14.10.2009 | 18:41
Ef þú trúir því ...
Sem betur fer búum við Íslendingar ekki við þá ógn sem steðjar að ESB og lýst er í viðtengdri frétt. Hér er aldurssamsetningin hagstæðari og fæðingartíðnin hærri. Það eru því fleiri sem standa undir rekstri samfélagsins.
ESB er að breytast í elliheimili, lokað bakvið tollamúra. Samt er enn til fjölmennur hópur sem vill koma Íslandi þangað inn. Sumir vegna evrunnar, aðrir til að losna við spillingu og klíkuskap og enn aðrir bara af því að þeir eru kratar.
Ef þú trúir því að til að losna við spillingu þurfi að ganga í ESB, kynntu þér þá Ítalíu Berlusconis. Mafían þrífst enn þrátt fyrir áratugaveru í sambandinu.
Ef þú trúir því að við losnum við klíkuskap innan ESB, skoðaðu þá nýja frétt frá Frakklandi um skólastrák sem fékk yfirmannsstöðu í La Defense. Hann er sonur forsetans.
Ef þú trúir því að fámennið orsaki klíkuskap og spillingu, þá bendi ég á að Frakkar eru 63,4 milljónir og Ítalir 60 milljónir. Ætli sé einhver spilling í Kína?
Ef þú trúir því að aðild að ESB hefði forðað okkur frá bankahruni, kynntu þér þá bankahrunið á Írlandi, ástandið í Lettlandi og horfurnar í S-Evrópu.
Ef þú trúir því að ESB færi okkur hagvöxt og bætt lífskjör, kynntu þér þá sorglega sögu Nýfundnalands. Örlög okkar innan Nýja ESB gætu hæglega orðið þau sömu.
Ef þú trúir því að ESB færi okkur aukna hagsæld, kynntu þér þá kenningar Elinor Ostrom, nýkrýnds Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, um meðferð og nýtingu auðlinda. Þær mæla gegn inngöngu.
Ef þú trúir því að það sé lýðræði innan ESB, þá leggjum við ekki sama skilning í orðið lýðræði.
Ég trúi því að þessi kreppa gangi yfir eins og aðrar. Ég hef líka trú á íslensku þjóðinni, þrátt fyrir hrunið, að við getum lært af reynslunni og gert betur. Að það sé skynsamlegra að við förum sjálf með forræði eigin mála en að flytja löggjafarvaldið til Brussel.
Fjölgun lífeyrisþega stærri vandi en kreppan í ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sammála - það væru skelfileg og óafturkræf mistök að ganga í ESB.
, 15.10.2009 kl. 01:22
Þetta var skemmtilegasti listi með góðum dæmum sem við þekkjum öll..!!
Lítið spennandi að fara í þennan fínu kalla klúbb...
Jón Ásgeir Bjarnason, 15.10.2009 kl. 09:52
Takk bæði fyrir innlitið og athugasemdirnar.
Þessi listi er bara í stikkorðastíl, þó það hafi verið freistandi að gera hann lengri og innihaldsmeiri. Af nógu er að taka, ekki síst þar sem peningar eru í spilinu eins og t.d. í landbúnaðinum. Þar er enginn skortur á spillingu.
Haraldur Hansson, 15.10.2009 kl. 13:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.