Steingrímur Joð í kassa

Vinstri-græn gengu til stjórnarsamstarfs með hreinan skjöld, saklaus af þeim sóðaskap sem komið hefur Íslandi í hörmungarstöðuna sem við blasir. Steingrímur J Sigfússon, sem alltaf hefur virkað trúverðugur pólitíkus, fékk það erfiða hlutverk að stýra fjármálaráðuneytinu. Þangað hafa safnast mörg verstu málin sem við er að glíma. Hann þarf að hreinsa til eftir aðra, taka margar erfiðar ákvarðanir og sumar óvinsælar.

En ráðherrar eru mannlegir og enginn er óskeikull.

KassinnEr Samfylkingin stikkfrí í þessum málum? spurði Sigmar í Kastljósinu í gær. Steingrímur sagðist fá fullan stuðning frá samstarfsflokknum. IceSave er stærst þeirra stórmála sem fjármálaráðuneytið þarf að sinna núna. Þegar menn vinna langa vinnudaga og vikum saman að erfiðum verkefnum er hætta á að menn verði á endanum "hluti af verkefninu" sjálfir, það þekki ég af eigin raun. Vegna þreytu tapast skerpa og menn hætta að geta hugsað útfyrir kassann til að skoða ný sjónarhorn.

Í Kastljósinu í gær fannst mér Steingrímur einmitt vera komin í þessa stöðu, því miður. Hann bandar frá sér skoðunum sem ekki ríma við hans eigin, stillir sjálfum sér upp sem fórnarlambi aðstæðna og lætur sem leiðin sé endanlega mörkuð og hann fái engu um framvinduna ráðið. Ráðherrann er orðinn hluti af verkefninu og búinn að loka sig inn í kassa og missa jarðsambandið. Þó að hann sé vissulega flugmælskur virkar hann uppgefinn, skiljanlega.

Það er rétt hjá Steingrími að nú þurfa allir að leggjast á árarnar og finna farsæla leið út úr briminu. En menn verða þá líka að fá að komast að árunum. Það gengur ekki ef verkstjórinn er örmagna af þreytu, búinn að tapa fókus og bandar frá sér þeim sem vilja endurskoða stefnuna og samræma áralagið.

SlökunÉg legg til að Steingrímur fari heim úr vinnunni strax eftir hádegið í dag. Slökkvi á símanum og taki sér langt helgarfrí. Splæsi á sig nuddi og slökun, lesi falleg ljóð, horfi á enska boltann og fái sér kaldan bjór með. Hlaði batteríin. Hann getur svo mætt aftur til vinnu eftir nokkra daga með skarpari fókus, ef hann vill áfram vera ærlegur pólitíkus.

Það getur verið hættulegt að setjast of þreyttur undir stýri. Það er líka varasamt að maður sem er örmagna af þreytu stýri svo stóru og snúnu máli sem IceSave er.

Hann lagði þunga áherslu á að halda stjórninni gangandi. Þó það sé góðra gjalda vert má miðpunkturinn í IceSave ekki vera sá að kosta öllu til til að halda einni ríkisstjórn saman. Þetta er of stórt mál til þess.  

 


mbl.is Vill ekki stríð við aðrar þjóðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Ágæti Haraldur.  Mjög er ég thér sammála,  thegar thú segir ad  fjármálaráðherrann taki sé pásu um helgina.  Thad er staðreynd, thegar menn hvílast og hugsa um allt annað en thad sem vinnunni við kemur,  thá för maður allt aðra sýn á málin.

Þorkell Sigurjónsson, 7.8.2009 kl. 13:21

2 Smámynd: Finnur Bárðarson

Ef hægt er að tala um að einhvern sem er að vinna þá er það Steingrímur. Það er auðvelt að vera á hliðarlínunni og skammast. En ég held hann þurfi kvíld og nudd og glas af rauðvíni.

Finnur Bárðarson, 7.8.2009 kl. 17:33

3 Smámynd:

Þetta gæti verið rétt hjá þér Haraldur. En hvílík vonbrigði sem SJS hefur valdið kjósendum VG með þessum verknaði og daðri sínu við ESB. Við skulum vona að helgarfrí komi honum á réttan kjöl þótt seint sé. Vonandi verður það ekki um seinan.

, 7.8.2009 kl. 18:07

4 Smámynd: Haraldur Hansson

Takk fyrir innlitið og athugasemdirnar.

Mér sýnist við sammála um að Steingrímur Joð hefði gott af smá hvíld.  Ekki verður hann sakaður um að svíkjast um í vinnunni. 

Þó trúverðugleikinn hafi laskast í ESB málinu vil ég (enn) láta Steingrím njóta vafans og skrifa málflutning hans á þreytu. En hann hefur ekki marga daga til að skerpa fókusinn og fara að tala eins og málsvari íslensku þjóðarinnar. Eva Joly á ekki að vera ein í því hlutverki.

Haraldur Hansson, 7.8.2009 kl. 18:13

5 Smámynd: Elle_

Kæri Haraldur.  Það er mikið vit í þessum pistli þínum.  Þó vil ég bæta við að Steingrímur J. virðist vera kominn allftof langt í burtu frá hættu og þungamiðju bæði EU og Icesave þar sem þungamiðjan virðist vera falin í að þóknast Evrópu-flokknum og geta þannig haldið saman stjórninni.   Það er Evrópu-flokkurinn sem er hættulegur og skaðlegur og ætti að stoppa núna og fjarlægja frá þeim sem eru að vinna við Icesave.   Steingrímur J. getur ekki gert þetta einn og óstuddur inni í járnkassa hins flokksins.  

Elle_, 7.8.2009 kl. 18:29

6 Smámynd: Himmalingur

Mæli ekki með því að karlanginn horfi á fótbolta. Að horfa á fótbolta er langt í frá afslappandi. Hætt er við að Steini karlinn tapaði sér endanlega ef hann mundi horfa á spennandi fótboltaleik. Steini er ekki þreyttur, heldur yfirkeyrður, og þá verður mönnum á!

Kveðja á þig, kæri Haraldur!

Himmalingur, 7.8.2009 kl. 19:20

7 identicon

Steingrímur J. er ekki búinn á því ef ég þekki hann rétt og miðað við hvernig hann bar sig í gær. Viljið þið e.t.v. Árna Matt. eða jafnvel Bjarna Ben. í staðinn? Þeir væru að sönnu ekki búnir að leggja jafn mikið á sig og Steingrímur og væru því úthvíldari, en samt....

Ég er ekki flokksfélagi Steingríms lengur (var það lengi í ABl) en hann er hugsjónamaður sem veit alveg sín takmörk og virðir þau þegar og ef.

Hann sagði í gær að mestu skipti að félagshyggjustjórn væri við stýrið í endurreisninni og þar er ég og meirihluti þjóðarinnar sammála honum. Því brýni ég Steingrím að tala við sitt eigið fólk sem ekki hefur skilið að við verðum öll að færa einhverjar fórnir til að svo megi verða.  

Það er mikill mannsbragur á þeim Steingrími og Jóhönnu! 

Telja einhverjir heilvita menn Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn færa um að leysa þau risavöxnu vandamál sem við almennir Íslendingar stöndum frammi fyrir? 

Steingrímur stóð sig eins og hetja í Kastljósinu í gær og ég bíst við að hann og ríkisstjórnin haldi áfram á sömu braut og klári erfiðu málin eitt af öðru. Það eru erfið verkefni eftir, við þurfum heilbrigðara ríkiskerfi, losna við óhæft fólk sem voru einkavinir og pólitískir gæðingar fyrri ríkisstjórna sem eru margir í lykilembættum bæði í fjármálakerfinu sem ríkið ræður fyrir nú og í stjórnkerfinu, meiri áherslu þarf á upplýsingar og gegnsæi gagnvart almenningi. Dæmigert og gott framtak á þessu sviði er stuðningur við viðleitni skattakerfissins til að sinna sínu hlutverki sem best.

Verkin tala hjá þeim sem nú standa í stafni þjóðarskútunnar og munum að klappa þeim á öxlina þegar brotsjóirnir ganga yfir þau. 

Unnur G. Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 7.8.2009 kl. 22:28

8 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Mæli einnig með að lyfta járnum. Það eykur mönnum hugrekki

Gunnar Rögnvaldsson, 8.8.2009 kl. 12:39

9 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þetta er skynsamlegur pistill en tek þó undir með athugasemd Hilmars þar sem fótbolti virðist bara alls ekki hafa afslappandi áhrif á þá sem horfa á hann

Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.8.2009 kl. 03:00

10 Smámynd: Haraldur Hansson

Steingrímur er fyrrum íþróttafréttamaður og fer létt með einn lítinn leik án þess að fara á taugum. Og það er gott að lyftja járnum, eins og skáldið sagði:

   Á Atlas og Möller,
   þrotlausa leggjum við stund.
   Lóðunum lyftum,
   glímu við iðkum og sund.
   Við erum komnir til að sjá og sigra
   Sigurjón digra.

Haraldur Hansson, 10.8.2009 kl. 17:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband