27.5.2009 | 16:33
Kosningar? Hvaða kosningar?
Á morgun verður lögð fram tillagan um aðildarumsókn Íslands að ESB og stjórnarandstaðan undirbýr mótleik. Í tilefni af því er rétt að íhuga aðeins kosningarnar til Evrópuþingsins, sem eru rétt að bresta á.
Það verður byrjað að kjósa á fimmtudaginn í næstu viku og kosningunum lýkur annan sunnudag. Í Fréttablaðinu í dag er grein eftir Einar Má Jónsson um kosningaumræðuna í Frakklandi, sem er prýðilegt innlegg í þá íslensku.
Það sem stjórnmálafræðingar og fjölmiðlamenn segja um frambjóðendur og kosningabaráttuna sýnir hvað Evrópuþingið er fjarlægt almenningi. Nokkrir punktar úr grein Einars Más:
- Nú er Rachida Dati fallin í ónáð, Sarkozy ætlar að losa sig við hana með að senda hana í skammarkrókinn á Evrópuþinginu í Strassborg ...
- Michel Barnier var ráðherra og enginn tók eftir honum, bráðum verður hann væntanlega kominn á þing í Strassborg þar sem enginn mun heldur taka eftir honum.
- Varla nokkur maður í Frakklandi virðist taka þessar Evrópukosningar alvarlega, og margir leiða þær með öllu hjá sér.
- "Hvaða kosningar?" spyrja þeir ef þær ber á góma ...
- Menn vita að á þetta þing í Strassborg eru einkum sendir þeir sem menn vilja af einhverjum ástæðum losa sig við úr stjórnmálum
- Þeir eru sárafáir sem velja af sjálfsdáðum þetta þing ... flestir þeir sem þangað dæmast taka þann kostinn að láta sem sjaldnast sjá sig ...
Auðvitað skipta kosningar til Evrópuþings engu máli varðandi Evrópusambandið sjálft. Innan ESB er lýðræði algjört aukaatriði og kosningarnar bara óþægilegt formsatriði sem þarf að uppfylla. Þegnar Evrópuríkisins munu aldrei fá að kjósa um pólitíska stefnu, hvað þá einstök mál.
En kosningarnar eru samt ekki tilgangslausar.
"Menn líta stundum á þessar kosningar sem nokkurs konar "alvöru" skoðanakönnun sem leiði í ljós breytingar á fylgi flokka" segir Einar Már í grein sinni. Það er ekki óþekkt á Íslandi að hefna þess í héraði sem hallaðist á þingi. Þessi dýra skoðanakönnun er af sama meiði. Úrslitin endurspegla pólitíkina heimafyrir en tengjast ekki pólitísku starfi Evrópusambandsins. Lokaorð greinarinnar eru í takt við það: "Þannig hafa kosningarnar a.m.k. fengið einhvern tilgang."
Sameiginleg ESB-tillaga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Haraldur.
Í fáum orðum. Ljótt er það og var það ljótt fyrir.
Hverjir stjórna ? Ekki Jóhanna, svo er víst að verður ekki !
Kveðja.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 28.5.2009 kl. 00:50
Held samt að þetta sé ekki svo slæmur póstur. Var að heyra að þessir þingmenn þyrftu ekki að mæta nema þrjá daga í mánuði. Mætingaskyldan er jafnvel enn minni en hérna heima og þykir mönnum hún ekki mikil hér.
Vandamálið með ESB umræðuna í fjölmiðlum er að hún er keyrð eftir einstefnu. Það hefur í raun aldrei komið fram hvað þetta á að gefa okkur, annað en að það verður allt miklu betra. Ég kynnti mér þetta samband nokkuð ítarlega í EES umræðunni um árið og hef fylgst með þessu síðan, bæði hér heima og í gegnum fjölskyldutengsl í Frakklandi og þarna er ekkert sem heillar mig sem "óbreittan" borgara.
Hins vegar sé ég fullt af kostum fyrir þá sem eru "atvinnumenn". Það eru hellings póstar sem hægt er að koma sér vel fyrir á þarna úti og vel skiljanlegt að þeir sem þangað sæki, sæki fast.
Hvað almenning áhrærir þá er þetta fyribæri bara bull, enda hefur það sýnt sig að á meðan pólitíkusar eru æstir að komast, og vera þarna inni, þá er almenningur algerlega búinn að fá nóg af þeirri þróun sem þarna er til staðar. Það sést mjög vel þegar sambandið hefur álpast til að halda kosningar um breytingar á sáttmálum og öðru, en þá hefur það verið undantekningin að almenningur hafi samþykkt bullið.
Það er einfaldlega þannig með ESB að pólitíkusar og sérhagsmunasamtök vilja vera inni, en almenningur vill út.
Jón Lárusson, 28.5.2009 kl. 09:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.