Jóhanna er "hættulegt fólk"

SPEKILEKI er orð sem ég hef ekki heyrt áður. Þar er átt við að vel menntað fólk fer til annarra landa í leit að tækifærum. Hættan á slíkum flótta eykst í kreppunni. Viðbrögð stjórnvalda við henni geta því haft mikil áhrif á hve mikill "spekilekinn" verður.

EVA JOLY var í fréttaviðtali í Fréttablaðinu í liðinni viku. Þar ræddi hún m.a. rannsóknina á bankahruninu, lekann á lánabók Kaupþings, stöðu Valtýs saksóknara og fleira. Síðasti hluti viðtalsins ber millifyrirsögnina "Hættulegir stjórnmálamenn". Þar segir Eva Joly m.a.:

Það versta í heiminum eru atvinnustjórnmálamenn, til dæmis fólk sem hefur bara sinnt stjórnmálum í þrjá eða fjóra áratugi. Slíkt fólk er hættulegt.


Er hættulegt fólk á Alþingi Íslendinga?

Á þingi hefur orðið mjög mikil endurnýjun síðustu tvö árin. Hvorki meira né minna en 2/3 sitjandi þingmanna eru "blautir bakvið eyrun", þ.e. komu nýir inn á þing 2007 eða síðar. Að auki eru 7 sem tóku sæti á þingi í fyrsta sinn 2003.

Það komu 5 nýir inn í kosningunum 1999, svo það eru ekki nema 9 þingmenn af 63 sem hafa starfsreynslu upp á meira en áratug. Þeir eru:

  • 1995 - Ásta R. Jóhannesdóttir
  • 1995 - Pétur H Blöndal
  • 1995 - Siv Friðleifsdóttir
  • 1995 - Ögmundur Jónasson
  • 1991 - Einar K Guðfinnsson
  • 1991 - Össur Skarphéðinsson
  • 1983 - Árni Johnsen
  • 1983 - Steingrímur J Sigfússon
  • 1978 - Jóhanna Sigurðardóttir


Árni Johnsen hefur skemmri starfsreynslu á þingi en Einar K og Össur þar sem hann hefur tvívegis tekið hlé frá þingmennsku. Seinna skiptið vegna tæknilegra mistaka. Jóhanna Sigurðardóttir er eini þingmaðurinn sem nær að fylla þrjá áratugi, hefur setið 31 ár á þingi.

Samkvæmt mælikvarða Evu Joly er Jóhanna Sigurðardóttir sú eina sem flokkast undir "hættulegt fólk" á þingi í dag, en Steingrímur á eftir fáein meinlaus ár. Það eru hins vegar tæknileg mistök að Árni Johnsen eigi enn sæti á Alþingi. Mælt á sama kvarða var Davíð Oddsson aldrei neitt nálægt því að verða hættulegur.

Þó þaulseta á þingi sé ekki holl verður að líta til fleiri þátta áður en fólk er stimplað hættulegt. Nú þegar glímt er við stórmál á borð við IceSave er það tæplega til bóta að mikill meirihluti þingmanna hafi litla eða enga reynslu af löggjafarstörfum. Þó þetta sé upp til hópa vandað fólk og vel menntað, þá er reynslan þung á metunum þegar glímt er við erfiðleika af verstu gerð. Líklega hefur Alþingi Íslendinga aldrei verið jafn reynslulítið og einmitt núna.

Eykur það hættuna á spekileka?

 


mbl.is Óttast íslenskan spekileka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Jón

Stjórnmál einskorðast ekki við alþingi. Davíð var t.d. í borgarpólitíkinni frá 1974 og varð því hættulegur árið 2004, ef maður notar þín orð.

Margir aðrir stjórnmálamenn hafa verið í pólitík nánast síðan þeir skriðu úr skóla þó að þeir hafi ekki eytt öllum þeim tíma á alþingi, og hafi ekki 30 ára starfsaldur.

Einar Jón, 17.8.2009 kl. 18:01

2 Smámynd: Theódór Norðkvist

Spekileki er léleg þýðing á enska hugtakinu brain drain, sem táknar það að hugvitið fari úr landi vegna lélegra lífskjara, eða einfaldlega vegna þess að ákveðin lönd, t.d. Bandaríkin, yfirbuðu önnur ríki í launum og náðu þannig í bestu vísindamenn og hugvitsfólk í Evrópu og víðar.

Gamla góða orðið atgervisflótti nær merkingunni mikið betur, því við erum ekki bara að tala um að háskólamenntaða fólkið fari. Við missum líka verkkunnáttuna úr landi, ef lífskjör og aðbúnaður verður lakari hér en í nágrannalöndunum.

Theódór Norðkvist, 17.8.2009 kl. 18:58

3 Smámynd: Haraldur Hansson

Takk fyrir innlitið og athugasemdirnar

Einar Jón: Mikið rétt, stjórnmál einskorðast ekki við setu á þingi. T.d. hefur Kristján Þór verið bæjarstjóri víða um land eins lengi og elstu menn muna. Jafnvel lengur. Punkturinn með færslunni er ekki síst í síðasta hlutanum.

Theódór: Sammála því að allur fólksflótti er böl og sárt ef fólk þarf að yfirgefa landið gegn vilja sínum. Svo er það líka dýrt. Hvað kostar t.d. að fullmennta einn lækni? Ef 3-4 af hverjum 10 flýja land er orðið býsna dýrt, á hvern íbúa, að fullmanna heilsugæsluna. Þótt góðir iðnaðarmenn séu ekki jafn dýrir "í framleiðslu" er mikil eftirsjá af þeim líka. 

Haraldur Hansson, 18.8.2009 kl. 01:22

4 Smámynd: Elle_

Að ógleymdum öllum hundraða milljarða "skuldunum" sem enn færri landsmenn munu vera skattpínd fyrir eftri fólksflóttann.   Hlýtur að vera ólýsanlega svekkjandi fyrir Icesave-flokka og -sinna að geta ekki elt "skuldsetta" flúna borgara landsins út um víðan heim.  

Elle_, 18.8.2009 kl. 17:00

5 Smámynd: Elle_

. . . skattpíndir

Elle_, 18.8.2009 kl. 17:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband