22.12.2008 | 18:08
Mistök! Nei, þetta eru ekki nein mistök.
Það er hægt að gefa vitlaust til baka fyrir mistök. Það er hægt að senda tölvupóst á þingmann fyrir mistök. En meðferð Landsbanka Íslands hf á peningamarkaðssjóðnum er ekki hægt að flokka sem mistök. Ekki einu sinni tæknileg mistök.
Í pappírum vegna kaupa á Peningabréfum kom nafn Landsvaka hf hvergi fram. Ég vissi ekki að það félag væri til fyrr en eftir hrun. Bréfin hétu auk þess "Peningabréf Landsbankans". Áramótastaða var merkt Landsbankanum og öll yfirlit líka. Svo maður vissi ekki einu sinni að maður væri að skipta við eitthvað dótturfélag.
Þessi bréf voru kynnt sem "örugg fjárfesting" bæði af ráðgjöfum og á prenti.
Ef ásakanir um að "óeðlilega stórum hluta fjármuna sjóðsins hafi verið fjárfest í félögum tengdum eigendum Landsbankans" reynast réttar, þá bara geta það ekki verið mistök. Þeir sem sýsla með sjóðina bæði vita hverjir eiga þá og hvaða reglur þeim eru settar.
Ég tapaði 31,2% af mínum sparnaði og er í engu betur settur þó viðskiptamenn séu beðnir afsökunar. FME vísar þessu vonandi til lögreglu sem fyrst.
Sagt er að nýja rannsóknarnefndin skoði þetta, er nokkuð búið að skipa hana ennþá? það liggur svo sem ekkert á.
![]() |
NBI og Landsvaki viðurkenna mistök |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.12.2008 | 14:07
Veldu bara flokk, þá veistu hvað þér á að finnast!
Það var í mötuneytinu um daginn að yngsta fólkið sat saman við borð og ræddi kreppuna. Þeim fannst erfitt að fóta sig í endalausum fréttum af sukki og spillingu. Þau eru á þeim aldri að hafa bara haft kosningarétt í einum þingkosningum, kannski tvennum. Sum nýttu hann önnur ekki.
Þegar þau voru komin í þrot sagði einn pilturinn: "Veldu bara flokk, þá veistu hvað þér á að finnast". Þetta þótti þeim þjóðráð, svona í gríni.
Á þingi situr fólk sem gerir bara eins og flokkurinn segir ... en það er önnur saga.
Þetta kom upp í hugann þegar ég las þessa færslu Egils á Silfureyjunni. Sú lýsing sem hann dregur upp af flokkakreppunni er sorglega sönn. Unga fólkinu dugir ekki einu sinni að velja sér flokk til að vita hvað þeim á að finnast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2008 | 08:45
RÚV átti lélegustu frétt vikunnar
Ef verðlauna ætti fjölmiðil fyrir verstu frétt liðinnar viku væri sjónvarpsfrétt í tíu-fréttum RÚV á fimmtudagskvöldið sjálfkjörin. Í yfirliti Vefsjónvarpsins heitir hún "Árás á jólatré í Aþenu".
Í þessari 25 sekúndna frétt um mótmælin í Grikklandi er ekki minnst orði á hverju er mótmælt. Ekki orð um morðið á hinum 15 ára Alexandros, ekki orð um pirring almennings í garð stjórnvalda og ekki orð um að "700-evru kynslóðin" telur að ESB hafi brugðist Grikkjum.
Af fréttinni að dæma eru Grikkir bara pirraðir út í jólatré og vilja losna við það með því að kveikja í því. Heiti fréttarinnar gefur því miður rétta mynd af innihaldi hennar. Samkvæmt fréttinni tókst lögreglu og slökkviliði að slá skjaldborg um tréð og bjarga því frá íkveikju.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2008 | 22:32
Sæll Eiríkur Bergmann
Glatast fullveldi við aðild að Evrópusambandinu?" spyr Eiríkur Bergmann, dósent á Bifröst, á bloggi sínu á Eyjunni. Ekki er lesendum gefinn kostur á að gera athugasemdir eða spyrja spurninga. Annars hefði ég skrifað eftirfarandi:
Sæll Eiríkur Bergmann og takk fyrir fræðandi skrif.
Fullveldi er að hafa fullt vald yfir eigin örlögum. Punktur. Í því sambandi skiptir ekki máli hvenær í sögunni orðið varð merkingarbært hugtak". Heldur ekki þó menn skrifuðu heilu bókasöfnin um lagalega eða pólitíska gildishleðslu orðsins, eins og þú kallar það.
Þegar ríki hefur framselt ákvörðunarrétt" til sambands með lagakerfi sem gengur framar landsrétti" er fullveldið ekki lengur til staðar, sama hvernig á það er litið. Það á ekki síst við um Evrópusambandið, einmitt vegna sérstöðu þess sem þú nefnir réttilega í greininni. Vald þess nær til hluta sem að öllu jöfnu heyra til innanlandsmála.
Ef Ísland er þegar orðið eins konar aukaaðili að Evrópusambandinu" hlýtur maður að spyrja hver þörfin sé á að ganga lengra. Er einhver nauðsyn sem rekur okkur til þess? Ég vona að ekki beri að skilja þessa setningu svo, að úr því við erum þegar búin að missa hluta af fullveldinu hvort sem er, þá sé í lagi að missa talsvert meira.
