18.5.2009 | 13:27
Silfur Egils: Energí og trú
Á meðan kommissarar í Berlaymont slökkva eldinn í pappírstæturunum getum við notað tímann og hugleitt það sem mestu skiptir um næstu framtíð Íslands. Og það er ekki að taka þátt í slökkvistarfinu í Berlaymont, nóg er um eldana hér á Fróni.
Silfur Egils var fróðlegt og efnismikið að venju. Hefði getað haft yfirskriftina "Energí og trú". Fjórmenningar ræddu um það energí sem setja þarf í aðgerðir svo framtíðin verði trúverðug. Samtalið við Paul Bennet var til að auka trú á að til séu lausnir og er efni í margar bloggfærslur (kannski síðar).
Svo kom Jóhannes Björn talaði um orkuna sem hið stóra mál framtíðarinnar.
"Ef þetta breytist ekki er þjóðin glötuð"
Þetta sagði Jóhannes og var að tala um skrýtinn rekstur á Landsvirkjun og það sem hann kallaði rugl; að gefa álverum orku. Hann talaði um að verða sjálfbær í orkumálum, að rækta meira grænmeti, framleiða eigið eldsneyti á allan vélarflotann og fleira. Í orkunni liggja tækifærin í framtíðinni.
"Þetta er gífurleg sjálfstæðisspurning"
Já, það er þetta með grænmetið sem Jóhannes nefndi og vert er að staldra við.
Sjálfstæðisspurningin varðar ekki bara eignarhald á auðlindum, heldur líka hvaða reglur gilda um nýtingu þeirra og hvar löggjafarvaldið í málaflokknum liggur. Nú gæla menn við hugmyndir um inngöngu í Evrópusambandið; hvernig ætli það samræmist reglum þess að selja bændum ódýrara rafmagn til ylræktar?
... the right to be supplied with electricity of a specified quality within their territory at reasonable, easily and clearly comparable and transparent prices
Textinn er úr rafmangskaflanum í ESB reglum, Internal market for energy. Hvað er "comparable price"? Hvernig á að taka mið af reglunum um "innri markaðinn"? Ég veit ekki svarið, en er ekki viss um að innan ESB mættum við selja bændum ódýrara rafmang að óbreyttu.
Með Lissabon samningnum verður löggjöf á sviði orkumála færð frá aðildarríkjunum til Brussel. Ágætt að hafa það í huga ef menn hlusta á Jóhannes Björn tala um orkumálin; þessa gífurlegu sjálfstæðisspurningu. Ef þau verða jafn mikilvæg í framtíðinni og hann heldur fram má ekki skilja eftir minnstu óvissu í þeim efnum.
Þær geta leynst víða "IceSave gildrurnar" og á meðan annar stjórnarflokkurinn rekur ESB-málið sem trúboð er honum ekki treystandi til að varast gildrur. Eina örugga leiðin til að varast þær er að standa utan við Evrópusambandið.
Eldur í höfuðstöðvum ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.