13.1.2009 | 13:13
Grágás, Járnsíða og Jónsbók
Á fyrstu öldum Íslandsbyggðar voru sakamenn dæmdir til fjársekta, hýðingar eða lífláts. Tvær síðastnefndu refsingarnar eru löngu aflagðar. Þá voru ekki byggð nein fangelsi, heldur menn sendir í útlegð ef þeir áttu ekki samleið með samfélaginu.
Fyrir mörgum árum sá ég lögfróðan mann í sjónvarpi sem sagði að enn væru í gildi einhver lög úr gömlu Jónsbók. Ekki man ég hvaða lög.
Það er fátt verra fyrir þjóðarsálina en viðvarandi atvinnuleysi. Í desember voru 7.902 án atvinnu og þeim mun fara fjölgandi. Þegar maður hugsar til þess að þetta eru beinar afleiðingar af glæpsamlegri græðgi fáeinna útrásardólga, veltir maður fyrir sér hvort enn sé heimilt að dæma menn í útlegð. Hvað segir Jónsbók um það?
Nú er spáð að atvinnuleysi, sem mældist 4,8%, muni enn aukast, enda ríkir djúp kreppa. Það gæti farið í 6,4 til 6,9%. Í fréttabréfi dagsins frá greiningardeild Glitnis er líka fjallað um atvinnuleysi.
Athygli vekur að í línuriti yfir þróun frá árinu 2000 kemur fram að atvinnuleysi á Evrusvæðinu hefur aldrei farið undir 7% á þessum tíma. Meira að segja upp undir 9% 2004-06. Kreppulaust!
Vonum að kreppan hér á landi verði ekki langvinn með tilheyrandi atvinnuleysi árum saman. Það er skemmandi fyrir þjóðarsálina.
(Línuritið er úr Morgunkorni Glitnis, 13. jan. 2009)
Atvinnuleysi 4,8% í desember | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.