Ísland hefur nýtt sér réttinn til að taka þátt í fjölþjóðlegu samstarfi og á nú aðild að 59 alþjóðlegum stofnunum. Flestir sem tala fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu nefna evruna sem helstu (stundum einu) rökin og er það nokkuð augljóslega litað af kreppunni. Látum gjaldmiðilsmál liggja milli hluta að sinni, enda um áratugur þar til evran gæti numið hér land þó Ísland slysaðist inn í Evrópusambandið. Grein þín snýst heldur ekki um það.
Jafnvel er hægt að halda því fram ..." segirðu, um að aukið fullveldi felist í aðild að yfirþjóðlegri stofnun. Jafnvel! Og í lokasetningunni Ísland hefur fram að þessu kosið að nýta ekki fullveldisrétt sinn í stofnunum Evrópusambandsins". Þetta hljómar eins og bókin sé lesin á hvolfi.
Eigum við ekki að vona að Ísland kjósi áfram að snúa bókinni rétt og nýta fullveldisrétt sinn utan stofnana Evrópusambandsins? Sú breyting á Evrópusambandinu sem boðuð er með Lissabon samningnum (og ekki má kjósa um) stefnir í aukna miðstýringu og minnkandi lýðræði. Það er varla þróun til hins betra.
Sér í lagi geld ég varhug við hinni nýju utanríkisstefnu. Ein stefna og einn utanríkisráðherra fyrir eitt ríki: Evrópuríkið. Líka við breytingum varðandi fjárfestingar erlendra aðila utan sambandsins, sem aðildarríki geta ekki sett sér reglur um. Og samræmingu skattalaga sem eru á skjön við það sem Írar hafa gert til að örva efnahaginn hjá sér. Með inngöngu er sjálfræði látið af hendi í veigamiklum þáttum.
Þetta er svo stórt mál að það dugir ekkert jafnvel" í því sambandi. Sú staðreynd að stjórnmálastéttin" hreiðrar æ betur um sig í valdastöðum sambandsins gerir þennan kost fráhrindandi. Það verður lítið pláss fyrir lýðræði í hinu nýja Evrópuríki.
Frakkar eru úrvals kokkar, Ítalir snjallir hönnuðir, Þjóðverjar eru skipulagðir og sparsamir, Danir eru léttlyndir og skemmtilegir og um alla Evrópu er að finna gott fólk. En því miður er stjórnmálastéttin í Brussel ekki samnefnari evrópsku þjóðanna. Erum við ekki betur komin án hennar?
Já, þetta hefði ég skrifað hjá honum Eiríki Bergmann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2008 | 12:35
Hver tekur mark á rithöfundum?
Nú hafa rithöfundar gert sig gildandi í umræðunni um þjóðmál. Einar Már flytur ræður, skrifar greinar og mætir í Silfrið. Gerður Kristný gerir það líka og Einar Kárason mætti í Kastljós, nýverðlaunaður. Menn hafa líka notað Bjart í Sumarhúsum og tilvitnanir í Halldór Laxness.
Það er vel.
Umræðan er ekki einkamála pólitíkusa og peningamanna. En þetta er ekki bara á Íslandi.
Í þeirri ólgu sem nú ríkir í Grikklandi hefur rithöfundurinn Mimis Androvlakis tekið virkan þátt í umræðunni. Hann skrifar um hvernig ESB hefur brugðist Grikkjum; hefðir þeirra, menning og saga fái ekki pláss í hagfræði Ríkisins.
Vladimir Bukovsky er einn rithöfundurinn enn, sem tjáir sig um þróunina í pólitík. Hann skoðar þróun Evrópusambandsins frá stofnun til dagsins í dag og væntanlegt framhald. Hans niðurstaða er að farvegurinn sé nákvæmlega sá sami og Sovétríkin liðuðust um á sínum tíma, þar til þau liðuðust í sundur.
En hver hlustar á rithöfunda? Þeir stúdera ekki þjóðarframleiðslu, hagtölur, viðskiptahalla, þrýsting í hagkerfinu og gengismun. Þeirra sjónarhorn er annað, yfirleitt tengt þjóðinni, sögu hennar og menningu.
Það er hollt að fá fram sem flest sjónarhorn, svo já, hlustum á þá líka.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.12.2008 | 15:44
MÓTMÆLIN: Mörg, mörg þúsund manns
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.12.2008 | 11:35
... og hættum svo að ljúga!!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.12.2008 | 14:23
Ég fékk jólakveðju frá Fjármálaeftirlitinu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2008 | 20:43
You ain't seen no-no-nothin' yet
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.12.2008 | 15:44
700 evru kynslóðin
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2008 | 13:02
Dr. Gunni, Hannes Hólmsteinn og IMF
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2008 | 17:42
Allir þingmenn þurfa að taka próf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.12.2008 | 12:07
Sukk eða bara löglegt svínarí?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2008 | 09:39
En Ísland? Hvar er Ísland?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2008 | 22:55
Þetta er algjör nagli
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)