Eru þau að gera þetta viljandi?

Því lengur sem dregst, að gera eitthvað áþreifanlegt af hálfu ríkisins í rannsókn á hruninu mikla, því ágengari verður spurningin um hvort þessi ótrúlega töf sé að ásettu ráði.

Það er óverjandi að það taki 12 vikur að skipa rannsóknarnefnd, sem hefði átt að skipa strax. Að hámarki hefði það átt að taka 12 daga, svo stórt er þetta mál. Hvaða ástæða býr að baki?

Sökudólgalisti #1

Allra fyrstu dagana voru viðbrögðin í þjóðfélaginu mörkuð af undrun, reiði, sorg og áfalli. Listinn yfir helstu sökudólgana var svona:

  1. Útrásarvíkingarnir
  2. Bankarnir
  3. Seðlabankinn
  4. Ríkisstjórnin
  5. Fjármálaeftirlitið

Öll athyglin var á útrásarvíkingunum en FME varla í umræðunni til að byrja með. Þegar almenningur var upplýstur um að bakakerfið væri 10 sinnum stærra en sólin fóru bankarnir beint í toppslaginn og hið pólitíska bitbein sem Davíð Oddsson er, setti Seðlabankann réttilega næst þar á eftir.

Sökudólgalisti #2

Eftir því sem málin skýrðust í byrjun breyttist sakalistinn, sér í lagi þegar IceSave kom fram í dagsljósið. Einnig kom æ betur í ljós að þeir sem áttu að standa hina opinberu eftirlitsvakt höfðu sofið á verðinum.  Listinn breyttist snarlega í þetta:

  1. Fjármálaeftirlitið
  2. Seðlabankinn
  3. Ríkisstjórnin
  4. Landsbankinn (IceSave) og Bjöggarnir
  5. Baugur - Glitnir, Jón Ásgeir og co
  6. Aðrir útrásardólgar

Ástæðan fyrir að FME og SÍ eru ofar á listanum en ríkisstjórnin er að það eru fagstofnanirnar sem áttu að geta séð, skilið og brugðist við. Ábyrgð stjórnvalda var/virtist fyrst og fremst pólitísk. Og Bjöggarnir eru ofar öðrum útrásardólgum á listanum vegna þess hve þungar klyfjar þeir leggja á landsmenn með IceSave.

Sökudólgalisti #3

Þegar lengra leið kom í ljós að ríkisvaldið hafði haft meiri möguleika á viðbrögðum en sýndist í fyrstu. Auk þess sýndi stjórnin máttleysi í IceSave deilunni. Þegar við bætist að ríkisstjórnin dregur það út í hið endalausa að gera eitthvað í málinu breytist listinn í samræmi við það.

Nú er svo komið að maður hlýtur að ætla að eitthvað sérstakt búi að baki því að stjórnvöld draga alvöru aðgerðir svona lengi. Það getur ekki verið tilviljun. Fyrir vikið er listinn núna svona:

  1. Ríkisstjórnin
  2. Ríkisstjórnin
  3. Ríkisstjórnin
  4. Fjármálaeftirlitið
  5. Seðlabankinn
  6. Landsbankinn/IceSave/Bjöggarnir
  7. Baugur, Glitnir (Stím) og skúffufélög Jón Ásgeirs og co
  8. Kaupþing, Exista og ýmsir útrásardólgar

Ríkisstjórnin á einn og aðeins einn raunhæfan kost. Hann er að slíta stjórn og boða til kosninga. Það þýðir ekkert að bjóða fólki upp á þær skýringar að ekki sé tímabært að kjósa. Það er tímabærara en að hafa 63 þingmenn í jólafríi í mánuð og stjórn sem er svo máttlaus að hún getur ekki einu sinni leiðrétt ósóma eftirlaunalaganna skammlaust.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Eiríksson

Heyr, heyr!

Þarna er komið að kjarna málsins, ábyrgðin fellur í öllum tilfellum á ríkisstjórnina á undan öðrum.      Það hlýtur að búa eitthvað voðalegt að baki þess að allir embættismenn sitja, í fjármálaeftirliti, ráðuneytisstjóri, seðlabankastjóri, o.fl.  - allir í boði ríkisstjórnar.      Og allt dregst á langinn - jafnvel svo einfalt mál að veita námsmönnum neyðarlán tekur fleiri vikur - þeir falla úr hor eða verða úti áður en björgun berst frá LÍN!

Þingmenn hafa nú nánast verið í fríi í 3 mánuði og vel má hafa þá í fríi í 3 í viðbót ef við fáum kosningar og inn koma þingmenn með umboð til að gera eitthvað - sumir efalaust með inngöngu í ESB efst, aðrir vonandi með breytingu á kvótakerfi eða brottfall þess efst en umfram allt fólk með nýtt manneskjulegt og pólitískt siðferðismat, heiðarlegt og gott fólk!  

Það er tímabært að boða til kosninga!     Þá munu margir hópar fara á stað og leita hófanna um ný framboð.     Ríkisstjórn og Alþingi gætu áður en þeir fara frá gert breytingar á kosningalögum í þá átt að fjárstyrkur verði veittur nýjum framboðum og að 5% sperriregla verði lækkuð verulega til að fjölbreyttara munstur fáist í flóru alþingismanna (það er allt í lagi að fá einn Ástþór inn á þing og jafnvel fleiri)!

Kveðja og þökk fyrir þennan góða pistil

Ragnar Eiríksson, 30.12.2008 kl. 12:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband