Evrópuvefurinn - til hvers?

"Hvað er lýðræði?" var spurt á Evrópuvefnum, sem svaraði út í hött. Enda er hlutverk hans að veita vandaðar upplýsingar um Evrópusambandið.

Háskóli Íslands og Alþingi eru tvær af þeim opinberu stofnunum sem jafnan standa í efstu þrepum virðingarstiga samfélagsins. Þær eru skráðar fyrir vefnum sem sagður er "upplýsingaveita um Evrópusambandið og Evrópumál".

Spurninguna hefði mátt afgreiða með stuttu svari, t.d. frá breska sendiherranum Tony Brenton, sem í íslenskri þýðingu (og eftir minni) var svona:

  • Hvað er lýðræði? 
    Það er þegar allir hlutaðeigandi hafa jafnan rétt til að greiða atkvæði um mál, þar sem kosningarnar eru bæði frjálsar og sanngjarnar. Þá er það lýðræði, annars ekki.
  • Hvað eru frjálsar og sanngjarnar kosningar? 
    Þegar kjósendur geta varið atkvæði sínu eins og þeir sjálfir telja rétt, án afskipta, þvingunar eða þrýstings frá öðrum. Þá eru það frjálsar og sanngjarnar kosningar, annars ekki.

Þessi skilgreining er auðskilin og á alltaf við. Hvort sem kosið er til þings, um framkvæmdir í húsfélaginu, um frumvörp til laga eða eitthvað annað.

Það er skiljanlegt að á Evrópuvef hrökkvi menn í baklás yfir spurningu um lýðræði. Henni verður ekki svarað heiðarlega nema láta ESB líta illa út. En "vandinn" var leystur með því að láta heimspeking skrifa ótrúlega langloku og gæta þess að svarið tengdist Evrópusambandinu ekki á nokkurn hátt, þótt það eigi að vera viðfangsefni vefsins.

Vonandi er þetta undantekning og að framvegis verði veitt svör sem gefa rétta mynd af Sambandinu. Til þess er vefurinn. Verði áfram reynt að sneiða hjá því sem Össuri kynni að finnast óþægilegt er hreinlegra að sleppa þessu. Alveg prýðilegt svar um menntun og atvinnu gefur vonir um betri tíð.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband