2.1.2009 | 17:50
Hollráð eða "þið eruð ekki þjóðin"
Ef stjórnmálamenn vilja gera eitthvað sem varðar breytingar á samskiptum Íslands við Evrópu, þurfa að fara fram kosningar. Núverandi stjórn hefur ekki umboð í slíkt verkefni. Ég myndi sannarlega fagna þingkosningum.
Við höfum því miður ekki farið að góðra manna ráðum undanfarin misseri, ráðum þeirra sem vöruðu við ofvexti bankanna og yfirvofandi hruni. Hvort sem það voru breskir ráðgjafar, danskir bankamenn eða íslenskir fræðimenn. Það er pínlegt í dag þegar skýrslur og ræður þessara manna eru rifjaðar upp.
Er ekki þjóðráð að læra nú af reynslunni?
Ég bendi á hollráð þriggja manna sem sjá hlutina frá öðru sjónarhorni en stjórnmálamenn og þurfa ekki að taka mið af persónulegum og pólitískum frama sínum í næstu kosningum.
Í viðtali í Morgunblaðinu 14. des. lagði Daniel Gross ríka áherslu á að menn gefi sér tíma í Evrópumálin því "annars er hætta á að ríkisstjórnin skrifi undir hvað sem er".
Í sjónvarpsþætti milli hátíða varaði Páll Skúlason við því að menn bíði og voni að það "komi frelsarar hér inn og vísi veginn til framtíðarlandsins".
Í opnugrein í Morgunblaðinu á Þorláksmessu skrifar Bjarni Snæbjörn Jónsson um nauðsyn þess að byggja landið upp áður en menn bindast öðrum þjóðum nánari böndum.
Enginn þessara manna lýsir sig með eða á móti ESB. Það sem er sameiginlegt hjá þeim eru ráðin um að fara varlega.
Ingibjörg Sólrún segir það besta nýársheitið að sækja um inngöngu í ESB. Geir Haarde lék biðleik og bíður eftir landsfundi. Björgvin G. Sigurðsson, sem svaf á verðinum, hafði varla opnað annað augað þegar hann sagði að aðildarumsókn í ESB varðaði leiðina til nýrrar uppbyggingar.
Erum við ekki búin að brenna okkur á ráðum stjórnarinnar? Hvort er nú skynsamlegra að hlýða á hollráð þeirra sem standa utan við pólitíkina eða styðja stefnu þeirra sem segja "þið eruð ekki þjóðin" og eiga sinn hlut í sök á hruninu?
Það verður að kjósa til Alþingis. Nokkrar aðalpersónur verða að taka sér frí. Og vonandi berum við gæfu til þess í leiðinni að hafna aðildarviðræðum við ESB. Þannig getur ný stjórn einbeitt sér að því sem skiptir máli núna; bjarga heimilum, halda uppi atvinnu, endurnýja traust o.s.frv.
Svo geta menn pælt í Evrópuumræðunni síðar, þegar við höfum burði til þess að standa upprétt. Við þessar aðstæður gerir hún ekki annað en að dreifa athyglinni frá veruleikanum sem við er að glíma.
Alþingiskosningar samhliða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þarfur pistill, Haraldur. Þetta yrði risaskref fyrir Ísland og óráð að hlaupa bara sisona í greipar þessara stórþjóða. Mér líst vel á hugmyndina um tvennar kosningar: kjósa fyrst um hvort taka skuli upp aðildarviðræður og síðan um þann samning sem fyrir liggur.
Baldur Hermannsson, 2.1.2009 kl. 19:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.