5.6.2009 | 12:47
"Sægreifar" - óvinir ríkisins #1
Umræðan um fiskveiðistjórnun er gallaðri er fyrningaleiðin og kvótakerfið samanlagt. Þeir sem hæst láta gegn útgerðinni hrópa um "sægreifa" og "kvótakónga" eins og þeir séu verstu óvinir samfélagins. Talað er um þá sem glæpamenn sem braski með þýfi. Þeir sem andmæla eru stimplaðir varðhundar spilltra sérhagsmuna. Handhafar veiðiheimilda eru alls ekki saklausir af upphrópunum og verða líka að stilla þeim í hóf.
Nú ætlar forsætisráðherra að boða til sáttafundar og segir að það sé meirihluti fyrir því á Alþingi að skoða fyrningaleiðina".
Tek það fram að ég hef aldrei átt kvóta og aldrei verið á sjó (fyrir utan einn róður á handfærabáti, kauplaust). Á því engra kvótahagsmuna að gæta. Þessi færsla er ekki til varnar kvótakerfinu og ekki til að andmæla innköllun veiðiheimilda. Heldur vangaveltur um tvær spurningar sem enn er ósvarað:
Hvernig á að innkalla veiðiheimildir?
Hvað kemur í staðinn?
Kvótakerfið er ekki gallalaust frekar en önnur mannanna verk. Það þarf að laga og a.m.k. sníða af því vankanta eins og framleigu veiðiheimilda. Kannski koma með eitthvað alveg nýtt. Er það til bóta að henda vondu kvótakerfi til að taka upp annað kvótakerfi? Kerfi þar sem veiðiheimildum væri e.t.v. úthlutað eftir pólitískri uppskrift. Er kannski færeyska fiskidagakerfið eitthvað sem vert er að skoða?
Það eru vissulega til útgerðarmenn sem hafa spilað rassinn úr buxunum og munu fara á hausinn. Og það eru því miður til braskarar innanum, sem engin eftirsjá væri í. En þeir eru líka margir sem stunda atvinnurekstur af elju og dugnaði, eru hóflega skuldsettir og hafa í öllu farið eftir þeim leikreglum sem lögin setja. Það má ekki setja alla undir einn fyrningahatt.
Gjaldþrot er vond lausn"
Kvótakerfið var ekki sett á fyrir útgerðarmenn, heldur til að takmarka veiðar og vernda fiskistofna. Framsal á veiðiheimildum var leyft með lögum, þrátt fyrir að auðlindin sé sameign þjóðarinnar samkvæmt 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Tilgangurinn var að auka hagkvæmni; færri skip veiða sama afla. Reglur hafa verið settar um eignfærslu veiðiheimilda í bókhaldi, veðsetning þeirra leyfð og heimild til að færa afskriftir á keyptum aflaheimildum var felld úr gildi fyrir um áratug.
Það er flókið mál að breyta kerfi sem þannig hefur mótast á 25 árum. Ekki síst þegar löggjafinn sjálfur lítur á varanlegar veiðiheimildir sem eign, sbr. tvær síðasttöldu breytingarnar hér að ofan. Og það er kjánalegt að segja að það sé í lagi þó útgerðarmenn verði gjaldþrota bara af því að fiskurinn fer ekkert" og það komi aðrir útgerðarmenn í staðinn. Gjaldþrot er alltaf áfall sem lendir á mörgum.
Það eru ekki bara lánadrottnar, heldur líka sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar; rafvirkjar, járnsmiðir, málarar og netagerðarmenn sem ekki fengju kröfur sínar greiddar. Oft með þungri blóðtöku fyrir smærri byggðarlög. Þess vegna mega breytingar á fiskveiðistjórnun ekki vera þannig að þær leiði til gjaldþrota sem annars hefðu ekki orðið.
Fyrningaleið Samfylkingarinnar
Samfylkingin hefur lagt til fyrningaleið" en án viðunandi útskýringa. Í stefnuritinu Skal gert er að finna þrjár málsgreinar um kvótann í kafla 7.2 en ekkert um útfærslu á fyrningaleið. Í Sáttagjörð um fiskveiðistefnu kemur fram 20 ára fyrningatími með innköllun veiðiheimilda, að framsal eldri veiðiheimilda einskorðist við brýnustu þarfir" og að óheimilt verði að framselja heimildir í nýja kerfinu. Allt almennt orðað en ekkert haldbært um útfærslu.
Í stjórnmálaályktun Samfylkingar 2009 er ekkert minnst á fiskveiðar, en bent á staðfasta andstöðu meðal þjóðarinnar um einkavæðingu fiskistofna". Þessi stefna ber merki þess að vera hraðsoðin kortéri fyrir kosningar. Þar er gert út á almenna óánægju með kvótann til að fiska á hana fleiri atkvæði. Það sem vantar eru t.d. svör við þessum spurningum:
- Verður gerður greinarmunur á úthlutuðum aflaheimildum og keyptum, við fyrningu?
- Hvaða framsal eldri aflaheimlda verður áfram leyft og hvað teljast brýnustu þarfir" í þeim efnum?
- Nýjum aflaheimildum skal úthlutað til tiltekins tíma í senn". Er átt við eitt ár, fimm ár eða eitthvað annað?
- Ef tiltekinn tími" er eitt ár, er ekki hætta á að það skaði erlenda markaðsstöðu þeirra sem þurfa að tryggja framboð á réttum tegundum á umsömdum tíma?
- Ef tiltekinn tími" er fimm ár, er þá ekki óhætt að leyfa framsal? Er það verra en að skila kvóta til endurúthlutunar?
- Hvernig verður hagsmuna byggðarlaga gætt í nýju kerfi?
- Á að fyrna kvóta í eigu byggðarlaga eins og annan kvóta?
- Verða úthlutanir alfarið pólitískar" og eru þær líkleg leið til réttlætis?
- Endurúthluta skal aflaheimildum sem lenda í eigu bankastofnana" vegna gjaldþrots útgerðar. Hvernig? Á að kaupa þær fullu verði?
- Ef kaupa á heimildir af bönkum, er þá hægt að innkalla keyptar veiðiheimildir af útgerð, án endurgjalds?
- Verður innköllunum e.t.v. mætt með því að heimila að færa afskriftir af keyptum aflaheimildum eins og var fram til ársins 2000?
- Hvernig skal meðhöndla kvóta sem lendir í eigu" erlendra lánadrottna?
Það má vel vera að hægt sé að finna fyrningaleið og leysa kvótavandann. Ég get ekki séð að fyrningaleið Samfylkingarinnar sé lausn á neinu. Ef dæma má af útgefnu efni um hana bendir það til þess að hún sé pólitískt veiðarfæri" þar sem almenn óánægja með kvótakerfið var beitan. Aflinn var mældur í atkvæðum. Trúverðugleikinn er enginn.
Í umræðum um kvótann má aldrei gleymast að fiskurinn á Íslandsmiðum er gullforðabúr Íslands og að útgerðin þarf að vera meginstoð um langa framtíð. Það má ekki fjalla um málið í hálfkæringi eða skilja eftir lausa enda. Stjórnmálaflokkar mega ekki setja fram stefnu nema hún sé skýr og markmiðin vandlega skilgreind. Í fyrningaleiðina" vantar allt þetta. Á meðan er ekki hægt að taka hana alvarlega.
Svo ég spyr aftur: Hvernig á að innkalla veiðiheimildir? Hvað kemur í staðinn?
Boðað til sáttafundar um fyrningarleið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
ég er ekki alveg að skilja spurninguna "hvernig á að innkalla veiðiheimildir" hvað er svona flókið við að "innkalla" með aðferð t.d. hafró-semsagt skerðingum árlega? og er ekki hægt að setja sölu/leigu aflaheimilda til ríkisskaupa? og nú er sú helgi að renna upp sem útgerðarmenn hafa ávallt talað fallega um að ÖLL þjóðin eigi fiskinn í sjónum SJÓMANNADAGURINN...svo kemur náttúrulega mánudagur,þá eiga svo útgerðarmenn fiskinn AFTUR...
zappa (IP-tala skráð) 5.6.2009 kl. 13:10
Svo virðist sem Zappa hafa ekki lesið meginmál þessa bloggs! Einungis millifyrirsögn.
Þessar spurningar sem Haraldu listar skilmerkilega upp eru spurningar sem brenna á vörum margra en stjórnarliðar hafa ekki getað svarað undanbragðalaust. Af hverju? Skildi það vera að þeir séu hreinlega rökþrota þegar kemur að því að ræða málin efnislega? Það er mál til komið að þeir sem hafa hamrað á því að gera eigi fiskveiðikvóta upptækan með fyrningarleið eða öðrum hætti komi hreint fram og svari þessum spurningum. Það er of ódýrt og lýsir hreinlega forheimsku að margir kjósendur Samfylkingar og VG gleypi hrátt það sem forysta þeirra lætur frá sér fara með upphrópunum og slagorðum um þau ,,illmenni'' sem stunda útgerð hér á landi. Steinin tók nú úr um daginn þegar ,,vinstri slagsíðu-hagfræðingurinn'' Þórólfur Matthíasson kom í drottningarviðtal í Kastljósi á dögunum til að ,,kommentera'' það sem forstjóri Vinnslustöðunnar hafði að segja um áform vinstri stjórnarinnar um eiganupptöku í íslenskum sjávarútvegi í spjalli við starfsman Kastljóss. Það sem sá maður lét útúr sér í því viðtali var vægast sagt hryllingur og RÚV til skammar hvernig að þessu samskeytta viðtali var staðið. Þórólfur fékk óhindrað að svara því sem forstjórinn hafði fram að færa en hinn fékk ekki tækifæri til andmæla bullinu í Þórólfi. Eftir stendur að þeir sem á hlýddu fengu kolranga mynd af því sem um var verið að fjalla.
Elías Bjarnason (IP-tala skráð) 5.6.2009 kl. 14:17
Sælir og takk fyrir innlitið og athugasemdirnar.
Zappa: Það er lítið mál að sitja heima við tölvuna og segja "hvað er svona flókið, við skerðum þetta bara í árlegum skömmtum." En þegar menn eru sestir í ríkisstjórn gegnir öðru máli, þá þarf þetta að vera skýrt.
Skoðaðu ummæli Atla Gíslasonar og Róberts Marshall. Stefnur VG og S, svör Steingríms J um kvóta í eigu sveitarfélaga o.s.frv. Þessir flokkar eru í stjórn, málið er komið á dagskrá og lausir endar eru margir. Það er óábyrgt þegar um er að ræða undirstöðu í atvinnurekstri og gjaldeyrissköpun, mitt í djúpri kreppu. Að skapa óvissu með pólitík sem ekki er búið að hugsa nema hálfa leið getur beinlínis orðið skaðlegt.
"There are three things that smell like fish. One of them is ... fish" (FZ)
Elías: Ég sá þennan Kastljósþátt og mér sýnist að við séum sammála með sérkennilegt sjónarhorn hagfræðingsins. Hann fjallaði líka um þetta á sömu nótum í blaðagrein.
Haraldur Hansson, 5.6.2009 kl. 18:08
sæll Haraldur, til að fyrirbyggja allan misskilning þá er ég á móti allri "fyrningu" ég hefði viljað fara þá leið að sala og veðsetningar aflaheimilda væru bannaðar, en skipti á tegundum væri leyfilegt,þá held ég að sátt myndi skapast um kvótakerfið,því eftir allt virðist óánægjan snúast um braskið...og eftir að hafa verið til sjós frá því fyrir daga kvótakerfisins verð ég að láta það álit mitt í ljós að mér finnst uppbygging hafró alveg gjörsamlega hafa brugðist. ..ef ætlunin er að bylta kvótakerfinu held ég að það sé núna eða aldrei,nú á ríkið bankana og skuldir útgerðarinnar,svo af hverju ekki að innkalla þann hluta kvótans og skuldir þeirra fyrirtækja sem öruggt er að ekki geti greitt sínar skuldir...bara svona sem innlegg í þessar pælingar.
zappa (IP-tala skráð) 5.6.2009 kl. 18:24
Mér finnst heldur ólíklegt að við þessa uppstokkun náist sú "eina rétta leið." Þetta mál er þannig vaxið að það sem hagstæðast sýnist í dag getur þegar á reynir hafa verið mistök. Þarna verður að prófa sig áfram og í dag eigum við enga árangursríka leið sýnilega nema kerfi Færeyinga.
Það kerfi er að vísu bannfært af Hafró en Færeyingar vilja ekki skipta því út fyrir neitt annað kerfi. Kannski vita þeir hjá Hafró og LÍÚ betur en Færeyingar hvað þeim er fyrir bestu þarna í Færeyjum. Og kannski liggur vandi okkar í því að auka ekki brottkastið upp í helming?
Árni Gunnarsson, 6.6.2009 kl. 01:02
Zappa: Að ávarpa einhvern Zappa og sjá mynd af meistaranum er skrýtið fyrir mann eins og mig, sem hef verið grjótharður Zappa aðdáandi í meira en 30 ár. En hvað um það, innlegg þitt í pælingarnar er fullgilt. Þessar pælingar og alvöru skýringar vantar í alla stefnumörkun. Gagnrýnin í færslunni snýst einmitt um það.
Ef þú skoðar það sem til er um fyrningaleiðina á vefnum samfylking.is sérðu að það er ekki búið að hugsa málið nema hálfa leið og tæplega það. Virkar á mig sem óábyrgt hjal sem gæti skapað pólitískar vinsældir og hentar rétt fyrir kosningar.
Árni: Ég hef ekki kynnt mér færeyska kerfið nógu rækilega til að vilja tjá mig mikið um það að sinni, en nefndi það samt í framhjáhlaupi. Það sem ég þó hef lesið og heyrt bendir til þess að það sé vel þess vert að skoða það af fullri alvöru.
Haraldur Hansson, 6.6.2009 kl. 12:56
Það eru mög sjónarmið í þessu máli sem erfitt er að samræma.
1) Fyrning
Sú leið sem Pétur Blöndal þingmaður lagði til hugnast mér best, þ.e. að allir íslendingar fái úthlutað sínum kvóta (hann var með 20 ára firningu í huga). Kvótinn, eða þín ávísun á hann, yrði settur á markað og seldur þar.
2) Byggðarsjónarmið
Byggðarsjónarmiðum er ekki þjónað sérstaklega og eftir á séð tel ég vert að setja markverðan hluta kvótans (20-30%) til trilluútgerða, sem á hvíldi þá löndunarskylda í héraði
3) Brottkast
Við verðum að ná ÖLLUM afla að landi og ekki láta kerfið hafa innbyggðan hvata til brottkasts, óháð því hversu mikið það í raun er. Ég vill bæði sjá smáfisk, lifur og slóg koma að landi. Hvað smáfiskinn varðar, þá má einfaldlega skerða um einhver prósent andvirði aflans, til þess að minnka hvatann að gera eingöngu út á smáfisk.
4) Keyptur kvóti og framsal
Þetta er einna viðkvæmasta eignar-réttar spurningin. Þess eru nefnilega mýmörg dæmi að menn með harðfylgi keypt kvóta. Harðduglegt fólk sem allt sitt á undir að halda kvótanum....þó ég hafi ekki endanlegar lausnir á því, þá má skoða að skattalegar afskriftir á keyptum kvóta taki mið af því og geri þannig útgerðum hærra undir höfði í að afla sér viðbótarkvóta af markaði...en þetta er götótt kenning. Framsal í formi þess að menn geri út á leigu kvóta í stað eiginlegrar útgerðar, er einfalt að breyta og má reyndar þegar gera það afturvirkt, þannig að þeir sem það hafa gert hreinlega missi sinn kvóta.
Haraldur Baldursson, 6.6.2009 kl. 13:01
Varðandi Færeyska kerfið.
Mér er sagt að Færeyningar séu að missa móðinn, því aflinn hafi minnkað svo mikið að þeir sjái ekki að þetta hafi skilað árangri. Samt vert að skoða þeirra útfærslu
Haraldur Baldursson, 6.6.2009 kl. 13:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.