Lögfræðiálit í boði Baugs?

Það fyrsta sem maður rekur augun í er merki LOGOS í bréfhausnum. Það eru ekki nema þrjár vikur síðan lögreglan og sérstakur saksóknari gerðu húsleit hjá lögmannsstofunni vegna meintra auðgunarbrota. Það er ekki heppilegt að álitið sé merkt LOGOS.

Lögfræðingurinn, Jakob R. Möller, var verjandi í Baugsmálinu og lögmannsstofan hefur víðtæk tengsl við Baug. Nú, þegar trúverðugleiki er talinn lykilatriði, verður val ríkisstjórnarinnar á lögmanni að teljast klaufalegt.

Svo hefst lesturinn.
„Mér er tjáð ..." kemur fyrir tvisvar í inngangi og bendir til að ekki hafi verið unnið eftir skjalfestum gögnum. Orðalagið gefur til kynna að ekki hafi verið rætt við hlutaðeigandi til gagnaöflunar heldur upplýsingar fengnar munnlega frá þriðja aðila. Var þessu hespað af í flýti?

lawyersNokkrar athugasemdir eru áhugaverðar. T.d. um vaxtakjör í 7. gr. og gjaldfellingarákvæði í 12. gr., þar sem í báðum tilfellum er borið saman við almenn lán. Hér er þó um að ræða nauðasamninga um ríkisábyrgð, þar sem þvingunum var beitt. Fleiri dæmi má nefna sem sýna frekar hollustu við verkkaupann (ríkisstjórnina) en faglegan metnað lögfræðings. 

Oftar en einu sinni er vísað í yfirlýsingar fyrri ríkisstjórnar frá haustmánuðum, sem gefnar voru við óeðlilegar kringumstæður, löngu áður en línur fóru að skýrast. Þær voru þó aldrei staðfestar af Alþingi. Maður fær á tilfinninguna að tilgangurinn sé að koma pólitískri sök á fyrri stjórnvöld, þó það sé alls ekki hlutverk lögfræðilegs álitsgjafa. Það er síðan undirstrikað í lokaorðum.

Það er rúsínan í pylsuendanum.

Í lokaorðunum á bls. 7 tekur höfundur fram að hann hafi ekki sérþekkingu á sviði þjóðarréttar. Í kjölfarið kemur svo setning sem efnislega þýðir „Þetta IceSave vesen er sko ekkert Samfylkingunni að kenna."

Ég spurði tvo lögfræðinga, hvorn í sínu lagi, álits á álitinu. Það fyrsta sem báðir nefndu var skortur á lögfræði hjá lögfræðingnum og „ótrúlega léleg röksemdafærsla".

Þó Jakob R Möller sé eflaust hinn mætasti maður og lögmaður góður þá verð ég að segja að þetta lögfræðiálit virkar hvorki trúverðugt né hlutlaust. Meira eins og niðurstaðan hafi verið pöntuð. Tengingin við Baug og útrásina er ekki til að hjálpa.

 


mbl.is Hagstæð ákvæði Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dúa

Ég beið spennt allan tímann við lesturinn að sjá lögfræðileg rök en ekki bara það sem samninganefndin sagði og svona almennar pælingar og það pólitískar. Og svo fellur þetta strax um sig sjálft að leitað var til LOGOS.

Er fólk ekki búið að ná því að lögfræðingar eru ekki sammála um túlkun laganna og tilskipunarinnar? Og þegar fólk er ekki sammála um túlkun réttarheimilda í tilteknu deilumáli þá er leitað til dómstóla.

Dúa, 23.6.2009 kl. 19:26

2 Smámynd: Haraldur Hansson

Takk fyrir þetta Dúa, ágætt að fá komment frá lögfræðingi.

Það væri hægt að skrifa margar færslur um þetta álit. Greinin um breyttar aðstæður þykir mér sérstök. Það er sem lánveitandi hafi það alfarið á valdi sínu hvort einhverju er hnikað til:

„... skuldbindi lánveitandi sig til þess að eiga fund með fulltrúum Íslands til þess að ræða stöðuna og taka til athugunar, hvort og þá hvernig láns/ábyrgðarsamningum skuli breytt í samræmi við breyttar aðstæður.“

Sagan af samskipunum við Breta geymir dæmi um hernám, þorskastríð og hryðjuverkalög. Ef í harðbakkann slær er ekki gæfulegt að eiga allt undir velvild þeirra og skilningi. Því hvort Gordon Brown er í góðu skapi eða þarf að slá pólitískar keilur heimafyrir.

Haraldur Hansson, 23.6.2009 kl. 20:43

3 identicon

Takk fyrir greinagóð skrif á Blogginu Haraldur.

Ætla ekki að fara útí vangaveltur um samninginn sem gerður var og alþingi fjallar um eða þetta "lögfræðiálit" sem eins og þú segir réttilega hefur verið pantað hjá réttum aðila. Það sem mér finnst athyglisverðast í sjálfu sér er að menn í ráðuneytinu hafi ekki meira hugmyndaflug en það að leggja fyrir almenning álit frá þessari lögfræðistofu og þessum lögfræðingi. Þetta er hreint ótrúlegt..

Það var gott viðtal hjá Inga Hrafni á Hrafnaþingi í kvöld við Magnús Thoroddsen. Hans niðurstaða var sú að það ætti ekki að samþykkja samninginn og þess utan gætum við alls ekki staðið við að borga þetta.

Björn H (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 22:03

4 Smámynd: Haraldur Hansson

Takk fyrir þetta Björn.

Ég er að horfa á endursýningu á ÍNN (vegna athugasemdir þinnar) og Magnús var rétt í þessu að segja að IceSave samningurinn sé "hænufet frá landráðum". Stór orð frá fyrrum hæstaréttardómara.

Haraldur Hansson, 23.6.2009 kl. 22:49

5 identicon

Segir þetta ekki allt sem þarf um "hlutleysi" og "fagmennsku" Jakobs Möller?

“Þó er afleitt að skamma þá sem reyna að afstýra vanda sem aðrir hafa valdið og láta þá sem freista að afstýra sitja á sakamannabekk.”

Og hverja á Jakob þarna við?  Samfylkinguna og verkkaupandann Össur sem vilja ekki kannast að hafa verið í hrunstjórninni og hvað þá að ICSESAVE bankamálaráðherrann Björgvin G. Sigurðsson að sinna ráðherraskyldum sínum sem varði sukkið og svínaríið allt fram að hruninu? 

Er hægt að taka jafn pólitísk vinnubrögð sem þessi alvarlega?

Guðmundur Gunnarsson (IP-tala skráð) 24.6.2009 kl. 00:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband