Til hvers að kjósa?

Það sem er sorglegt við þessa frétt er sannleikurinn sem hún lýsir. Fólk sem býr í Evrópusambandinu sér ekki tilganginn í því að mæta á kjörstað. Þannig yrði þetta líka hér á landi ef Íslands slysaðist inn í Evrópusambandið, þar sem lýðræðið er bara upp á punt.

Í síðustu viku brýndu sænsk dagblöð það fyrir almenningi að kjósa til Evrópuþings, af því að stjórnvöld í Brussel ráði miklu meiru en sænska þingið um lagasetningu, almenna velferð og daglegt líf Svía. Nú er minna mánuður til kosninga og áhugi meðal almennings hverfandi.

Kjörsókn fór niður í 45% árið 2004 og er talið að kjörsókn fari niður í 34% núna. Svona kjörsókn myndi ekki einu sinni duga í bindandi úrslit í prófkjöri í litlum framsóknarflokki á Íslandi. Hér er verið að tala um löggjafa 27 Evrópuríkja. 

Barátta okkar snýst fyrst og fremst um það að afstýra því að fólkið sitji heima.  

Þetta sagði kommissar landbúnaðarmála hjá ESB. Að hugsa sér að valdhafar í "lýðræðisríki" þurfi að berjast fyrir því að fá fólk til að kjósa.

Svona gerist þegar menn búa við fjarlægt vald í áratugi. Á endanum verða þeir dofnir fyrir því og upplifa það sem eðlilegt ástand að borgararnir geti ekki haft nein áhrif. Það fer enginn út til að berja potta og pönnur. Þeir vita að atkvæði þeirra breyta engu. Það er vond og lúmsk þróun sem læðist aftan að mönnum á mörgum árum, deyfir framtakið og skaðar samfélagið.

 


mbl.is Hægrimönnum spáð sigri í kosningum í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Þetta er nú þekkt vandamál í Bandaríkjunum. Lítil kjörsókn til þings og í forsetakosningum. Síðan kom Obama og fólki fannst hann vera með erindi. Vonandi þróast þetta svona hjá ESB að við sjáum menn með sýn og gildi í stað þess að hlaða þarna inn einhverjum íhaldskurfum. Mbk, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 10.5.2009 kl. 04:57

2 identicon

Til hvers að kjósa? Ég er alveg sammála þér fyrir utan eitt. Evrópuþingið er EKKI löggjafi 27 Evrópuríkja. Evrópuþingið er nánast valdalaust. Jú það getur krafst með bindandi hætti að framkvæmdarstjórnin (e. Commission) segi af sér en það hefur ekki frumkvæðisrétt að lagasetningu eða getur oftast ekki stöðvað lagasetningu þar sem ráðherraráðið sér nánast alfarið um það. Evrópuþingið (e. European Parliament) er eiginlega valdalaus stofnun. Hið ókjörna ráðherraráð (e. The Council) sem hefur ekki lýðræðislegt umboð er valdamesta stofnun ESB.

Rafn (IP-tala skráð) 10.5.2009 kl. 14:38

3 identicon

Það er rétt sem Rafn segir hér í athugasemd að þetta svokallaða Evrópuþing er nánast valdalaus puntstofnunn sem sett hefur verið á svið af búrókratinu sjálfu til þess að sýnast.

Enda veit almenningur í aðildarlöndunum þetta og nennir ekki að taka þátt í því að láta draga sig á kjörstað til að þóknast ESB valdinu enn og aftur í þessari fáránlegu sýndarmennsku kerfisins.

Svona hefur embættismanna stóðinu í Brussel tekist vel til við að fótum troða lýðræðið í ESB.

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 10.5.2009 kl. 20:59

4 Smámynd: Haraldur Hansson

Takk allir fyrir innlitið og athugasemdirnar.

Gunnlaugur B, ég vona eins og þú að kjörsókn í Evrópusambandinu aukist. En það er ekki hægt að bera ESB saman við forsetakjör í USA. Í ESB fær fólk ekki að kjósa framkvæmdastjórnina. Forseti hennar verður aldrei sameiningartákn Evrópu eins og Obama er í USA.

Mikill meirihluti fólks í ESB veit ekki hver José Manuel Barroso er, hvað embætti hans heitir eða hvaða hlutverki hann gegnir. Enda fær það ekki að kjósa hann. Gætir þú séð fyrir þér að Danir, Grikkir, Finnar eða Íslendingar litur á Barroso sem leiðtoga sinn?

Rafn og Gunnlaugur I: Ég myndi ekki taka alveg svona djúpt í árinni. Evrópuþingið þarf að samþykkja frumvörp þó það megi ekki leggja þau fram. Þingið setti glæsilegt met í Strassbourg um árið þegar á þriðja hundrað frumvarpa varð að lögum á 80 mínútum. Auðvitað er þetta færibandavinna og skrípaleikur á köflum.

Svo er líka full mikið sagt að ráðherraráðið sé "ókjörið", það er jú skipað ráðherrum aðildarríkjanna sem öll státa af lýðræðislegum stjórnarháttum. Það deilir völdum með Framkvæmdastjórninni, sem kjósendur fá aldrei að velja. En þegar grannt er skoðað þá er lítið pláss fyrir alvöru lýðræði í Evrópusambandinu, sama hvert litið er. 

Haraldur Hansson, 11.5.2009 kl. 12:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband