14.8.2009 | 18:47
HIN ÍSLENSKA "GLÆPAÞJÓÐ"
"Á glæpaþjóðin einhvern valkost?" var skrifað í athugasemd við síðustu færslu. Hún var um grein sem Sigurður Líndal lagaprófessor skrifaði um IceSave. Þar segir hann að grundvallarreglum í samskiptum siðaðra þjóða hafi verið vikið til hliðar í deilunni. Það var "þægilegt að fórna Íslandi", enda skipti það Evrópu litlu sem engu máli.
Andstaðan almennings við IceSave byggist fyrst og fremst á því að Bretar neyttu aflsmunar í málinu. Réttlætiskenndin segir okkur að það eigi aldrei að láta ofbeldi óátalið, sama í hvaða mynd það birtist. Það vill enginn víkjast undan ábyrgð en heldur ekki láta þröngva upp á sig óréttmætum drápsklyfjum í krafti hnefaréttar.
Eru Íslendingar glæpaþjóð?
Mér þykir mjög dapurt þegar ég heyri Íslendinga réttlæta IceSave skuldbindingar með því að dæma sig glæpaþjóð. Mafían gerir ekki sikileyska bændur að glæpamönnum, eins og bent er á í annarri athugasemd. Idi Amin var hrotti en það gerir ekki börn í Uganda að glæpamönnum. Þrjátíu íslenskir útrásardólgar létu stjórnast af glæpsamlegri græðgi, en það gerir okkur ekki að glæpaþjóð. Og ekki koma með skýringuna "við kusum þetta yfir okkur í mörg ár í röð", hún heldur ekki. Andrés Magnússon kom vel inn á það í ræðu sinni á Austurvelli í gær.
Og jafnvel þótt einhver vildi hanga á þessari "skýringu" þá réttlætir hún ekki IceSave samninginn. Engan veginn. Í siðmenntuðum réttarríkjum eiga jafnvel hörðustu glæpamenn stjórnarskrárvarinn rétt til málsmeðferðar fyrir dómi. Að maður sé saklaus uns sekt er sönnuð. Að skorið sé úr um sekt eða sýknu eftir málflutning sækjanda og verjanda. Að dæmt sé samkvæmt lögum.
Bretar tóku sér þann rétt, í kafti stærðarinnar og í trássi við leikreglur, að vera sækjandi, verjandi og dómari í málinu. Neituðu eðlilegri dómstólaleið. Þeir bjuggu til nauðungarsamning að eigin geðþótta. Í því liggur kúgunin sem íslenskur almenningur á að þurfa ekki að sætta sig við. Það á að fara að leikreglum siðaðra þjóða og leita réttlátrar niðurstöðu.
Veikir fyrirvarar verri en engir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Vilji fólk eins og Finnur kalla sig sjálfan glæpalýð, getur hann haldið okkur hinum utan við það. Ég get ekki skilið það öðuruvísi en hann haldi sig vera glæpamann ef hann er hluti af glæpaþjóð. Kúgun er ofbeldi og við getum ekki og munum ALDREI geta sætt okkur við að vera kúguð inn í dráps-skuld sem við hvorki skuldum í alvöru né lagalega. Fjöldi fólks MUN bætast í hóp þeirra sem nú þegar eru flúnir landi, komist þeir sem vilja og ætla, upp með að fá svikin undirskrifuð. FJölda fólks ofbýður og vill ekki búa í landi þar sem þeirra eigin yfirvöld níðast á þeim.
Elle_, 14.8.2009 kl. 21:03
Það ríkir algjör trúnaðarbrestur við ríkisstjórnina. Við erum með fólk yfir okkur sem vill hneppa okkur í þrældóm, og sem fær til sín norska þjóðníðinga eins og Kristin Halvorsen til að hóta okkur öllu illu ef við borgum ekki skuldir bankalýðsins.
Ríkisstjórn þessi verður að segja af sér. Hún starfar ekki lengur í umboði Íslendinga. Hún stundar lygar og pretti og ætlast til samstöðu.
Það eina sem hún ætti að fá er vika til að hypja sig úr landi.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 14.8.2009 kl. 22:27
Íslendingar eru að verða hálf-dasaðir á þessu framferði stjórnarflokkanna. Takk fyrir góðan pistil.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 14.8.2009 kl. 23:47
Vel mælt, Haraldur.
Það ætti að kaghýða þá menn sem kalla okkur glæpaþjóð.
Svo vil ég bara bæta því við, að Sigurður Líndal er eitthvað úti að aka að átta sig ekki á gríðarlegri þýðingu Íslands fyrir Evrópubandalagið. Að vinna það án þess að hleypa af byssukúlu væri þeim makalaus ávinnigur og myndi gera þeirra næsta herfang léttara: Noreg – og síðan Grænland. Þetta er stórveldapólitík eins og hún gerist svæsnust, þótt slétt og felld eigi að heita. Sjá þessar greinar mínar: Björn Bjarnason flytur stórmerkar uppl. um erlend skrif um Ísland, ESB og mikilvægi norðurslóða ... og Frakkar og ESB hyggja á stórsókn á norðurhjarann, með fiskveiðar, orkuauðlindir og herviðbúnað í huga – innlimun Íslands mikilvægur áfangi á þeirri hagsmunaleið.
