8.9.2011 | 08:41
Er ESB fært um að taka upp lýðræði?
Þegar ESB verður formlega orðið að sambandsríki mun það eiga lítið skylt við fyrirmyndina USA en því meira við Sovétríkin. Sama hve oft evrópskir ráðamenn kalla það "bandaríki Evrópu".
Það sem stendur í veginum er að þá þyrfti að taka upp alvöru lýðræði. Það er sá þröskuldur sem ESB getur ekki yfirstigið og þess vegna er útkoman dæmd til að verða "sovésk".
Munurinn á lýðræði í USA og "lýðræði" í ESB
Forsetaframboð í USA: Forsetaefni þarf að heyja stranga kosningabaráttu á landsvísu til að tryggja sér útnefningu flokks síns og komast í framboð.
Forsetaframboð í ESB: Það er ekki til, forseti er handvalinn af leiðtogaráðinu. Almenningur hefur ekkert um það að segja. Utanríkisráðherra er valinn eins.
Forseti USA þarf að kynna sig og stefnu sína og vinna hylli kjósenda. Hann er kosinn af almenningi í beinum lýðræðislegum kosningum.
Forseti ESB er "útnefndur" á lokuðum fundi. Enginn íbúi Sambandsins hefur hugmynd um fyrir hvað Van Rompuy stendur, þótt hann fái hærri laun en Obama.
Framboð til þings í USA: Flokkarnir setja fram pólitíska stefnu sína þegar kosið er til þings. Kjósendur hafa tvo (og stundum fleiri) skýra kosti.
Framboð til þings í ESB: Listar eru landsbundnir en þingmenn raðast í pólitíska flokka innan þings eftir kosningar. Ekki er nokkur leið fyrir kjósendur að kjósa um pólitíska stefnu.
Ríkisstjórn USA er skipuð af þjóðkjörnum forseta, sem hefur til þess beint lýðræðislegt umboð frá kjósendum.
Ríkisstjórn ESB er þannig valin að forseti framkvæmdastjórnar er "tilnefndur" af leiðtogaráðinu. Hann leggur síðan ráðherralista sinn fyrir Evrópuþingið.
Þingið hefur um þennan eina kost að velja, eins og í kommúnistaríki. Annað hvort er stjórnin samþykkt ... eða samþykkt. Annað er ekki í boði.
Stjórnarandstaðan í USA er bæði virk og kröftug. Núna er flokkur forsetans með minnihluta í fulltrúadeildinni. Forsetinn þarf að afla hverju máli sínu fylgis í þinginu.
Stjórnarandstaðan í ESB er ekki til, þótt hún eigi að vera ein af grunnstoðum hins virka lýðræðis. Almenningur þekkir hvorki haus né sporð á Daul og Schultz, sem stjórna einstefnunni í Brussel.
Þingið í USA fer með ótvírætt löggjafarvald.
Þingið í ESB er valdalítil punt-stofnun, til að gefa Sambandinu lýðræðislegan blæ.
Vægi fylkja í USA: Auk fulltrúadeildarinnar er 100 manna öldungadeild. Þar hafa öll fylki tvo fulltrúa, óháð stærð og íbúafjölda. Öldungadeildin er öryggisventill minni fylkjanna.
Vægi ríkja í ESB: Þingið deilir löggjafarvaldi með Framkvæmdastjórninni, sem leggur fram frumvörp, og Ráðherraráðinu sem á síðasta orðið. Í Ráðinu fer vægi atkvæðis hvers ríkis eftir íbúafjölda. Smáríkin hafa hverfandi vægi og enga "öldungadeild" til að grípa í taumana.
Stjórnarskrá USA er gömul, stutt og skýr. Um hana ríkir almenn og víðtæk sátt.
Stjórnarskrá ESB var hafnað af almenningi. Þá var hún dulbúin sem torlæs doðrantur, laumað inn bakdyramegin og íbúum meinað að kjósa.
Stjórnmálastéttin í Brussel hefur komið sér upp kerfi sem tryggir æðstu valdhöfum frið fyrir kjósendum. Til að breyta því þyrfti að kollsteypa Sambandinu með allsherjar uppreisn í Evrópuríkinu öllu, sem er ólíklegt að gerist.
Sambandsríki ESB er í burðarliðnum, um það er ekki lengur deilt. Ríki sem getur aldrei orðið annað en miðstýrt, sovéskt og misheppnað.
