13.1.2009 | 21:17
Hvað veit þessi Wade?
Á nokkrum dögum hef ég séð umfjöllun fjögurra hagfræðinga um leið út úr kreppunni. Tveir eru íslenskir og tveir erlendir. Allir hafa þeir eitthvað til málanna að leggja. Athyglisverður er munur á skoðun þeirra í gjaldmiðilsmálum.
Útlendingarnir tveir eiga það sameiginlegt að hafa varað við bankakreppu á Íslandi og fengið mikla gagnrýni fyrir. Nú, þegar þeir hafa reynst sannspáir, er leitað álits hjá þeim um framhaldið. Þetta eru Robert Wade, hagfræðingur frá Nýja Sjálandi sem kennir við London School of Economics og Carsten Valgreen fyrrverandi hagfræðingur hjá Danski Bank.
Robert Wade. Hann veit sitt hvað um stöðuna hér, enda hefur hann kynnt sér hana ágætlega og vert að kynna sér það sem hann hefur fram að færa. Helstu punktar úr ræðu hans um næstu viðbrögð eru þessir:
- Kalla saman nefnd erlendra sérfræðinga til rannsóknar og endurskipulagningar ríkisskulda.
- Kortleggja hvar peningarnir eru.
- Endurheimta orðsporið. Reka Davíð Oddsson.
- Forsætisráðherra biðjist afsökunar.
- Tryggja áframhaldandi atvinnu
- Verja lífeyrissjóðina (hægja á hruni þeirra)
Hann bætir líka við hugmyndum um hvað gera skuli í framhaldinu, þegar kreppan er um garð gengin og byggja skal til framtíðar:
- Herða á reglugerðum í fjármálageiranum
- Auka umboð og valdsvið seðlabanka og FME
- Ganga inn í evrusvæðið (eða tengjast Noregi og norskri krónu) þegar búið er að ná stöðugri íslenskri krónu í nokkur ár.
- Hugsanlega ganga í ESB, þá líklega sem múrbrjótur" fyrir Noreg, til að verja þá gegn "skaðlegri fiskveiðistefnu ESB".
Carsteen Valgreen, sem líka varaði við bankahruni, sagði í Fréttablaðinu á laugardaginn að hugleiða megi evru þegar innlendum stofnunum og verðbólguvæntingum hefur verið komið í eðlilegt horf". Það sé þó ekki víst að skipta þurfi um gjaldmiðil.
Íslensku hagfræðingarnir tveir eru Guðmundur Ólafsson, sem var í Kastljósinu í kvöld og Ólafur Margeirsson, sem skrifaði nokkuð ítarlega grein sem birtist í Silfrinu á Eyjunni í gær.
Guðmundur Ólafsson. Helstu punktarnir úr viðtalinu við hann í kvöld:
- Þetta mál er komið út úr hagfræðinni fyrir löngu.
- Allar þessar tölur - maður skilur þær ekki.
- Horfurnar jafnvel enn verri en Robert Wade lýsir.
- Ég veit ekki hvað á að gera.
- Loftbólan sem sprakk byrjaði að blása út 2003.
- Það er nauðsynlegt að segja fólki satt.
- Nauðbeygð til að taka einhliða upp erlendan gjaldmiðil.
Undir lokin talaði hann svo um sögusagnir" þess efnis að ríkisstjórnin ætla að seilast í lífeyrissjóðina til að borga skuldir. Hann sá líka ljós í myrkrinu; út úr hörmungunum kemur eitthvað nýtt og mönnum gefst tími til að sinna hugðarefnum sínum í kreppunni og sinna ástinni.
Ólafur Margeirsson varar við upptöku evru í grein sinni á Silfureyjunni. Segir að það hefði verið gott að taka hana upp fyrir nokkrum árum vegna alþjóðlegrar bankastarfsemi. Nú er sú starfsemi ekki lengur til og gæti orðið til tjóns að skipta um gjaldmiðil.
Útlendingarnir tveir eru sammála um það að bíða með breytingar á gjaldmiðli. Vinna sig út úr kreppunni fyrst og huga að gjaldmiðilsbreytingu síðar. Valgreen telur þó ekki víst að þess þurfi.
Íslendingarnir tveir eru hvor á sínum endanum. Annar vill einhliða upptöku strax, hinn telur að breyting gæti orðið til tjóns en krónan sé vörnin í kreppunni.
Hverju eiga svo þeir að trúa sem ekki hafa lögmál hagfræðinnar á takteinum? Miðaða við þá þróun sem víða má sjá í Evrulöndum hallast ég að áliti þeirra erlendu. Setja kraftinn í að byggja upp Nýja Ísland og taka svo þessa gjaldmiðilsumræðu eftir nokkur ár þegar því er lokið.
Robert Wade,ræða hans á íslensku á bloggi Láru Hönnu
Carsten Valgreen,bloggfærsla um grein hans og viðtengd frétt á mbl.is
Guðmundur Ólafsson, Kastljósþátturinn á RÚV
Ólafur Margeirsson, grein hans á Eyjunni, Silfri Egils
Kreppan getur dýpkað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Afar góð og skýr samantekt Haraldur, takk fyrir það.
Baldvin Jónsson, 13.1.2009 kl. 21:39
,,Setja kraftinn í að byggja upp Nýja Ísland og taka svo þessa gjaldmiðilsumræðu eftir nokkur ár þegar því er lokið."
Fyrir hvað stendur ,,Nýja Ísland" ?
Nýtt fólk ?
Nýjan gjaldmiðill, alvöru gjladmiðil ?
Eða
Sömu gömlu andlitin , búin að bora í nefið við Austurvöll allt of lengi á ofurlaunum ?
Handónýta krónu, sem enginn getur notað ?
Höfum við efni á því að halda í krónuna ?
Hversu margar kynslóðir á að láta borga fyrir krónuna ?
Á að stela lífeyrissjóðunum til að borga fyrir afglöp alþingismanna úr öllum flokkum ?
Nýja Ísland ?
JR (IP-tala skráð) 13.1.2009 kl. 22:00
Nýja Ísland verður nýtt fólk og endurheimting lýðræðisins JR
Baldvin Jónsson, 13.1.2009 kl. 22:03
JR: Eins og þú sérð er þessi færsla samantekt á álitum fjögurra hagfræðinga. Síðustu tvær setningarnar eru svo komment frá mér, byggð á álitum þriggja þeirra.
Þeir eru sammála um að evruumræðan sé ótímabær. Sá fjórði er einn um að vilja taka upp erlendan gjaldmiðil strax. Það er Guðmundur, sem kynnir sig sem reikningskennara á útvarpi Sögu og lýsti því yfir í viðtalinu að hann viti ekki hvað eigi að gera.
Það má líka snúa spurningu þinni við: Höfum við efni á að kasta krónunni?
Haraldur Hansson, 13.1.2009 kl. 22:26
Takk fyrir greinargóðar upplýsingar um mennina og að ég held ágætlega kjörnuð málefnin.
Rúnar Þór Þórarinsson, 13.1.2009 kl. 22:36
Greinargóðar um Wade og Carsteen þ.e.a.s. - Pistillinn þinn um Guðmund er ósanngjarn og litaður af því sem þú krefst að við gerum - Að við höldmum okkur við krónuna.
Guðmundur segir ekki það sem þú berð upp á hann, heldur leggur á það áherslu að nú getum við NEYÐST til þess að taka einhliða upp annan gjaldmiðil í afleitri samningsstöðu. Það þurfum við að gera ef menn álíta krónuna gagnslausan gjaldmiðil, og sú staða er ekki óhugsandi sama hversu mikið þú persónulega hatast við Guðmund.
Mér finnst líka ósanngjarnt að setja ofan í við hann fyrir að benda á að fólk þurfi að einbeita sér að þeim verðmætum sem verða ekki frá okkur tekin. Það er etv. frekar bláeygt, en samt þörf áminning fyrir þá sem örvænta yfir efnislegum eignum. Við örvæntum nú yfir spillingu ráðamanna, fjármálaheimsins og viðskiptalífsins, en þegar hreinsað hefur verið til þar með góðu eða illu, mun fólk samt vera á hausnum upp til hópa. Þá er endurmat verðmæta mikilvægt. Það er ágætt að benda á það á sama tíma og farið er yfir málin og á þeim tekið.
Það sem stóð upp úr hjá Guðmundi og þú minnist ekki á er að hann kallaði eftir FULLRI hreinskilni - Að fólki sé sagt í hvaða aðstöðu hagkerfið er svo hægt sé að bregðast við því þannig. Það sem Geir H. Haarde, ríkisstjórnin, FME, Seðlabankinn og yfirmenn bankanna eru að gera núna er það sama og áður. Láta fólk halda að allt verði í lagi. Að ríkisstjórnin sé með "Lifnipillu" sem heitir eitthvað einfalt eins og "niðurfelling verðtryggingu" eða "landsfundur Sjálfstæðismanna". Þeir vilja, og IngibjörgSólrún segir beint út að fólk "Verður að treysta okkur, að við séum að leysa þetta."
Geir á enga "Lifnipillu". Ingibjörg er hvorki kraftaverkamaður, prestur eða Guð. Svo ég tali fyrir mig, þá hætti ég fyrir löngu að trúa á slík hindurvitni. Það gildir um flesta Íslendinga, þeir eru að vakna af trúarvímunni sem nýfrjálshyggjan blés þeim í brjóst í gegnum Sjálfstæðisflokk og Framsókn.
Skuggaher Sjálfstæðisflokksins er að koma í ljósið og úfff, trýnið á honum er ljótt.
Rúnar Þór Þórarinsson, 13.1.2009 kl. 23:00
Sæll Rúnar Þór og takk fyrir tilskrifið.
"Nauðbeygður" eða "neyðast til", ég sé ekki mikinn mun á því. Ég var að punkta hjá mér meðan ég horfði á viðtalið. Það er rétt athugað hjá þér að "segja fólki satt" er nokkuð sem hann lagði mikla áherslu á og hefði átt að vera í upptalningunni (ætla að bæta því við snöggvast). Reikna með að þú sért að vísa til þeirra orða með "fullri hreinskilni".
