Malta, Ísland og ESB (3)

„Möltubúar eru sannfærðir um að Íslendingar geti lært af reynslu sinni. Bæði um hvernig hægt er að ná hagstæðum samningum við embættismannaveldið í Brussel og hvernig smáþjóð lætur til sín taka á meðal stórþjóðanna í Evrópusambandinu."

Þannig voru lokaorðin í fréttaskýringu Fréttaauka RÚV um Möltu og Evrópusambandið. Þetta er þriðja og síðasta færslan um þátt Fréttaaukans. Fyrsta færslan er hér og önnur hér.


Viðmælendur Fréttaauka RÚV

Lawrence Gonzi forsætisráðherra staðhæfir að upptaka evrunnar hafi verið besta vörn atvinnulífsins og hún geri mönnum kleift að glíma við óróleika í efnahagslífinu. Þetta telur hann ljóst eftir að hafa verið með evruna í eitt ár og tíu mánuði.

Lawrence GonziHafa verður í huga að þegar Gonzi forsætisráðherra er spurður um ágæti ESB eru svör hans jafn fyrirsjáanleg og ef Hannes Hólmsteinn yrði spurður um hvort Davíð Oddsson hafi staðið sig vel eða illa í embætti. Eða ef Össur Skarphéðinsson spurður um rök með eða á móti ESB aðild Íslands.

Ef Gonzi gæfi ESB eitthvað annað en góða umsögn væri hann um leið að gefa sjálfum sér falleinkunn. Það er of langt mál að rekja þau miklu átök sem að baki eru frá umsókninni 1990 til inngöngu 2004. Átakasagan nær miklu lengra aftur og má lesa hana hér.

Kurt Sansone blaðamaður sagði: „Styrkur Möltu eykst við aðild." Ekki þarf að draga það í efa, enda sterkustu rök Maltverja fyrir inngöngu að marka sér stað meðal þjóðanna og undirstrika að þeir séu evrópskir (sjá hér: Spurning um sjálfsmynd).

Hann sagði líka: "Möltubúar notfæra sér framkvæmdastjórn ESB til að veita stjórnvöldum aðhald." Hvaða tök það eru sem maltverskir kjósendur hafa á Brusselvaldinu er mér hulin ráðgáta. Ef ný reglugerð er samþykkt í Brussel verður hún sjálfkrafa að lögum í öllum aðildarríkjunum, líka Möltu. Það er fjarstýring, ekki aðhald.

Lino Briguglio, hagfræðiprófessor, sagði „þótt þjóðin sé fámenn þarf hún að taka upp jafn margar tilskipanir og Þjóðverjar" og þess vegna starfa margir Möltubúar í Brussel. Hann telur, eins og forsætisráðherrann, að Malta hafi náð góðum samningi, en nefndi ekkert dæmi um ágæti hans.


Getum við lært af reynslu Möltubúa?

„Ef sett eru fram öflug rök, studd tölum og rannsóknum, þá nær maður sínu fram í rökræðum" sagði Lawrence Gonzi forsætisráðherra og lagði áherslu á vandaðan undirbúning. Helstu ráðin sem fram komu voru mikilvægi þess að hafa réttu mennina í framvarðasveitinni. Bæði að hafa gallharða samningamenn og svo öfluga fulltrúa í Brussel að samningaferlinum loknum.

Um þetta þarf enginn að efast. En þetta hefur ekki dugað Möltu.

Malta off seasonHvað sem mönnum kann að finnast um Evrópusambandið þá stendur það sig mjög vel að einu leyti. Það gefur út ógrynni af upplýsingum og á netinu er hægt að sjá reglugerðir, tilskipanir og samninga. Ef rýnt er í samninga Möltu þá er ekkert merkilegt við þá. Ekkert sem gerir þá sérstaka eða góða. Hástemmdar lýsingar á glæsilegum samningi eru jafn innantómar og loftbóla íslenska efnahagsundursins.

Það sem Malta „fékk" er að halda reglum um íbúðarhúsnæði, óbreyttum lögum um fóstureyðingar, reglur um báta og veiðarfæri innan 12 mílna landhelgi og eitthvað annað sem ég man ekki hvað var.

Það er eins og Maltverjar telji það „glæsilegan samning" að hafa smíðað aðlögunarreglur um ýmis atriði. Þau gætu verið 70, ég taldi það ekki. En það eru bara aðlögunarreglur, sem allir fá. Þær eru ekki um hvort heldur hvenær nýtt aðildarríki tekur að fullu upp regluverk ESB. Hvort það taki eitt ár, þrjú ár eða fimm ár.

Það er eitt og aðeins eitt í boði við inngöngu í ESB: Evrópusambandið.


Jörðin er flöt. Af því bara!

Ef Össur og Samfylkingin hefðu gert einn þátt um efnið og félagar í Heimssýn annan hefðu orðið til tveir ólíkir þættir. Þegar RÚV býr til þátt ætti hann að vera einhvers staðar þar á milli. Hlutlaus og áreiðanlegur. RÚV hefur boðað frekari umfjöllun um Evrópusambandið. Þetta er viðkvæmasta utanríkismál í sögu lýðveldisins og mjög umdeilt. Því skiptir miklu máli að RÚV standi vaktina af fagmennsku, njóti trausts og miðli vönduðum hlutlausum upplýsingum.

RUVSú mynd sem Fréttaaukinn dró upp var að Matverjar væru hæst ánægðir og sáttir með lífið eftir inngöngu. Efnahagurinn og evran eru stór þáttur í ESB mynd Maltverja. Samt sýnir könnun sem Ein News Service birti á mánudag að þriðji hver Maltverji hefur ekki orðið var við efnahagsbata (hér, áskrift). Hagtölur sýna ekki batamerki.

Beinharðir peningar streyma til Möltu, var sagt. Það rímar ekki við frétt New Europe um að tvö síðustu ár hafa greiðslur Möltu til ESB verið hærri en mótteknir styrkir (hér). Fréttir sem finna má á maltverkum, breskum og öðrum vefmiðlum flytja ekki sömu tíðindi og Fréttaaukinn.

Þá virðist sem litið sé framhjá atriðum sem ekki teljast jákvæð fyrir ESB aðildina en hamrað á einum pólitíkus sem ekki vildi veita viðtal. Til viðbótar við það sem þegar hefur verið nefnt kom ekki fram að verðbólga hækkaði við upptöku evru, eða að tekjur eru enn aðeins 74,5% af meðaltekjum sambandsins. Skautað framhjá vanda vegna mikillar fjölgunar ólöglegra innflytjenda, sem menn telja erfiða hliðarverkun aðildar (hér) og ekki nefnt að undanfarin þrjú ára hafa 30 þúsund manns á Möltu þurft að treysta á matvælaaðstoð (hér) þrátt fyrir glæsilegan samning, svo dæmi séu nefnd. RÚV féll á prófinu. Big time.

 

Við skulum vona að nýskipuð framvarðasveit Íslands standi sig betur en sú maltverska. Við þekkum af reynslunni að samningur verður ekki góður við það eitt að vera kallaður "glæsilegur samningur". Ekki frekar en að jörðin verði flöt bara af því að einhver segir það. Íslenska nefndin þarf að standa sig virkileg vel.

Síðan þarf íslenska þjóðin að gera enn betur og fella þessa vitleysu með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.

 


mbl.is Samninganefnd vegna ESB skipuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Takk kærlega fyrir þennan góða pistil Haraldur og takk fyrir alla vinnuna sem þú vannst og  RÚV vann ekki sökum leyndrar dagskrár þeirrar stofnunar allra landsmanna, - nema Íslendinga.  

Leonard Shapiro ritaði um Sovétríkin að “hið sanna markmið áróðurs er ekki að sannfæra né hvað þá að telja fólki trú um eitthvað, nei, hið sanna hlutverk áróðurs er að búa til heilsteyptan jafnsléttan opinberan jarðveg þar sem fyrstu sprotar hugsana trúvillinga munu birtast sem brak og brestir mishljómsins. Í nótnabók Evrópusambandsins eru ósamhljóma raddir ekki liðnar.