Athugasemdir
http://www.funnychill.com/media/1130/Florida_Election_Recount/
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 8.9.2011 kl. 08:58
Kærar þakkir fyrir þennan pistil sem segir margt.
Forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte, hefur ástamt fjármálaráðherra sínum, Jan Kees de Jager, sett fram þá tillögu að einræðisherra stjórni evrusvæðinu. Löndum yrði spakrað út úr myntsvæðinu ef þau hegða sér ekki samkvæmt óskum einræðisherrans og að hann tilskipi skatta og innheimtu þeirra í evrulöndum. Útkoman yrði líklega styrjöld. Þetta eru sem sagt tillögur stjórnmálamanna evrusvæðisins í dag og birtust svona í Financial Times í gær undir fyrirsögninni; Dutch PM calls for Europe budget tsar
Kveðjur
Gunnar Rögnvaldsson, 8.9.2011 kl. 09:13
Ég sé ekki betur Haraldur en að þú sért að fara fram á það að Evrópusambandinu verði breytt í ríki með öllum þeim skildum og ábyrgðum sem slíku fylgir.
Í staðinn fyrir að hafa Evrópusambandið það sem það er í dag. Alþjóðlegt samband þjóða Evrópu sem vinna saman á sameiginlegum grundvelli að sameiginlegum markmiðum.
Ég ætla síðan einnig að benda þér á þá staðreynd að Evrópusambandið er ekki með einn forseta eins og þú ranglega heldur fram hérna. Það eru nokkrir Forsetar innan Evrópusambands. Þar á meðal Forseti Ráðherraráðsins (sem þú vísar ranglega til sem Forseta Evrópusambandsins), Forseti Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og síðan Forseti Evrópuþings Evrópusambandsins.
Aðildarríki haga síðan stjórnkerfismálum sínum eins og þeim hentar og sýnist. Þar eru forsetar, kóngar og drottningar við völd til skiptis og eftir hefðum viðkomandi ríkis. Það hefur ekkert breyst við aðild viðkomandi ríkja að Evrópusambandinu.
Jón Frímann Jónsson, 8.9.2011 kl. 09:45
Forseti USA: Er forseti sambandsríkis
Forseti ESB: Er forseti ríkjasambands ...
ESB er ekki ríki og ef ESB ætti að ráða á þessum vandamálum bót, þá væri það með því að breyta ESB í ríki. Hörðustu ESB sinnar á Íslandi eru ekki einu sinni hrifnir af því.
Heimir Hannesson (IP-tala skráð) 8.9.2011 kl. 10:39
Heimir: Já Ísland er aðili að European Movement, samtökum evrópskra sambandsríkissinna.
Annars er það spurning hvort að íslenskir ESB-sinnar fái að ráða miklu um þróun sambandsins.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 8.9.2011 kl. 11:00
Þakka innlitið og athugasemdirnar.
Jón Frímann: Þú hefur eitthvað misskilið. Ég er ekki "að fara fram á" nokkurn skapaðan hlut. Bara nefni hugmyndina sem Merkel, Sarkozy, Trichet, Bonnini og fleiri hafa sett fram um bandaríki Evrópu og nýtur fylgis meðal margra evrópskra áhrifamanna.
Ef þú lest betur sérðu að ég nefni bæði forseta Framkvæmdastjórnarinnar (sem er Barroso) og með nafni Van Rompuy, sem er forseti leiðtogaráðsins (en ekki ráðherraráðsins eins og þú segir). Embætti þingforsetans er annars eðlis.
Haraldur Hansson, 8.9.2011 kl. 12:47
Heimir á komment dagsins - um að ekki sé hægt að ráða bót á vandamálum ESB nema breyta því í ríki, sem jafnvel hörðustu aðildarsinnum hugnast ekki.
Frábært. Þá eru kostirnir þessir:
Annars vegar, að ganga í Sambandsríki, sem jafnvel hörðustu aðildarsinnar vilja ekki. Hins vegar, að ganga í ríkjasamband með óleysanlegan vandamálapakka, sem engin vill. Og samt berjast menn fyrir aðild!
Tjahh ... það er ekki öll vitleysan eins.
Haraldur Hansson, 8.9.2011 kl. 12:53
Það er ekkert og verður ekkert lýðræði í esb. Þessi bræðsluofn er tilskipunarkerfi sem á ekkert skylt við lýðræði, hans eina hugsjón er að drottna í nafni sinna eigin laga rétt eins og Neró gerði.
Ómar Gíslason, 8.9.2011 kl. 22:19
Heyr, heyr..
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 9.9.2011 kl. 01:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.