Ég þekki Guðmund ekki neitt og því fer víðs fjarri að ég hatist við hann!!! Ég setti inn "Hann sá líka ljós í myrkrinu" og textann í framhaldi af því vegna þess að mér þótti það sérstakt og ætti erindi í upptalninguna. Guðmundi til lofs en ekki lasts.
Haraldur Hansson, 13.1.2009 kl. 23:19
Það sem gerir krónuna sem gjaldmiðil að erfiðu verkfæri til þess að jafna út hagsveiflurnar og færa niður verðmæti í stórum stíl eins og gerist í kreppum er að hún er tvöföld í roðinu, í raun eins og tveir aðskildir gjaldmiðlar. Annars vegar þessi verðtryggða króna sem lánin okkar eru í. Þessi króna er prentuð eftir þörfum í takt við veikingu hinnar krónunnar, þessarar óverðtryggðu. Hins vegar svo þessi óverðtryggða, sú sem við fáum laun okkar greidd í. Þess vegna má segja að það er alveg rétt að krónan mun flýta fyrir viðsnúningi hagkerfisins, en það verður að gríðarlega miklu leyti á kostnað heimilanna og fyrirtækjanna í landinu. Þann kostnað er ekki hægt að bera með peningum sem eru ekki til! Við höfum ekki og reyndar viljum vonandi ekki verkfæri til þess að prenta óverðtryggðu krónuna, við viljum bara hafa lánin okkar í sömu mynt og launin og það á einhverju sem má telja eðlilega og viðráðanlega vexti. Að mínu mati ekki til svo mikils mælst svo sem.
Ég tek undir með Guðmundi og mig minnir að Wade hafi einnig komið inn á þetta atriði að stjórnvöld hætti að fela sannleikann fyrir þjóðinni, að maður tali ekki um að stjórnvöld hætti að ljúga að þjóðinni, jafnvel þegar þeir vita betur. Ég fyrir mitt leyti á erfitt með að þola stjórnmálamönnum að tala niður til okkar og ljúga að okkur í trausti þess að við séum fífl. Má vera að við séum fífl, en við eigum samt skilið aðeins meiri virðingu en svo.
Karl Ólafsson, 14.1.2009 kl. 22:45
Sæll Karl og takk fyrir innlitið.
Þeir sem lána verja alltaf hagsmuni sína. Ef ekki með verðtryggingu þá með breytilegum nafnvöxtum. Hinn eiginlegi skaðvaldur er óðaverðbólgan.
Vegna þess hve ástandið hér er "óraunverulegt" er þetta sérstakt úrlausnarefni og pólitískt. Burtséð frá gjaldmiðlinum. Barátta lánveitenda til að verja eignir sínar er fyrirfram töpuð vegna verðfalls á fasteignum og stór spurning hvernig á að lenda því. Leiðin út er vandfundin og allir kostir vondir.
Samantektin hér að ofan er ekki um þá kosti, en í þessari færslu vísa ég á fjóra menn sem hafa komið fram með hugmyndir og fjalla lítillega um verðbólguna.
Þó "afnám verðtryggingar" hljómi vel og sé göfugt markmið hlýtur afnám verðbólgunnar samt að vera hin rétta lækning. Eða að koma henni niður í hóflega tölu, kannski undir 3%.
Haraldur Hansson, 15.1.2009 kl. 00:36
Sæll Haraldur,
um það takmark að koma verðbólgu undir 3% erum við hjartanlega sammála. Ég fullyrði hins vegar að það sé nánast óframkvæmanlegt að koma viðvarandi verðbólgu undir 4% ef verðtrygging er ekki aflögð, vegna innbyggðra verðbólguhvetjandi áhrifa verðtryggingarinnar sjálfrar. Það skapast vítahringur (bóla) þegar peningar eru prentaðir fyrir tilstilli verðtryggingarinnar. Peningaprentun er nefnilega verðbólga. Einnig gerir verðtrygging stýrivextina að nánast bitlausu verkfæri til þess að slá á verðbólgu, eins og við höfum séð síðustu ársfjórðunga í vaxandi mæli (vaxandi mæli vegna áhrifa erlendrar lántöku, en vandamálið er eldra en svo). Verðtryggingin tefur áhrif stýrivaxta og skapar tálsýn í stað þess að hafa strax áhrif á greiðsluþol lántaka og eftirspurn eftir lánsfé.
Þannig að "afnám verðtryggingar" sem þú segir að hljómi vel og sé göfugt markmið helst að miklu leyti í hendur við hið enn háleitara og enn göfugra markmið að sigrast á verðbólgunni.
Ég er enginn hagfræðingur, en þetta er bjargföst skoðun mín. Ég geri mér engar grillur um að "afnám verðtryggingar" sé auðveld töfralausn. Ég tel hins vegar að við komumst ekki út úr ákveðnum vítahring nema þau skref sem nauðsynleg eru verði stigin.
Karl Ólafsson, 15.1.2009 kl. 13:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.