Með góðri kveðju,
Jón Valur Jensson, 15.8.2009 kl. 02:54
Heyr, heyr
Þór Ludwig Stiefel TORA, 15.8.2009 kl. 08:14
Það er með ólíkindum hversu margir trúa því að okkur beri að borga Icesave "skuldir". Ég verð stundum nánast kjaftstop að heyra hversu lítið fólk setur sig inn í málið. Ég gengst vissulega við því að FME stóð sig hræðilega og að til sanns vegar megi færa að okkur beri að bæta fyrir það slaka eftirlit, en alls ekki þessar upphæðir. Sú upphæð sem okkur bæri að greiða fyrirfinnst ekki í sama póstnúmeri og Icesave upphæðirnar.
Svo er vitanlega annað mál að við ættum að stofan til sjóðar, sem hefði þá "sjálfstæðu" stefnu að bæta líknarfélögum, breskum sem og hollenskum, þann skaða sem þau hafa hlotið. Það sama ætti við um spítala. Hver sú stofnun eða samtök sem þess nytu þyrftu "bara" að auglýsa það kyrfilega hvað þessi "sjálfstæði" íslenski sjóður væri að gera þeim gott til. Auglýsingagildið og "goodwill'ið" sem við ynnum með því er ómetanlegt. Augljósi tilgangur þeirrar aðgerðar (birtséð frá öðrum málalyktum) er að við njótum réttlátari meðferðar í umræðunni erlendis.
Haraldur Baldursson, 15.8.2009 kl. 10:36
Það lítur út fyrir að þingið ætli að samþykkja þetta með þessum fyrirvörum.
Ég flyt með mína fjölskyldu úr landi verði það.
Ég ætla ekki að taka við reikningnum fyrir þjófnaði Björgólfs og Kjartans Gunnarssonar.
Þeir sem telja sig eiga kröfu á þá félaga verða að beina henni annað en til mín.
Það mun aldrei renna ein einasta króna frá mínu heimili í þessa vitleysu.
Eina von ykkar sem eftir verða hér á þessu spillingar skeri er að koma á þjóðstjórn, og hrinda samningnum á þeim forsendum að þjóðin hafi verið beytt fjárkúgunum og hótunum sem ógilda samninginn.
Sigurður #1 (IP-tala skráð) 15.8.2009 kl. 15:30
Sigurður #1
Við munum sannanlega sakna hvers og eins sem af landinu hverfa. Það er gríðarlega sorglegt að sjá á eftir öllu því hæfa fólki sem er að hverfa héðan. Ein helsta útflutningsgrein okkar er nú að verða búslóðir. Ég þekki orðið svo marga sem eru farnir, eða eru á leiðinni héðan næstu daga...gríðarlega hæft fólk og duglegt, sem erfitt verður að leysa af hólmi. Íslenska þjóðin á eftir að líða fyrir þetta brotthvarf.
Í mínum huga er það kjarkleysi stjórnmálamanna sem er fyrst og fremst að valda þessu.
Kjarkleysi !
Haraldur Baldursson, 15.8.2009 kl. 16:16
Sigurður #1. Haraldur kom hugsunum mínum vel fram. Það er bara sorglegt að missa hæft fólk úr landi vegna aumingjaskapar yfirvalda og þjófa.
Elle_, 15.8.2009 kl. 16:51
Tek undir þetta.
Það er alveg með ólíkindum að horfa upp á íslendinga kalla þjóð sína (og sig sjálfa þá með) gráðuga þjóð, eða glæpaþjóð eins og þú segir.
Alveg ótrúlegt að horfa upp á.
Hvað eru þessir einstaklingar að hugsa? eru þetta kannski einhverjir útrásarvíkingar að setja inn athugasemdir eða einhverjir tengdir þeim? ég leyfi mér að efast um það. Ég tel að þetta séu aðilar sem hafa meðal annars látið glepjast af tali ríkisstjórnarinnar um að "við verðum að borga þetta" ... "þetta er á okkar ábyrgð" og svo framvegis .. og síðan þetta að þjóðin hafi verið svo gráðug afþví að hún keypti sér flatskjá og bíl. Þetta sögðu útrásarvíkingarnir í viðtölum í kringum hrunið .. þjóðin var orðin svo gráðug .. þetta gerðu þeir til að þyrla upp ryki til að fela glæpi sína.
Maður reynir að benda fólki á hve mikið rugl það er að láta út úr sér .. en í fæstum tilvikum lætur það segjast.
Heilaþvottur í fjölmiðlum í eigum útrásarvíkinga??
ThoR-E, 15.8.2009 kl. 17:13
Takk öll fyrir innlitið og athugasemdirnar.
Í samfélagi vestrænna þjóða á 21. öld á ekki að skipta máli hvort sá sem deilt er við er jafnoki eða 200 sinnum stærri. Sá sem hefur réttinn sín megin er aldrei minni máttar. Þess vegna er kjarkleysi íslenskra stjórnvalda svo grátlegt. Að hræða sína eigin þjóð til að beygja sig fyrir kúgun er ófyrirgefanlegt.
Ég hef ekki sett mig nógu vel inn í nýju "fyrirvarana" og tjái mig því ekki um þá að sinni.
Haraldur Hansson, 15.8.2009 kl. 23:33
Afar vel mælt hjá þér, Haraldur: "Sá sem hefur réttinn sín megin er aldrei minni máttar. Þess vegna er kjarkleysi íslenskra stjórnvalda svo grátlegt. Að hræða sína eigin þjóð til að beygja sig fyrir kúgun er ófyrirgefanlegt."
Jón Valur Jensson, 16.8.2009 kl. 00:56
Góður pistill. Íslenska þjóðin er ekki glæpahyski og stjórnvöld hafa engan rétt á að snúa okkur í svaðið með samþykkt nauðungarsamnings.
, 16.8.2009 kl. 12:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.