12.1.2009 | 22:37
Nýársheit og aðrar hótanir
Robert Wade, einn af frummælendum kvöldsins, var líka í Kastljósinu í kvöld. Það sem hann sagði hljómaði eins og skelfileg hrakspá. Ný dýfa væntanleg eftir tvo til fjóra mánuði. Aðrir fræðimenn hafa spáð meiriháttar samdrætti um allan heim, sem mun hafa áhrif hér. Gagnrýni Wades á FME var mjög harkaleg, svo ekki sé meira sagt. Og það er greinilega löngu tímabært að skipta um stjórn.
Það væri æskilegt að rjúfa þing strax 20. janúar, þegar þingmenn eru loksins búnir í jólafríi. Þá væri hægt að kjósa 14. mars. Stjórnarkreppan verður hvort sem er ekki dýpri en hún er; óstarfhæf stjórn og áhrifalausir þingmenn í jólafríi. Það þarf að endurnýja bæði fólk, hugmyndir og umboð.
Um áramótin sagði formaður Samfylkingarinnar að besta nýársheitið sem hægt væri að gefa þjóðinni væri loforð um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Nýársheit geta verið fín. Það er spurning hvort ekki sé rétt að allir flokkar gefi þjóðinni loforð. Hin pólitísku nýársheit gætu verið þessi:
Vinstri grænir hafi kjark til að segja upphátt nei við Evrópuaðild. Þeir eru á móti og eiga því ekki að þykjast vilja fara í viðræður og leggja samning í dóm kjósenda. Bara vera heiðarleg og segja satt. Koma með raunhæfar hugmyndir um kreppuvarnir.
Sjálfstæðisflokkurinn sýni kjark til að viðurkenna að frjálshyggjan gekk ekki upp, játa þau mistök fyrir þjóðinni og hverfa til annarra gilda. Breyta bæði stefnunni og forystuliðinu. Lofa að gera þetta aldrei aftur.
Samfylkingin sýni kjark til að gefa út stefnuskrá með þeim tveimur atriðum sem á stefnu hennar eru: Að ganga í Evrópusambandið og að taka upp evru. Hún sýni líka þann heiðarleika að kalla það kosningahótanir en ekki loforð.
Íslandshreyfingin sýni sig. Hafi kjark til að taka á móti þeim sem ekki bera lengur traust til gömlu flokkanna og geri stefnumál sín sýnilegri. Sérstaklega varðandi stjórnkerfið.
Framsóknarflokkurinn þarf kjark til að reyna að vera til. Hann þarf líka að gera upp við fortíðina þó hann sé í stjórnarandstöðu nú um stundir.
Kjósendur hafi kjark til að krefja alla stjórnmálamenn um heiðarlegt uppgjör vegna bankahrunsins og sýni hug sinn í kjörklefanum. Bjóða upp á nýja kosti ef enginn flokkanna hugnast þeim.
Rjúfa þing, boða til kosninga, bretta upp ermarnar, fara í snarpa kosningabaráttu og drífa þetta af. Naflaskoðunin verður ekkert skárri þó menn gefi sér marga mánuði í hana. Uppgjörið verður bara betra ef menn taka slaginn núna meðan jarðvegur fyrir breytingar er frjór.
Fullur salur í Háskólabíó | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er óvenju skilmerkileg færsla og afgreiðsla efnisatriða bæði knöpp og augljós. Mikilvægasta verkefnið er að finna fólk sem þjóðin treystir og þá ekki síður fólk sem alþjóðasamfélagið treystir. Það ætti að vera hafið yfir vafa að við aðstæður á borð við þær sem íslenska þjóðin nú stendur frammi fyrir er vandséð hvort nokkuð er miklivægara en að traust ríki milli þjóðar og valdstjórnar.
Við vaxandi óróa, mótmæli, reiði, heift og hatur er útilokað að nokkur valdstjórn vinni af yfirvegun og bregðist eðlilega við verkefnum sem breytast og aukast frá degi til dags.
Hroki, afneitun og beinlínis heimskulegar yfirlýsingar ráðherra við þessar aðstæður er blátt áfram olía á þá elda sem augljóslega hafa kviknað í okkar friðsama samfélagi. Þar stefnir hratt í stórbruna að óbreyttu ástandi.
Ekki verður lengur unað við stjórnarskrá og kosningalög sem gera stjórnvöldum mögulegt að sitja í skjóli lýðræðistengds ofbeldis.
Árni Gunnarsson, 13.1.2009 kl. 12:33
Sammála þessari upptalningu, er þó ekki viss með að rjúfa þing strax 20. janúar. Í raun hefði samt alveg mátt gera eins og stjórnarandstaðan lagði til með vantrauststillögunni, hafa kosningar snemma á árinu.
Þá hefðu þingmenn getað notað jólafríið í kosningabaráttu í stað þess að kýla vömbina.
Theódór Norðkvist (IP-tala skráð) 13.1.2009 kl. 17:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.