EVRAN ER BYRJUÐ Í SKÓLA

Á morgun verður evran sjö ára, ef talið er frá þeim tíma sem byrjað var að nota seðla og mynt í daglegum viðskiptum. Evran er því enn á „tilraunastigi" og rétt að komast á skólaaldur.

Þegar Adonnino-nefndin var sett á fót 1985 var megin áherslan á að taka upp sameiginleg tákn fyrir Evrópu. Þannig átti að skapa Evrópuvitund því „þá hefðu stofnanir Evrópusambandsins sterkari stöðu til að auka valdsvið sitt".

Helsti hvatinn fyrir stofnun nefndarinnar var að skoðanakannanir Eurostat sýndu að 70% íbúanna vissu lítið sem ekkert um sambandið. Þó myntin hafi ekki verið eitt af verkefnum nefndarinnar hefur evran ímyndarhlutverk.

Afrakstur af starfi Adonnino-nefndarinnar var m.a.:

  • Fáni ESB; gular stjörnur á bláum grunni
  • Þjóðhátíðardagur, sem er Evrópudagurinn 9. maí
  • Þjóðsöngur; Óðurinn til gleðinnar úr 9. sinfóníu Beethovens.
  • Evrópsk vegabréf - dumbrauð að lit og stöðluð að stærð
  • Evrópsk frímerki

Einnig kom nefndin fram með hugmyndir um samevrópska sjónvarpsstöð og Evrópulottó, stöðluð ökuskírteini og staðlaðar bílnúmeraplötur, svo eitthvað sé nefnt, sem og samvinnu á sviði mennta- og menningarmála. Með Lissabon samningnum er ætlunin að bæta nýjum sameiningartáknum í safnið, með stofnun embættis þjóðhöfðingja og sameiginlegs utanríkisráðherra.

Með Maastricht samningnum 1992 var grunnur lagður að evrunni, þó aðdragandinn hafi verið lengri. Í dag eru evran og fáninn „þekktustu tákn" Evrópusambandsins. Evran er ekki aðeins gjaldmiðill, með henni á líka að samræma peningamála- og efnahagsstefnur ríkjanna og henni er ætlað að „tengja alla Evrópubúa" í fyllingu tímans.

Hér á landi eru margir talsmenn þess að taka upp evruna sem gjaldmiðil í staðinn fyrir krónuna. Hafa þær raddir gerst háværar eftir bankahrunið og lækkun á gengi krónunnar. Þá má spyrja hvort rétt sé að kasta krónunni fyrir mynt sem er nýbyrjuð í skóla?

Hinn strangi skóli evrunnar verður kreppan í Evrópu. Þar mun koma í ljós hvers hún er megnug; hvort hún reynist eigendum sínum sá styrkur sem vonast var eftir.

Menn hafa ýmsar skoðanir á því og æði misjafnar. Aðeins tíminn mun skera úr um hver hefur rétt fyrir sér í þeim efnum. Václav Klaus, sem á morgun tekur við embætti forseta ESB, gefur evrunni ekki háa einkunn. Tekur jafnvel svo djúpt í árinni að lýsa henni sem misheppnaðri tilraun!

Ef Ísland þarf á sterkari gjaldmiðli að halda hlýtur það að vera mjög varasamt að taka upp mynt sem er ómótuð, enn á tilraunastigi og ekki búin að slíta barnsskónum. Mynt sem á sér pólitískar rætur, meira en efnahagslegar, og er ætlað að vera sameiningartákn. Standist hún ekki prófið væri það ávísun á að fara úr öskunni í eldinn.

Líklega er hollast að fara sér hægt og sjá hvernig málin þróast í kreppunni áður en teknar eru stórar ákvarðanir í þessum efnum og skoða alla kosti sem í boði eru. Láta evruna ljúka prófinu fyrst. Kapp er best með forsjá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband