítuli útaf fyrir sig. Hvernig hann blandaði saman klúðrinu og lausninni. Orsök og afleðingum. Setti sjálfan sig í hlutverk fórnarlambsins. En það er efni í aðra færslu.
Það er spurning hvort íslenskir skattgreiðendur eigi ekki að bæta Styrktarsjóði hjartveikra barna tjónið sem Landsbankinn olli honum. Það ætti að vera að minnsta kosti jafn sjálfsagt og að gangast í ábyrgð gagnvart Bretum og Hollendingum, þótt hin meintu brot séu annars eðlis.
![]() |
Styrktarsjóður í mál við Landsbankann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2009 | 13:13
Þríhyrnt hafrakex og þjóðarímynd
Vinir, elskhugar, súkkulaði heitir bók eftir Alexander McCall Smith, sem er þekktastur fyrir metsölubækurnar um Einkaspæjarastofu númer eitt. Í þessari bók er að finna áhugavert samtal sem fram fer í sælkerabúð, sem Cat rekur í Edinborg í Skotlandi.
***** *****
Það var lítið að gera og aðeins einn kúnni inni, vel klæddur maður að skoða hafrakex, en hann virtist í ógurlegum vandræðum með að velja á milli tveggja tegunda. Cat brosti og gekk til hans til að leggja honum lið.
"Þessi vinstra megin er með minna af salti en þessi hérna til hægri" sagði hún. "Annars held ég að þetta bragðist nokkurn veginn eins."
Maðurinn sneri sér við og leit kvíðafullur á hana. "Það sem ég er í raun og veru að leita að er þríhyrnt hafrakex. Þannig á hafrakex að vera í laginu, veistu. Þríhyrnt, en með eina hlið örlítið rúnnaða. Hafrakexlaga."
Cat skoðaði kexpakkann. "Þetta er kringlótt" sagði hún. "Og þetta hérna líka. Því miður. Við virðumst aðeins eiga kringlótt hafrakex."
"Þetta er samt enn framleitt," sagði maðurinn og kom við ermalíningarnar á dýra kasmírjakkanum sínum. "Þú gæti pantað það, er það ekki?"
"Jú" sagði Cat. "Við gætum fengið þríhyrnt hafrakex. Það hefur bara enginn beðið sérstaklega ..."
Maðurinn dæsti. "Þér finnst þetta kannski fáránlegt," sagði hann. "En það er bara svo fátt í þessum heimi sem er ekta. Að heiman. Litlir hlutir - eins og hvernig hafrakex er í laginu - skipta mjög miklu máli. Það er gott að hafa þessa kunnuglegu hluti í kringum sig. Það eru svo margir sem vilja gera allt eins. Þeir vilja taka frá okkur það sem skoskt er."
Cat fannst allt í einu mikið vit í orðum hans. Þetta var satt hjá honum, hugsaði hún - lítið land eins og Skotland varð að leggja sig fram um að hafa stjórn á daglegum málum sínum. Og hún gat vel skilið hvernig það gæti komið fólki úr jafnvægi, ef því fannst það berskjaldað á einhvern hátt, að sjá kunnuglega skoska hluti hverfa af sjónarsviðinu.
"Svo margir af bönkunum okkar hafa verið teknir," sagði maðurinn. "Sjáðu bara hvað varð um bankana okkar. Skosku herdeildirnar voru teknar af okkur. Allt sem var einkennandi hefur verið tekið."
Cat brosti. "En við vorum nú látin fá þingið aftur," sagði hún. "Við höfum það þó, ekki satt?"
Maðurinn hugsaði sig um. "Kannski," sagði hann. "En hvað getur það gert? Sett lög um þríhyrnt hafrakex?"
***** *****
Þessu lýsir Cat sem "dásamlegum samræðum um hafrakex og þjóðarímynd". Ef Íslands bíða þau örlög að villast inn í Evrópusambandið, hversu langt er þess þá að bíða að samtal eins og þetta fari fram á Íslandi? Kannski ekki í sælkerabúð og ekki um þríhyrnt hafrakex. Heldur um eitthvað íslenskt. Um eitthvað sem verður "tekið frá okkur" af þeim sem vilja gera allt eins. Þegar kunnuglegir íslenskir hlutir fara að hverfa af sjónarsviðinu.
20.8.2009 | 13:07
Er'ða nú frumvarp
Extreme makeover dugir ekki til að lýsa stökkbreytingunni á IceSave frumvarpinu. Nýja frumvarpið er átta sinnum lengra, mörgum sinnum betra og handónýtt. Það sem skemmir það er fjórða greinin um lagaleg viðmið. Verði það borið óbreytt undir atkvæði hlýtur það að verða fellt einróma 43:20.
Frávísun er ekki vænn kostur. Ef ég man rétt byggðist andstaða Framsóknar einmitt á því að lagaleg viðmið væru of máttlaus. Það er skiljanlegt þegar greinin er lesin. Nú er bara að bíða og sjá hvaða tillögur eiga eftir að koma fram og hvaða afgreiðslu þær fá í þinginu.
Frumvarpið sem ráðherra mælti fyrir var ein grein auk gildistökuákvæða. Fjárlaganefnd gat ekki annað en hent því í pappírstætarann, enda hafði það ekki annan tilgang en að uppfylla skilyrði 3. greinar IceSave samningsins og staðfesta uppgjöf Íslands fyrir kúgunum Breta. Nefndin kom með nýtt frumvarp í staðinn (þó að það heiti breytingatillaga á þingskjölum). Svona lítur það út:
1. gr.
Ríkisábyrgð á Icesave-lánasamningunum.Fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, er heimilt að veita Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta ríkisábyrgð vegna lána sjóðsins frá breska og hollenska ríkinu samkvæmt samningum dags. 5. júní 2009 til að standa straum af lágmarksgreiðslum, sbr. 10. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi. Ábyrgðin tekur til höfuðstóls lánanna eins og hvor um sig mun standa að sjö árum liðnum frá undirritun samninganna, 5. júní 2016, auk vaxta af lánsfjárhæðinni.
Ríkisábyrgðin afmarkast að öðru leyti af ákvæðum samninganna og fyrirvörum þeim sem koma fram í lögum þessum. Fyrirvararnir eru óaðskiljanlegur hluti ríkisábyrgðarinnar.
2. gr.
Forsendur fyrir veitingu ríkisábyrgðar.Forsendur fyrir veitingu ríkisábyrgðar samkvæmt lögum þessum eru:
1. að lánasamningarnir verði túlkaðir í samræmi við hin umsömdu viðmið sem samþykkt voru 14. nóvember 2008 á milli Íslands, Evrópusambandsins og hlutaðeigandi aðildarríkja, þannig að tekið verði tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt. Í þessu felst m.a. að samningsaðilar verði við rökstuddri og málefnalegri beiðni Íslands um endurskoðun samninganna samkvæmt ákvæðum þeirra,
2. að staða Íslands sem fullvalda ríkis komi í veg fyrir að gerð verði aðför í eignum þess sem það þarf nauðsynlega á að halda til að starfrækja hlutverk sitt sem fullvalda ríki með viðunandi hætti. Sama á við um eignir íslenska ríkisins erlendis, þar á meðal eignir Seðlabanka Íslands, sem njóta verndar samkvæmt almennum reglum þjóðaréttar,
3. að hvergi sé haggað við óskoruðum yfirráðum Íslands yfir náttúruauðlindum landsins og rétti handhafa íslensks ríkisvalds til að kveða á um nýtingu og skipan eignarhalds á þeim.
3. gr.
Efnahagsleg viðmið.Ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum er grundvölluð á því að fjárhagsleg byrði vegna hennar verði innan viðráðanlegra marka þannig að Íslandi verði gert kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt. Til að fylgjast með og meta forsendur fyrir endurskoðun á samningunum skal ríkisstjórnin gera ráðstafanir til þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geri í síðasta lagi fyrir 5. júní 2015 IV. greinar úttekt á stöðu þjóðarbúsins, einkum með tilliti til skuldastöðu og skuldaþols. Að auki verði í úttektinni lagt mat á þær breytingar sem orðið hafa miðað við mat sjóðsins frá 19. nóvember 2008.
Við mat á forsendum til endurskoðunar á samningunum skal einnig tekið tillit til stöðu í þjóðarbúskapnum og ríkisfjármálum á hverjum tíma og mats á horfum í þeim efnum þar sem m.a. verði sérstaklega litið til gjaldeyrismála, gengisþróunar og viðskiptajafnaðar, hagvaxtar og breytinga á landsframleiðslu svo og þróunar fólksfjölda og atvinnuþátttöku.
Ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum er miðuð við hámark á greiðslum úr ríkissjóði. Þetta hámark miðast á árabilinu 2017-2023 við 4% af vexti vergrar landsframleiðslu mælt í pundum vegna lánasamningsins við breska ríkið og 2% af vexti vergrar landsframleiðslu mælt í evrum vegna lánasamningsins við hollenska ríkið. Hlutföll þessi verða helmingi lægri árin 2016 og 2024. Greiðslur skulu endurskoðaðar um leið og endanlegar tölur um verga landsframleiðslu liggja fyrir.
