Ingibjörg Sólrún til varnar Davíð Oddssyni

Ingibjörg Sólrún mætti í Kastljósið í kvöld. Aðeins einu sinni í viðtalinu hækkaði hún róminn lítillega, hvessti sig smávegis og sagði: Það var ekki hann sem byggði þetta upp!

Hún var að tala um Davíð Oddsson og bankakerfið. Það er að hennar mati ekki hægt að kenna honum um eða fullyrða að tilteknir fulltrúar beri ábyrgð. Það var eins og hún lokaði augunum fyrir því að krafan um mannabreytingarnar snýst um aukinn trúverðugleika en ekki að sakfella embættismenn.

Svo kvartaði hún undan óþreyju almennings í biðinni eftir Nýja Íslandi.

Þetta er sama Ingibjörg Sólrún og sagði í viðtali í New York í október að Davíð Oddsson ætti að gera forsætisráðherra þann greiða að víkja svo hann fengi frið til að vinna þau verk sem nauðsynleg eru. Hún er formaður Samfylkingarinnar sem lýsti því yfir að Davíð Oddsson starfaði ekki í umboði hennar í stjórn Seðlabankans. Hvað skyldi valda þessum viðsnúningi?

Auðvitað áttu stjórnir seðlabanka og fjármálaeftirlits að víkja sæti strax í október, til að endurvekja glatað traust. Einnig fjórir ráðherrar, en það er ekki við slíku að búast ef menn gera ekki greinarmun á sekt og pólitískri eða faglegri ábyrgð.

Undir lok viðtalsins tókst henni að svara bæði í norður og suður, um sama atriðið, á sömu mínútunni.

Þegar spurt var um ábyrgð spurði hún á móti: Eiga þingmenn að standa upp í hópum? Hún lét eins og spurningin væri kjánaleg og bætti við að mönnum sé skipt út í kosningum, sem gerist venjulega á fjögurra ára fresti.

Strax á næstu mínútu svaraði hún í hina áttina: Að það gæti verið rétt að einhverjir standi upp til að auka traust. En auðvitað vildi hún ekki nefna nein nöfn, enda búin að lýsa því yfir fyrr í viðtalinu að hún treysti fjármálaráherra til allra góðra verka.


Einu sinni leit ég á Ingibjörgu Sólrúnu sem nýja von í íslenskri pólitík og hef bæði kosið hana til borgarstjórnar og þings. Í dag finnst mér kominn tími á að hún taki sér frí frá pólitík.

Það bar fleira á góma í þættinum; álit umboðsmanns, átökin í Ísrael, björgunaraðgerðir og Evrópumál. „Ég er ekki að hóta einu né neinu" sagði hún um hótanir sínar um stjórnarslit ef samtarfsflokkurinn gerir ekki eins og hún segir. Hún leggur nefnilega mesta áherslu á að ráðast í verk sem hún hefur aldrei fengið umboð til: Að fara í viðræður við Evrópusambandið um aðild Íslands.

Það þarf að kjósa sem allra fyrst.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Ég kaus ISG en nú vil ég hana út!

Hólmdís Hjartardóttir, 7.1.2009 kl. 22:30

2 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Ég hugsaði oft undir viðtalinu, á Ingibjörg enga raunverulega vini? Þarf hún ekki á þeim að halda?

María Kristjánsdóttir, 7.1.2009 kl. 22:57

3 Smámynd: Baldur Hermannsson

Þegar bankahrunið varð gátu lýðskrumarar skellt skuldinni á Davíð Oddsson en þegar upplýsingastreymið fór í gang varð öllum heilvita mönnum ljóst að hann átti nákvæmlega enga sök á því. Ríkisstjórnin ætti að fara að huga að hentugri útgönguleið fyrir Ingibjörgu. Hún er búin að missa öll tök. Hvað með notalegt sendiherrastarf?

Baldur Hermannsson, 8.1.2009 kl. 03:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband