13.5.2009 | 20:38
Óþolandi krata-lýðræði
Hvers vegna standa ESB-sinnar svona fast gegn lýðræðinu?
Já, hvers vegna? Er það skoðun Samfylkingarinnar að Íslendingar séu upp til hópa svo illa upplýstir og miklir kjánar að þeim sé ekki treystandi? Að þeir skilji ekki málið eins og "á" að skilja það og kunni ekki að kjósa "rétt"?
Það sem hin nýja ríkisstjórn ætlar að bjóða uppá á er krata-lýðræði; að leyfa almenningi að kjósa þegar Samfylkingunni hentar. Bara í lokin, þegar búið er að pakka málinu inn í evrópskar og pólitískar umbúðir.
Og kalla það svo lýðræði. Oj bara!
Þetta er lýðskrum af síðustu sort.
Kjósendur eiga heimtingu á að fá að vita um leikreglur Evrópusambandsins. Hvað innganga í sambandið þýðir - pólitískt. Hvaða vald yrði framselt, hver fengi það í hendur og hvernig væri farið með það. Nákvæma útlistun á því hvað breytingar á stjórnarskrá Íslands þýða og hvers vegna þær eru nauðsynlegar.
Fólk á fullan rétt á að fá upplýsingar sem ekki eru byggðar á upphrópunum og pólitískum hanaslag. Stefna eins flokks getur aldrei innihaldið stórasannleik. Borgarahreyfingin lagði til að hlutlaus nefnd tæki þær saman, setti í góðan, hlutlausan búning og dreifði til allra landsmanna. Það er prýðileg hugmynd hjá þeim.
Íslendingar eru bæði læsir og skrifandi.
Samfylkingin má koma í veg fyrir eðlilega umfjöllun um Evrópumálin með pólitískum þjösnagangi í krafti 29,8% fylgis. Treystum fólki til að meta þessar upplýsingar og kjósa svo í framhaldinu. Að hinn almenni kjósandi geti tekið upplýsta afstöðu til umsóknar um aðild að ESB. Kjósendur verða að fá að hafa áhrif á þetta stærsta mál í sögu lýðveldisins. Ekki bara með krata-lýðræði í lokin, heldur alveg frá byrjun.
Ef öruggur meirihluti segir JÁ hafa stjórnvöld fullt og óskorað umboð til að senda umsókn til Brussel og hefja aðildarviðræður og samningagerð af fullum krafti. Annars ekki. Það er alvöru lýðræði.
Burt með sýndarmennsku og lýðskrum.
Burt með krata-lýðræðið.
Það sem stjórnvöld ættu að gera í staðinn:
- Hætta að koma fram við kjósendur eins og þeir séu kjánar sem ekki er treystandi.
- Hætta að tala um inngöngu í ESB sem "hjálp" í efnahagsþrengingum.
- Hætta að segja "sjá-hvað-er-í-boði" eins og umsókn sé að máta buxur.
- Hætta að tala um ESB sem efnahagsbandalag og um inngöngu sem verslunarsamning.
- Hætta hræðsluáróðri um að "við-missum-annars-af-lestinni"
- Útskýra hvað aðildarviðræður eru; þ.e. hluti af umsóknarferli en ekki létt kaffispjall án skuldbindinga.
- Útskýra hvaða siðferðilegar og pólitískar skuldbindingar fylgja því að sækja um.
- Útskýra t.d. hvaða áhrif umsókn hefði á viðræðurnar við Kína og nýja samninginn við Kanada.
- Útskýra þann pólitíska samruna sem boðaður er í Lissabon samningnum.
- Treysta fólki til að kjósa um eigin velferð og framtíð.
Alvöru lýðræði takk fyrir - en ekki þetta skrum!
Trúnaður ríkir um þingsályktunartillögu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er nú svolítið þversögn í þessu hjá þér Haraldur. Við eigum einmitt rétt á að vita nákvæmlega hvað við fáum. Þess vegna þurfum við að fara í aðilaviðræður og síðan kjósa um samningana.
"Fólk á fullan rétt á að fá upplýsingar sem ekki eru byggðar á upphrópunum og pólitískum hanaslag"
Þetta hérna einkennir einna mest þann hræðsluáróður sem kemur frá ESB andstæðingum...
Björn Halldór Björnsson, 13.5.2009 kl. 20:48
Sæll Haraldur.
Já, það er ekki sama ferska lyktin af Samfylkingunni núna og fyrir kjördag. Góð grein hjá þér.
Kveðja.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 13.5.2009 kl. 20:58
Ja miðað við það að í næstum 2 áratugi fengum við lýðurinn og pakkið eins einhverjir sjallar kölluðu okkur bara ekkert að kjósa um neitt punktur...
Þannig að þetta er framför ef þú lítur á það þannig ekki satt?
Ekki treystu Sjálfstæðismenn okkur til að taka "rétta" ákvörðun í fjölmiðlamálinu. Þeir segjast vilja vissulega leyfa okkur að kjósa tvisvar um ESB-málið en eru ekkert að nefna hvenær það yrði, á þessari öld eða?
