15.7.2011 | 00:08
Safnvörðurinn Hemmi Gunn
Þótt Hemmi Gunn sé hin síðari ár þekktur sem útvarpsmaður var hann löngu áður orðinn vel þekktur á Íslandi fyrir afrek sín á íþróttavellinum, enda íþróttamaður góður.
Hitt vita færri, að hann starfaði í tvö sumur sem safnvörður á safni Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri. Þetta kemur fram í viðtali sem vefurinn bb.is átti við Hemma. Viðtalið er stutt, en athyglisvert.
Það kom Hemma á óvart hvað Íslendingar vita lítið um sjálfstæðishetjuna, en útlendingar sem heimsækja safnið vita oft meira og hafi lesið sér til. Í viðtalinu segir hann meðal annars:
Mér finnst það sárt, að maður sem afrekaði jafn mikið og gerði Ísland að þjóð meðal þjóða sé jafn lítið þekktur hér og raun ber vitni.Það á ekki bara að minnast Jóns á hátíðarstundum, það er miklu meira varið í hann, alla hans dynti og persónu hans.
Hann kom alveg með nýjar víddir inn í okkar þjóðfélag og ég vona bara að fólk fari nú að kynna sér Jón almennilega.
Það er greinilegt að safnvörðurinn fyrrverandi ber sterkar taugar til Jóns og safnsins. Það ættu allir Íslendingar að gera, líka þeir sem aldrei hafa komið á Hrafnseyri.
Þeir sem vilja taka áskorun Hemma um að "kynna sér Jón almennilega" gætu til dæmis byrjað á þessum texta frá 1862, sem forseti Íslands fór að hluta með í mjög góðri hátíðarræðu sinni á Hrafnseyri.
Formlegt ritmál 19. aldar er dálítið frábrugðið nútímamálinu en textinn er engu að síður auðskilinn:
Sumir af vorum helztu mönnum eru líka svo hræddir við sjálfsforræði landsins, að þeir eru eins og skepnan, sem varð hrædd við sína eigin mynd.En nú er það lífsmál fyrir vort land, að það hafi alla stjórnarathöfn sem næsta sér og hagkvæmasta, og þá stjórn, sem getur svo að kalla séð með eigin augum það sem hún á að ráða yfir, en ekki í speigli og ráðgátu, eða með annara augum, í 300 mílna fjarska.
Þetta er krafa, sem oss virðist ekki maður geti sleppt, nema með því að óska sér að leggjast í dauðasvefn að nýju.
Þótt ekki eigi að blanda Jóni Sigurðssyni í flokkspólitík 21. aldar er hreint ekki flókið að finna þessum orðum hans stað í þeim málum sem nú ber hvað hæst. Hann hefur svo sannarlega lög að mæla.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.