740 milljónir fyrir sjónvarp

Fyrir þremur árum var sett á stofn ný sjónvarpsstöð. Þó aðeins sé um að ræða vef-sjónvarp er kostnaðurinn kominn í 4,7 milljarða króna. Europarl TV, var sett upp í þeim tilgangi að upplýsa þegna Evrópuríkisins um störf þingsins í Brussel.

Að meðaltali horfa 830 manns á stöðina á dag, eða 0,00016% íbúa Evrópusambandsins. Áhorfendur eru heldur færri en íbúarnir á Hvolsvelli. Það þýðir að kostnaðurinn er orðinn um 5.780 þús. á hvern áhorfanda á þremur árum. Ef RÚV ætti að fá jafn hátt framlag á hvern áhorfanda væru það rúmir 600 milljarðar á ári, sem er talsvert meira en öll fjárlög íslenska ríkisins.

Höfuðstöðvarnar eru í Plymouth á Englandi og fá þýðendur nóg að gera. Efni er textað og þýtt á 22 tungumál, svo hver klukkutími í útsendingu kostar 9,5 milljónir króna. Hugsanlega rambar inn einn áhorfandi annan hvern dag sem þarf á maltneskum texta að halda, en nokkur hópur fólks vinnur við að þýða efni yfir á hvert tungumál.

ESB verður seint sakað um að fara vel með skattfé almennings.

Á sama tíma og ESB fagnar niðurskurði á Ítalíu verða 740 milljónir til viðbótar lagðar í reksturinn á Europarl TV á næsta ári, til að uppfræða 830 manns.


mbl.is ESB fagnar niðurskurði á Ítalíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Úff...

Guðmundur Ásgeirsson, 6.12.2011 kl. 00:28

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þetta er nú atvinnusköpun sem kveður að.  Líklega fleiri hundruð, ef ekki þúsundir starfa sem hafa skapast.

Sýnir hvað samtakamáttur "Sambandslandanna" getur áorkað.

G. Tómas Gunnarsson, 6.12.2011 kl. 02:25

3 Smámynd: Kári Harðarson

Samt er kostnaðurinn undir 10 krónum á hvern ESB íbúa. Slíkur er máttur stærðarinnar!

Kári Harðarson, 6.12.2011 kl. 09:05

4 Smámynd: Gunnlaugur I.

Máttur stærðarinnar, réttlætir ekki svona endalausa sóun á almannafé.

Svo í ofan á lag er þetta algerlega misheppnað því að nánast enginn af þessum 500.000.000 manna sem í bandalaginu búa horfir á þetta áróðursrugl þeirra.

Ég held að kaplasjónvarpsstöðin í Grindavík hafi verið með meira áhorf daglega, þegar hún var upp á sitt besta og var hún þó bara rekin af einum dugnaðrmanni.

Þetta dæmi lýsir akkúrat sóuninni og ruglinu sem þetta hörmungar stjórnsýsluapparat getur leyft sér að standa fyrir.

Svei þessu !

Gunnlaugur I., 6.12.2011 kl. 12:24

5 Smámynd: Haraldur Hansson

Þakka ykkur innlitið og athugasemdirnar.

Europarl TV er bara eitt lítið dæmi um hvað ESB reynir/gerir til að gefa af sér góða mynd og ýta undir að þegnarnir líti allir á sig sem evrópska þjóð. Menn geta kynnt sér Adonnino nefndina til að sjá öll hin dæmin.

Kári, margt smátt gerir eitt stórt. Hér yrðu menn varla sáttir ef alþingi legði til 3,2 milljónir á ári í vefsjónvarp sem hefði 0,5 áhorfendur á dag (svo við umreiknum þetta eftir höfðatölu).

Haraldur Hansson, 6.12.2011 kl. 12:46

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

3,2 milljónir á ári fyrir 26 gesti á ári, sem væntanlega væru starfsmenn og frændgarður. Ekki slæmt það.

Er það vanmáttur smæðarinnar kannski?

Jón Steinar Ragnarsson, 6.12.2011 kl. 14:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband