Kvótareglur afnumdar 2012

Sjávarútvegsráðherrar ESB ákváðu að afnema reglur um úthlutun fiskveiðikvóta. Samkvæmt BBC á að minnka miðstýringu og auka völd aðildarríkjanna. Þetta á m.a. að sporna gegn brottkasti og er liður í breytingum á sjávarútvegsstefnu ESB sem taka eiga gildi 2012. Ekki kemur fram hvort frekari breytingar eru í farvatninu.

fishingÞetta ættu að teljast breytingar til batnaðar. En um leið undirstrika þessar fréttir að ef Ísland ætlar að tryggja sér varanlegan yfirráðarétt yfir auðlindinni í eigin fiskveiðilögsögu, sem aðildarríki ESB, þarf að gera það í aðildarsamningnum sjálfum. Í plaggi sem hefur lagalegt gildi til jafns við grunnsamninga sambandsins.

Ef hægt er að breyta sjávarútvegsstefnunni verulega 2012 er hægt að breyta henni aftur 2017 eða 2022. Undanþágur "innan ramma sjávarútvegsstefnu sambandsins" eins og nefndar hafa verið, eru því engan veginn nægileg trygging. Ekki fyrir íslenska þjóð, sem á jafn gríðarlega mikið undir þeim tekjum sem fiskveiðar skapa og raun ber vitni.

Evrópufræðingur sagði í Kastljósi nýlega að íslenskir stjórnmálamenn væru liðleskjur ef þeir gætu ekki samið þannig að allt yrði óbreytt varðandi stjórn fiskveiða hér við land eftir inngöngu í ESB. Það verður fróðlegt að sjá hvaða leið menn ætla að því marki.


mbl.is Sammála um að breyta fiskveiðireglunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þú ferð ekki nógu varlega, ágæti Haraldur. Þetta getur allt verið gert til að fá Ísland (og hugsanlega Noreg) inn í bandalagið.

Og það er auðvelt að láta í þetta skína, sem lesa má í fréttinni, og láta slíkar fregnir berast út af fundi sjávarútvegsráðherra Evrópubandalagsins, þó að í raun verði þetta allt "undir kontról" stóru ríkjanna, sem hverfi EKKI að þessu ráði árið 2012 nema þeim sýnist svo. (Fáein stór ríki geta ráðið þarna öllu sem þau vilja og sér í lagi eftir gildistöku Lissabon-sáttmálans, sem mun afnema neituarvald einstakra ríkja; Þýzkaland, Frakkland, Ítalía og Bretland eru með 29 atkvæði hvert í ráðherraráði EB, Spánn og Pólland með 27 hvort, alls 170 sæti af 345, og svo bætast lönd eins og Holland, Belgía og Portúgal við (37 atkvæði) meðal annarra.)

Ísland er feitur biti: vegna orku: trúlega olíu og gass og vatnsafls, vegna hernaðarlega mikilvægrar legu þess að norðurhjaranum og framtíðar-siglingaleiðum, en líka vegna fiskveiðiauðlinda, því að aflinn hér hefur oft slagað hátt upp í 2 millj. tonna, sem væri gríðarleg viðbót við afla EB-þjóða, þar sem 90% fiskistofna eru ofveiddir, þar af þriðjungur í útrýmingarhættu.

Það er minnsta mál fyrir EB að láta svona endurbætur í veðri vaka í áróðursskyni (þetta er ósvífið sérhagsmunabandalag, ekki einhver góðmennskusamkunda), án þess að nokkurn tímann verði úr framkvæmdinni, og lítið mál reyndar að breyta stefnunni aftur og aftur, eins og þú talar um. En jafnvel þótt eitthvað væri bundið í inngöngusáttmála milli EB og Íslands, væru forsendur þess sáttmála breytanlegar, t.d. er það ekkert grundvallarlögmál bandalagsins, að "veiðireynsla" sé talin jafnfá ár og nú er raunin.

Reglan um "hlutfallslegan stöðugleika" í veiðum einstakra ríkja er líka bara reglugerðarákvæði, sem unnt er að breyta, og það eru vart nema tveir mánuðir síðan lagt var til í Grænbók EB að skipta út þeirri reglu fyrir eitthvað annað, t.d. 12 mílna fiskveiðilögsögu hvers ríkis – afgangurinn færi til EB – eða frjálst framsal veiðiheimilda milli landanna!

Það er því engu treystandi. "Treystið ekki mönnunum, hverfulan lífsanda hafa þeir í nösum sér," segir Ritningin, og það á við um þessa valdakarla eins og aðra, að fagurgala þeirra er ekki treystandi. Bezt er að búa öruggur að sínu í krafti þeirra fullveldisréttinda hvers ríkis til ÆÐSTA LÖGGJAFARVALDS, sem EB hrifsar af þeim strax við inngönguna.

Með góðri kveðju,

Jón Valur Jensson, 26.5.2009 kl. 02:26

2 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Í fyrsta lagi breytir þetta í raun engu í ljósi þess að Evrópusambandinu eru tryggð full yfirráð yfir sjávarútvegsmálum ríkja sinna í fyrirhugaðri stjórnarskrá sambandsins (Lissabon-sáttmálanum svokölluðum) sem ætlunin er að taki gildi og er forsenda fyrir inngöngu fleiri ríkja.
 
Í annan stað hafa ráðamenn Evrópusambandsins verið iðnir við að setja fram háfleygar yfirlýsingar í gegnumm tíðina sem síðan hefur orðið lítið úr þegar reynt hefur á framkvæmd þeirra.
 
Í þriðja lagi verður ekki endanlega ljóst fyrr en 2012 hvort einhverjar umtalsverðar breytingar verða gerðar á sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins eða hverjar þær kunni að verða en þá á ný sameiginleg sjávarútvegsstefna að vera tilbúin.
 
Í fjórða lagi er fiskveiðistjórn Evrópusambandsins breytingum háð, það er vissulega hægt að draga úr miðstýringu en það er líka hægt að auka hana aftur síðar. Jafnvel þó Ísland væri innan sambandsins væru mörguleikar Íslendingar til þess að hafa áhrif þar á litlir sem engir vegna sáralítils vægis innan þess.

Hjörtur J. Guðmundsson, 26.5.2009 kl. 12:23

3 Smámynd: Haraldur Hansson

Takk báðir fyrir innlitið og athugasemdirnar.

Innihald færslunnar er að í þessum efnum er ekkert fulltryggt eða endanlegt. Með Grænbókinni í apríl var boðuð hugsanleg niðurfelling á reglunni um hlutfallslegan stöðugleika, sem þó átti að vera hinn óbrigðuli öryggisventill Íslands að sögn Samfylkingar (sjá bók þeirra Skal gert, bls. 65-67). 

Þó enn hafi engar ákvarðanir verið teknar sýnir þessi fundur að það þarf að stíga varlega til jarðar og að hættan á að menn misstigi sig er enn meiri en menn héldu áður. Eina örugga leiðin til að forðast það er að halda sig utan ESB.

Haraldur Hansson, 26.5.2009 kl. 12:41

4 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Var að rita grein um málið: http://sveiflan.blog.is/blog/sveiflan/entry/884813/

Hjörtur J. Guðmundsson, 26.5.2009 kl. 13:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband