20.4.2013 | 10:30
Þannig stjórna jafnaðarmenn
Samfylkingin á besta slagorðið í þessari kosningabaráttu. "Þannig stjórna jafnaðarmenn" er einfalt og grípandi með beina vísun í hið nýlengda nafn flokksins og í fortíðina.
Samfylkingin á líka bestu auglýsingarnar. Það er sterk og ákveðin lína í öllum auglýsingum, hvort sem er í sjónvarpi, blöðum eða biðskýlum strætó. Allt "lúkkið" er flott hjá þeim.
Ekki er hægt að vinna kosningar á umbúðunum eingöngu. Innihaldið þarf að höfða til "kaupandans" og hann þarf að treysta seljandanum. Það er einkum vitnisburður reynslunnar sem skemmir markaðssetningu krata. Hann þurrkar út allt traust á seljandanum.
Hvernig stjórna jafnaðarmenn?
Ef kíkt er á tvö af stærstu baráttumálum Samfylkingarinnar síðustu misserin, gætu auglýsingatextar vegna þeirra verið einhvern veginn svona:
Stjórnarskráin
Við vildum færa þjóðinni nýja stjórnarskrá. Eftir vænan skammt af klúðri tókst okkur að setja saman stjórnlagaráð sem skilaði tillögu. Við gerðum ekkert í málinu mánuðum saman og hentum því svo í þingið korteri fyrir þinglok. Þar sigldi það í strand og ekkert breyttist. Þannig stjórna jafnaðarmenn.Kvótakerfið
Fyrning kvótans var okkar leið. Eftir vænan skammt af klúðri var sett saman sáttanefnd sem skilaði tillögum, sem allir gátu fellt sig við. En í staðinn völdum við aðra leið og boluðum ráðherra úr ríkisstjórn. Málinu var hent í þingið korteri fyrir þinglok. Þar sigldi það í strand og ekkert breyttist. Þannig stjórna jafnaðarmenn.
Ég læt öðrum eftir að stinga upp á texta fyrir Málið eina - hraðferðina sem átti að ljúka fyrir tveimur árum. Þótt það mál hafi misst allt aðdráttarafl er það enn fyrsta, annað og þriðja mál á dagskrá krata. Þótt stór meirihluti vilji ekki fylgja þeim til Brussel skal þjösnast áfram. Þannig stjórna jafnaðarmenn.
Ef við bætum svo Icesave á afrekalistann er skiljanlegt að nýtt Evrópumet í fylgistapi sé í uppsiglingu.
Yrði eitt mesta fylgistapið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:52 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.