13.12.2008 | 13:51
Egill.esb og Illugi.esb og Jónas punktur esb
Okkur vantar mann eins og Jón. Mótvægi við ofurbloggarana Jónas og Egil og Illuga. Og ég er ekki að tala um einhvern Jón, heldur einn merkasta mann sem ég hef borið gæfu til að kynnast á lífsleiðinni og vinna með í fjórtán ár.
Mælingar segja að þeir séu stærstir þessir þrír, langstærstir. Bloggarinn Jónas er í hlutverkinu "fúll á móti" og skilar því prýðilega. Skarpur en stundum full orðljótur fyrir minn smekk, en hver hefur sinn stíl. Jónas gefur lesendum sínum ekki kost á að skrifa athugasemdir, öfugt við hina ofurbloggarana tvo.
Illugi er fastur punktur á rúntinum mínum um netið. Ég er stundum sammála honum og stundum ekki, en hef alltaf gaman af að lesa hann. Og svo er það Egill. Hann birtir oft bréf frá lesendum sínum og hjá honum eru fleiri athugasemdir skráðar en hjá öðrum bloggurum. Hann er með sjónvarpsþátt að auki.
Gallinn er að þessir þrír hetjutenórar bloggsins eru allir á sömu línu í Evrópumálum. Það er slæmt (jafnvel þó þeir hefðu rétt fyrir sér) vegna þeirra áhrifa sem þeir hafa sem hið nýja fjölmiðlavald. Bloggið er nefnilega orðið glettilega sterkt, eins og Jónas hefur rökstutt með nokkrum dæmum. Þeir eru allir með það á hreinu að við verðum að fá okkur evru og stefna á ESB.
Það er þetta með hann Jón. Hann vann fulla vinnu nánast til dauðadags, en hann lést fyrir rúmum þremur árum, þá rétt kominn á níræðisaldurinn. Þetta var sérstakur karl og eitursnjall. Hann var upphaf tölvuvæðingar á Íslandi.
Hann þekkti allt frá gataspjöldum til Oracle; sá um fyrstu skýrsluvélarnar 1954, fyrstu tölvurnar 1961 og hafði tækni 21. aldarinnar á takteinum. Hann þekkti söguna, skildi samhengið og var alltaf á tánum.
Það tók smá stund að átta sig á gamla manninum, sem var þegar orðinn löggiltur eldri borgari þegar ég byrjaði að vinna með honum. "Já en strákar mínir, hvað ef ..." og svo komu óvæntar spurningar, stundum skrýtnar. Það var eins og hann væri að halda aftur af okkur, ungu mönnunum. Treystir hann okkur ekki? hugsaði ég. Er hann alltaf svona efins? Svo á endanum spurði ég.
"Nei Haraldur minn" svaraði sá gamli. "Sjáðu til, ef enginn staldrar við og setur sig á móti, þá er alltaf hætta á að eitthvað gleymist, eða fari framhjá okkur. Þegar maður smíðar svona stóran hugbúnað, sem snertir alla landsmenn, er alveg fatalt að reka sig á þegar kerfið er komið í rekstur. Þá er of seint að snúa til baka." Já, hann notaði orðið fatalt.
Og það er eins með ESB. Það væri alveg fatalt að reka sig á þegar búið að að koma þjóðinni inn í þetta tröllvaxna apparat og of seint að snúa til baka. Þess vegna skilur maður ekki asann. Jafnvel sóttir menn til útlanda til að segja okkur hvað sé okkur fyrir bestu.
Þess vegna vantar mann eins og Jón í bloggið, sem mótvægi við hetjutenórana þrjá. Mann sem staldrar við, efast, vantreystir, setur sig á móti og dregur fram smæstu atriði. Passar að ekkert gleymist. Ekki eins og þver pólitíkus eða afturhaldsseggur heldur eins og vitur maður, hokinn af reynslu, sem skilur samhengi hlutanna og hvað skiptir máli.
Ég myndi taka að mér blogghlutverkið "Jón punktur is" ef ég gæti. En þetta litla blogg mitt má sín lítils gegn ofurbloggurunum þremur sem hver um sig fær 35 sinnum meiri lestur. Það er eins og að glíma við fallbyssusveit með snjóbolta.
Þeir Egill, Illugi og Jónas eru örugglega mætir menn, enda er inntak þessarar færslu ekki gagnrýni á þá þrjá, heldur á það sem vantar. Áhyggjur af slagsíðunni sem er á fjórða valdinu. Það getur ekki verið til góðs.
En umræðan á kannski eftir að breytast þegar líður fram á árið 2009 og kreppan leggst á Evrópu. Það er spurning hvaða lag hetjutenórarnir þrír syngja þegar/ef í ljós kemur að hvorki ESB né evra verða þeim veikari til varnar. Sjáum til. Bara að það verði ekki búið að setja kerfið í rekstur.
Og of seint að snúa til baka.
Athugasemdir
Við skulum ekki hafa áhyggjur. Þeir virðast sterkir en þetta eru pappírstígrisdýr...
Guðmundur Guðmundsson (IP-tala skráð) 14.12.2008 kl. 21:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.