Vöxtur á vergri landsframleiðslu Íslands skv. 3. mgr. skal mældur frá 2008 til greiðsluárs á árabilinu 2016-2024 annars vegar í pundum vegna lánasamningsins við breska ríkið og hins vegar í evrum vegna lánasamningsins við hollenska ríkið. Útreikningur á greiðslum skv. 3. mgr. skal byggjast á meðalgengi miðgengis Seðlabanka Íslands á pundi og evru gagnvart krónu á ársgrundvelli og mati á vergri landsframleiðslu samkvæmt skilgreiningu Eurostat.Verði greiðslubyrði lánasamninganna meiri en nemur hámarki skv. 3. mgr. skulu teknar upp viðræður við aðila lánasamninganna um áhrif þess á samningana og skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Fari slíkar viðræður ekki fram eða leiði þær ekki til niðurstöðu takmarkast ríkisábyrgð í samræmi við hámark 3. mgr. nema Alþingi ákveði annað.
4. gr.
Lagaleg viðmið.Ekki hefur fengist leyst úr því álitaefni hvort aðildarríki EES-samningsins beri ábyrgð gagnvart innstæðueigendum vegna lágmarkstryggingar, þar á meðal við kerfishrun á fjármálamarkaði. Allt að einu hefur Ísland gengið til samninga við Bretland og Holland þótt það hafi ekki fallið frá rétti sínum til að fá úr þessu álitaefni skorið. Fáist síðar úr því skorið, fyrir þar til bærum úrlausnaraðila, að slík ábyrgð hvíli ekki á Íslandi eða öðrum aðildarríkjum EES-samningsins skal ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum bundin þeim fyrirvara að fram fari viðræður milli Íslands og viðsemjenda þess um áhrif þeirrar niðurstöðu á lánasamningana og skuldbindingar ríkisins.
Ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum miðast við það að um úthlutun eigna við uppgjör Landsbanka Íslands hf., eða þrotabús hans, fari samkvæmt íslenskum lögum eins og þau voru 5. júní 2009, þ.m.t. lögum nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið. Ábyrgðin takmarkast við að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta láti á það reyna fyrir þar til bærum úrlausnaraðilum hvort kröfur hans gangi við úthlutun framar öðrum hluta krafna vegna sömu innstæðu. Verði niðurstaðan á þann veg skulu teknar upp viðræður við aðila lánasamninganna um áhrif þess á samningana og skuldbindingu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.
Fari ekki fram viðræður skv. 1. eða 2. mgr. eða leiði þær ekki til niðurstöðu getur Alþingi takmarkað ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum í eðlilegu samræmi við tilefnið.
5. gr.
Endurskoðun lánasamninganna.Ákvörðun um að óska eftir viðræðum um breytingar á lánasamningunum samkvæmt endurskoðunarákvæðum þeirra skal tekin með samþykki Alþingis. Við þá ákvörðun skal m.a. byggt á forsendum ríkisábyrgðarinnar og viðmiðum samkvæmt lögum þessum. Meta skal hvort óska skuli endurskoðunar eigi síðar en 5. október 2015 og skal niðurstaða þess mats lögð fyrir Alþingi fyrir lok þess árs.
6. gr.
Eftirlit Alþingis.Fjármálaráðuneytið, viðskiptaráðuneytið og Seðlabanki Íslands skulu reglubundið meta þróun heildarskulda, greiðslubyrði og skuldaþol íslenska ríkisins og þjóðarbúsins, þ.m.t. vegna ábyrgðar ríkisins samkvæmt lögum þessum.
Fjármálaráðherra skal árlega, í fyrsta sinn fyrir 1. mars 2010, upplýsa Alþingi um framkvæmd samninganna og mat skv. 1. mgr. Í skýrslu ráðherra skal m.a. gerð grein fyrir því hvort endurheimtur eigna í búi Landsbanka Íslands hf. hafi að marki orðið aðrar en gert var ráð fyrir við gerð samninganna, þ.e.75%, og mat lagt á greiðslubyrði sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.
Við eftirlit fjárlaganefndar með framkvæmd fjárlaga skal m.a. meta hvernig skuldbindingar samkvæmt lánasamningunum og lögum þessum þróast. Nefndin skal hafa náið samstarf við ríkisendurskoðanda sem skal eiga rétt á öllum nauðsynlegum upplýsingum frá fjármálaráðuneyti, Seðlabanka Íslands og Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta.Fjárlaganefnd hefur heimild til að leita ráðgjafar frá innlendum og erlendum sérfræðingum vegna eftirlits hennar samkvæmt lögum þessum. Kostnaður vegna þess greiðist úr ríkissjóði.
7. gr.
Skilmálar ríkisábyrgðar gagnvart Tryggingarsjóði
innstæðueigenda og fjárfesta.Fjármálaráðherra setur Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta frekari skilyrði vegna ábyrgðarinnar í sérstökum samningi við sjóðinn, einkum varðandi upplýsingagjöf til Alþingis, eftirlit með fjárhag sjóðsins og endurheimtur eigna úr búi Landsbanka Íslands hf.
8. gr.
Endurheimtur á innstæðum.Ríkisstjórnin skal þegar í stað grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana sem þarf til að endurheimta það fé sem safnaðist inn á Icesave-reikningana. Í þeim tilgangi skal ríkisstjórnin fyrir 15. október 2009 hafa frumkvæði að samstarfi við þar til bæra aðila, m.a. yfirvöld í Bretlandi, Hollandi og Evrópusambandinu, og óska aðstoðar þeirra við að rekja hvert innstæðurnar af Icesave-reikningunum voru fluttar. Ríkisstjórnin skal fyrir árslok 2009 semja áætlun um hvernig reynt verður að endurheimta það fé sem kann að finnast.
Í því skyni að lágmarka ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum skal ríkisstjórnin einnig gera ráðstafanir, í samráði við þar til bæra aðila, til þess að þeir sem kunna að bera fjárhagsábyrgð á þeim skuldbindingum sem stofnast hafa vegna Icesave-reikninganna verði látnir bera það tjón.
9. gr.
Gildistaka o.fl.Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði laga nr. 121/1997, um ríkisábyrgðar, að undanskilinni 5. gr. þeirra laga, gilda ekki varðandi þá ábyrgð sem lög þessi ná til.
Ég gef mér að gildistökuákvæðin hafi fengið að standa óbreytt og bæti þeim hér við sem 9. gr. þó þau séu ekki í þingskjali merkt breytingatillögur. Læt nánari vangaveltur um frumvarpið bíða næstu færslu.
![]() |
Frávísun myndi valda stjórnmálaóreiðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.8.2009 | 12:45
Meðmæli x 2
Íslenska krónan
Þegar gengið lækkar styrkist staða útflutningsgreinanna. Það er því forvitnilegt að lesa færslu sem Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, skrifaði. Brimborg er nefnilega innflutningsfyrirtæki (sem selur bíla en ekki Toyota).
Ég mæli með færslu Egils um sívinnandi og óþreytandi íslenska krónu.
Aldargamall draumur
Úr því ég er að mæla með annarra manna bloggfærslum verð ég að benda líka á færslu Andra Snæs Magnasonar. Hún er um sérstakan draum sem hljómar eins og fyrirboði um nokkuð sem gerðist 101 ári síðar.
Færsla Andra Snæs heitir Draumur Dr. Helga Pjeturs frá 1907.
Þetta eru ólíkar færslur, en tengjast báðar efni viðtengdrar fréttar um veikingu krónunnar, þó með ólíkum hætti sé.
Góða skemmtun.
![]() |
Bandaríkjadalur nálgast 130 krónur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.8.2009 | 12:41
TOYOTA - tákn um gæði
Í október lánuðu Færeyingar okkur 6 milljarða. Það var neyðarlán.
Núna afskrifar Landsbankinn margfalda þá upphæð fyrir þyrlukarl.
Það er ekki í mannlegu valdi að bæta fólki það sem gerðist í bankahruninu sagði ráðherrann Árni Páll Árnason fyrir tveimur vikum (hér). Ekki er hægt að ráðast í niðurfærslur almennra skulda. Yfirlýsingin var alveg þvert á það sem sami ráðherra sagði í júlí (hér), en það var áður en að hann fattaði að það er AGS sem stjórnar, en ekki ríkisstjórnin.
Það eina sem er í mannlegu valdi er að afskrifa kúlulán og almennilegar milljarðaskuldir. Hvað skyldi Færeyingum finnast um þetta?
Enn hef ég ekki rekist á staðfestingu frá Landsbankanum á að frétt DV sé rétt. En sé hún það væri slíkur sóðaskapur efni í uppreisn einhvers staðar.
![]() |
Gamli Landsbankinn afskrifar skuldir Magnúsar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.8.2009 | 08:57
VARÚÐ: Lukkupottur framundan!
17.8.2009 | 12:58
Jóhanna er "hættulegt fólk"
17.8.2009 | 12:21
Financial Times: Grein um IceSave
14.8.2009 | 18:47
HIN ÍSLENSKA "GLÆPAÞJÓÐ"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
13.8.2009 | 08:51
Eðlileg kúgun
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.8.2009 | 12:22
Meira að segja Bretar fatta þetta
11.8.2009 | 12:44
Ábyrgðin, Ögmundur og IceSave
10.8.2009 | 17:03
Offramboð á krötum
7.8.2009 | 13:00