Það er þó skömminni skárra að fá á borð til sín pakka sem einungis þarf að kjósa já eða nei við heldur en að kjósa fyrst um að fara í viðræður, og svo að kjósa um þennan sama pakka.
Held að þú misskiljir eitthvað um þetta mál...all hrapalega. Það er engin þvingun hér á seyði, við sendum einhverja til að semja og leggjum svo mat á það sem þeir koma með til baka...
Þegar þú ferð á klósettið ákveðurðu fyrst að standa upp og ganga þangað og svo þegar þangað er komið tekurðu aðra ákvörðun um að láta vaða?
Eða ertu búinn að ákveða þetta bara í einni ákvörðun sem getur breyst ef að skítalykt er á klósettinu?
Skaz, 13.5.2009 kl. 22:22
Nei, Skaz, við sendum ekki bara einhverja til þess að semja til að sjá hvað þeir koma með.
Við sendum inn formlega umsókn sem tekin er til afgreiðslu í ráðherraráðinu, hjá framkvæmdastjórninni og svo aftur hjá ráðherraráðinu. Ef hún fer í gegn þar verður okkur veitt staða umsóknarríkis og þá sendum við 20-30 samninganefndir í 1-2 ára stífa vinnu við að semja nákvæma áætlun um innleiðingu allrar löggjafar ESB á Íslandi auk sérlausna. Á sama tíma tökum við að starfa innan ráða og nefnda sambandsins án atkvæðisréttar.
Þegar þessu öllu er lokið þá kemur embættismannaherinn heim með venjulegan aðildarsamning að ESB með sérstöðuviðurkenningu í landbúnaðarmálum og mögulega fiskveiðimálum auk aukasamkomulaga um útfærslu sérlausna og verður það lagt í þjóðaratkvæði.
Þá fyrst ætlum við að gera það upp við okkur hvort að okkur langar yfirleitt til þess að taka þátt í Evrópusamrunanum á sviðum dómsmála, orkumála, menningarmála, tollamála, skattamála, félagsmála, utanríkismála, varnarmála o.s.frv. þar sem ekki er um neitt að semja. Sú umræða verður tekin á hálfu ári.
Gott plan?
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 13.5.2009 kl. 22:42
Takk fyrir góðan pistil
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 14.5.2009 kl. 00:41
Takk fyrir skeleggan pistil.
Við eigum ekki að eyða orku okkar á að skammast í trúuðum ESB sinnum, við eigum núna að einbeita okkur að því að sýna íslendingum fram á hversu mikið ferlíki ESB sinnar eru að teyma okkur inní.
Eftir að Lissabon samningurinn verður samþykktur um næstu áramót verður miðstýringin á ólíkum þjóðum svipuð og í ráðstjórnarríkjunum. Það er eitthvað sem ekki kemur ekki á óvart að vinstri menn vilja sem enn syngja "Nallann".
Fólk er alltaf ginkeypt fyrir loforðum um betra líf án þess að þurfa að hafa fyrir því og þeir falla fyrir því sem hafa þrælslundina.
Sigurbjörn Svavarsson, 14.5.2009 kl. 01:13
Takk öll fyrir innlitið og athugasemdirnar.
Björn: Ef þú lítur á það sem "hræðsluáróður" að kjósendur í lýðræðisríki séu upplýstir um stórmál, svo þeir geti tekið til þess afstöðu og kosið, þá erum við ekki á sömu bylgjulengd.
Skaz: "Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað", var sungið um árið. Það er vond pólitík að sætta sig við eitthvað sem er "skömminni skárra" bara af því að Sjálfstæðisflokkurinn setti ekki Evrópumálin á dagskrá í sinni stjórnartíð.
Umsókn um aðild Íslands er alltof stórt mál til að afgreiða það svona létt. Mæli með að þú lesir upplýsingarnar í athugasemdinni næst á eftir þinni.
Haraldur Hansson, 14.5.2009 kl. 09:56
Hans: Takk fyrir upplýsandi innlegg um alvöru málsins. Það þyrfti einhver að útskýra þetta fyrir Jóhönnu. Þó að hún sé ærleg kona með hjartað á réttum stað eru Evrópumálin ekki hennar sterka hlið, sbr. t.d. svör hennar varðandi Maastricht í fréttum í gær.
Sigurbjörn: Þó Lissabon samningurinn sé ekki "í höfn" hjá ESB bendir allt til að hann verði lögtekinn. Með góðu eða illu. Stundum er eins og hann sé tabú í umræðunni.
Þórarinn og Jakobína og þið hin sem skiljið alvöru málsins. Ég treysti á að þið séu alltaf á tánum og haldið upp sterku og málefnalegu andófi gegn pólitískum yfirgangi Samfylkingarinnar. Ekki veitir af.
Haraldur Hansson, 14.5.2009 kl. 10:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.