8.12.2008 | 22:05
VERÐBÆTUR: Bylmingshögg á báða vanga
Það var í göfugum tilgangi að tekin var upp verðtrygging með Ólafslögum fyrir fyrir tæpum þrjátíu árum. Það var til að verja bæði sparifé og útlán fyrir rýrnun vegna verðbólgu. Settur var plástur á afleiðingarnar þegar ekki gekk að kveða niður drauginn. Það var gert meira en áratug síðar með þjóðarsáttinni 1991.
Í millitíðinni varð "misgengið" til, þegar hætt var að verðtryggja laun en ekki lán. Þá voru sett lög um greiðslujöfnun 1985, sem voru síðan uppfærð núna 17. nóvember. Inn í þau var bætt "greiðslujöfnunarvísitölu" (já 9 atvkæða orð) til að mæta misgenginu hinu nýja. Nú erum við með Nýja banka og nýtt misgengi á Nýja Íslandi.
Nýja misgengið er vegna loftbólu sem belgdi út bæði krónuna og fasteignaverð. Þessi bóla varð ekki til af sjálfu sér heldur var hún manngerð. Nú er hún sprungin og hvoru tveggja gengur til baka. Þá fá íbúðarkaupendur bylmingshögg á báða vanga þegar verðið fer niður en skuldirnar upp.
Auðvitað þarf að aðstoða fólk sem verður fyrir barðinu á hinu nýja misgengi. Það er ekki forsvaranlegt að fjöldi fólks missi eignir sínar. Margir hafa komið fram með hugmyndir, t.d. Benedikt Sigurðarson, Hallur Magnússon og Gylfi Magnússon, auk nýju laganna frá 17. nóvember.
En það er rangt að tala um verðtrygginguna sem geranda. Samt er mjög áberandi í umræðunni að þetta sé "allt út af verðtryggingunni." Sumir vilja kenna smæð krónunnar um en að mínum dómi eru það menn sem (mis)nýttu sér smæð hennar til að hagnast, sem bera stærsta sök.
Þegar bönkum var hleypt á íbúðalánamarkaðinn 2004 hófst hin mikla hækkun fasteignaverðs og stjóð í þrjú ár. Hún var fjármögnuð með peningum sem nú hefur komið í ljós að voru ekki til. Það verður að reisa varnir - með alvöru reglum - gegn því að menn geti aftur leikið sér þannig í Matador með fólk og eignir þess. Annars verður bara endurtekið efni eftir nokkur ár.
Umfjöllun um þessa hlið málsins er lítil en því meira talað um að kasta krónunni og taka upp evru. Það er einfaldlega óraunhæft að tala um það sem lausn núna, því að hér verður engin evra næsta áratuginn. Það þarf að miða viðbrögðin við veruleikann en ekki óskhyggju.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.