1) Þessvegna mælir forsætisráðherra Möltu með ESB. Hann getur ekki annað. 

2) Þess vegna mæla finnskir pólitíkusar ennþá með evru, þó svo að hún sé að kollsigla efnahag Finnlands

3) Þess vegna heyrist aldrei neinn háttsettur stjórnmálamaður í Evrópusambandinu segja annað en það sem Brussel vill að þeir segi.

Þetta er skítabandalag.

Gunnar Rögnvaldsson, 4.11.2009 kl. 21:52

2 identicon

Gunnar, átt þú ekki heima í þessu "skítasambandi" eins og þú kallar ESB. Hræsnin í þér er svo mikil að hún sést alla leið frá Íslandi, og það vel. Hvort sem er í gengum þoku, blind byl eða þykka snjóskafla.

Þetta er nú meiri vitleysan sem kemur frá fólki hérna.

Greinin hjá Hans er ekkert nema einn stór útúrsnúningur, og það mikill. Það liggur ennfremur fyrir að fullyrðingar andstæðinga ESB standast ekki. Þetta vita allir íslendingar sem hafa farið í frí til Evrópu, hvort sem er til Spánar, Danmörku, Svíþjóðar, Bretlands, Hollands, Belgíu, Ítalíu, Möltu osfrv.

Þær lýsingar og fullyrðingar sem andstæðingar ESB koma með hérna eiga bara einfaldlega ekki við rök að styðjast og þar við situr. Það er ennfremur ekkert sem breytir þessari staðreynd, gildir þá einu hversu mikla þvælu andstæðingar ESB skrifa.

Jón Frímann (IP-tala skráð) 5.11.2009 kl. 00:46

3 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Hafðu bestu þakkir fyrir góða samantekt.

Axel Þór Kolbeinsson, 5.11.2009 kl. 08:31

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Svo ég upplýsi þig nánar Jón minn Frímann.

Danmörk er hluti af NORÐURLÖNDUNUM. Það er Ísland líka. Þökk sé Norðurlandasamstarfinu þá flutti ég hingað fyrir 25 árum. Þetta var og er nefnilega eina samstarfið í Evrópu sem virkar sæmilega.

Þegar ég flutti til Danmerkur var Evrópusambandið ekki til Jón. Okkur var sagt það hér í þjóðaratkvæðagreiðslunni um EF pakkann árið 1986 að Evrópusambandshugmyndin væri steindauð og að gamla EF myndi aldrei þróast í neitt sem gæti líkst Evrópusambandinu, það myndi aldrei gerast.

En þetta reyndist vera lygi og óskhyggja forsætisráðherra lítils lands í Evrópu sem ofmat stöðu þessa litla lands innan klúbbs fyrirmanna og elítu Evrópu. Svo núna er Danmörk í þessu Evrópusambandi sem forsætisráðherra Danmerkur fullvissaði þjóð sína um að myndi aldrei verða til. Þjóðinni var hreinlega logið inn í ESB. Þetta tók ekki nema nokkur ár.

Poul Schlüter 1986: Evrópusambandið er steindautt

Ekki að furða þó að Dönum finnist þeir vera í skítabandalagi. En þeir komast ekki út úr því aftur. Aldrei. Þeir eru fastir í skítnum.   

Gunnar Rögnvaldsson, 5.11.2009 kl. 10:15

5 Smámynd: Haraldur Hansson

Takk fyrir innlitið og athugasemdirnar.

Gunnar: það væri fróðlegt að vita hvaða einkunn Chomsky gæfi íslenskri fjölmiðlun síðustu ára. Áróður er ofbeldi.

Jón Frímann: "... eiga bara einfaldlega ekki við rök að styðjast og þar við situr" hljómar svolítið eins og Jörðin er flöt. Og fullyrðingin " ... ekkert sem breytir þessari staðreynd" eins og Af því bara. Í færslunni eru kannski skoðanir sem þú ert ósammála, en engin fullyrðing án stoðar.

Axel Þór: Það væri hægt að bæta við færslu sem væri lengri en þessar þrjár til samans. Mæli eindregið með forsögunni sem vísað er á í færslunni. Hún geymir bakgrunn sem hefði mátt draga fram í þættinum.

Haraldur Hansson, 5.11.2009 kl. 13:00

6 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Jón Frímann skrifaði: 

"Þetta vita allir íslendingar sem hafa farið í frí til Evrópu, hvort sem er til Spánar, Danmörku, Svíþjóðar, Bretlands, Hollands, Belgíu, Ítalíu, Möltu osfrv."

Kæri Jón minn Frímann:

Þar sem Íslendingar hafa það gott halda þeir að allir aðrir hafi það gott. Þetta er lögmálið um: "ef ég hef það gott þá hljóta allir aðrir að hafa það gott".

Heldur þú að Íslendingar í sumarfríi á Suður-Spáni hafi hugmynd um að það er 30% atvinnuleysi fyrir utan hótelið hjá þeim?  Eða íslenskir námsmenn sem búa í yfirstéttar virtual reality á lánum erlendis.

Ergo: ef ég hef það gott þá hafa allir aðrir það gott (not). Spurðu Egil Helgason hjá Ríkisóhappinu RÚV, hann var í Grikklandi og hafði það svo gott => allir Grikkir hafa þá svo gott. Einfalt. Hann veit þetta.   

Gunnar Rögnvaldsson, 5.11.2009 kl. 13:42

7 identicon

Hver tekur nú orðið mark á Jóni Frímanni?  Hann er gjörsamlega heilaþveginn að ESB-heilkenninu og heldur að ESB sé bara hreinn gróði og ávinningur fyrir Ísland.

Já, fólk sem ferðast um ESB lönd eins og Spánar, Svíþjóð, Danmörku, Bretlands, Hollands, Belgíu, Íalíu og Möltu sjá hvað Jón Frímann?

Er þá ekki alveg eins hægt að segja að fólk sem ferðast til Bandaríkjanna heillast svo að öllu þar, að Ísland verður að ganga í Bandaríkin?

Ja, fjarlægðin gerir fjöllin blá og ESB mikið.

Jón Frímann, veistu ekki að Evrópulönd byggja á gömlum efnahagslegum, félagslegum, menniningarlegum og samfélagslegum merg sem varð til löngu fyrir daga ESB.  Þessi lönd byggðust upp og þróuðust mörgum öldum undan Íslandi.  ESb hefur ekkert með það að gera.  Ísland komst fyrst inn í nútímann eftir Seinna stríð. 

Og Jón Frímann, hættu að segja við alla þá sem ekki eru jafn sanntrúaðir á ESB og þú , um að vera með bull og þvælu, og staðlausar staðreyndir. 

Þar að auki segir þú að allt það góða um ESB sem þú segir séu STAÐREYNDIR, í einskonar miklum hugaræsingi.  Þetta eru kannski staðreyndir í þínum huga, en ekki annarra.

Jón Frímann, þú sér ESB í einhverju hyllingum, en mikið held ég að vonbrigði þín verði mikil ef Ísland gengur í ESB.  Það er nefnilega þannig að allt sem maður hefur ekki en langar mikið í er ekki eins æðislegt þegar allt kemur til alls.  Grasið er ekkert grænna hinum meginn, þó maður haldi það eins og þú heldur um ESB.

Eyvindur B. Gylfason (IP-tala skráð) 5.11.2009 kl. 15:10

8 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Þakka þér fyrir samantektirnar Haraldur, þær eru athyglisverðar og afar fróðlegar.  RÚV kemur mér ekki á óvart verð ég að segja.  Ég hef því miður oft orðið var við óvandaðan fréttaflutning á þeim bæ.

Tómas Ibsen Halldórsson, 6.11.2009 kl. 13:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband