Fátæktin í ESB - framtíð Íslands

Það segir sitt um hagsældina innan Evrópuríksins að það skuli þurfa að efna til sérstaks átaks, sem heitir Stöðvum fátækt! Það á að leggja eitt ár undir verkefnið. Innan ESB lifa 17% undir fátæktarmörkum*.

eupovertyÞað verður allt annað en auðvelt að ráða niðurlögum ESB fátæktar, m.a. vegna hækkandi meðalaldurs og þunglamalegs lífeyriskerfis. Ekki bætir úr skák að í langtímaspá IMF er gert ráð fyrir að ESB/evrusvæðið verði lélegasta hagvaxtarsvæði í heimi næsta aldarfjórðunginn.

Ástandið er mjög slæmt hér á landi í kjölfar bankahruns. En það þarf ekki bankahrun í ESB til að skapa slæmt ástand, t.d. hefur verið stöðugt og mikið atvinnuleysi þar árum og áratugum saman. Líka í góðæri!

Ólíkt flestum ESB löndum eigum við alla möguleika á að fyrirbyggja fátækt og endurheimta það Ísland sem við áttum áður en bankadólgar lögðu það undir sig fyrir 6-7 árum. Til þess er nógur auður í hafinu, á landi og í þjóðinni sem landið byggir. En það verður ekki gert með brusselskum ráðstefnum, sem eiga "að auka vitund fólks um orsakir og afleiðingar fátæktar".

Erfiðasta hindrunin sem þjóðin þarf að yfirstíga er hin bresk-hollenska ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún vill játa ódrýgðar syndir á þjóðina og leggja á hana syndagjöld í ómældu. Hún vill líka setja þjóðina undir Brusselvald og loka hana bakvið tollamúra á lélegasta hagvaxtarsvæði í heimi. Og færa því æðsta dómsvald í ábót.

Ef við viljum úthýsa fátækt frá Íslandi er innganga í Evrópuríkið líklega vitlausasta skerfið sem hægt er að stíga. Skilyrði fyrir því að skríða þangað inn er að þjóðin dæmi sjálfa sig til fátæktar fyrst og kalli það "skuldbindingar".

----------
* Annars vegar er talað um fátæka Evrópubúa og hins vegar um mannfjölda innan ESB, sem getur skekkt þessa tölu um 2-3 prósentustig.

 


mbl.is Evrópuár gegn fátækt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Já hvernig var þetta Ísland aftur? Kannski væri ágætt að rifja það upp áður en við missum okkur í nostalgíunni     Áratuga spilling, frændhygli, fáokun, verðbólga, efnahagslegar kollsteypur, gengisfellingar, hagsmunagæsla og forréttindapot.  Bankadólgarnir lögðu nefnilega ekkert undir sig fyrir 6-7 árum. Það var búið að leggja grunninn í áratugi með heimsku og valdhroka stærsta stjórnmálaflokksins og hagsmunapoti spilltast stjórnmálaflokksins.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 22.1.2010 kl. 18:21

2 identicon

Samfylkingin með Jóhönnu og restina af óvitunum eru að fikta með eldfima framtíð þjóðarinnar í miðjum bensínpolli Esb. Þau hafa eldspýturnar og brotaviljinn virðist einbeittur. Það verður að stöðva þessa brennuvarga áður en lýðveldið og framtíð þjóðarinnar breytist í ösku og reyk. Ótrúlegt hvað þessi aldraða flugfreyja virðist vera mikill kjáni og flokksmenn hennar í sandkassafylkingunni. Þau virðast vera tilbúin að reka málstað nýlendukúgaranna og svíkja þjóðina. Eins og Haraldur bendir réttilega á er evrópusambandið sannarlega engin paradís því þar blasir við fátæktin og örbirgðin í hverju horni. Atvinnuleysi og langvarandi fátækt er hlutskipti milljóna í þessu draumaríki Samfylkingarinnar. Esb er efnahagslega andvana fæddur risi, hagkerfi Evru-landanna riðar til falls. Óveðurský hrannast upp yfir evrópu. Írland og Grikkland eru skýrasta dæmið en ástandið fer jafnt og þétt versnandi. Það er alls ekki ósennilegt að þessi síðasta tilraun  hins illa öxulveldis Þýskalands Bretlands og Frakklands til þess að stofna nýtt heimsveldi verði hrunið innan áratugar. Horfum fram á veginn og látum ekki óvitana brenna allar brýr að baki okkur.

Auður Herdís (IP-tala skráð) 22.1.2010 kl. 23:48

3 Smámynd: Haraldur Hansson

Takk fyrir innlitið og athugasemdirnar.

Jóhannes: Ef þú átt ekkert nema dökka liti í boxinu þínu getur þú aðeins málað svarta mynd. Þótt margar þingmenn breska stjórnarflokksins hafi þurft að skila illa fengnu opinberu fé í sumar er breska stjórnkerfið ekki þar með dæmt ónýtt til frambúðar.

Í öllum þjóðfélögum er tekist á um verðmæti og völd, með einhverjum hætti. Stundum eru það vinstri/hæri átök, stundum annað. Stundum gengur vel, stundum ekki. Stundum nær potið og spillingin að rista dýpra en æskilegt er. Þá takast menn á um lausnir á vettvangi stjórnmálanna, eftir leikreglum lýðræðisins og gildandi laga.

Í lífvænlegum samfélögum leita menn lausna og finna þær. Í hinum er hættara við uppgjöf þar sem menn leita sér að verndarvæng og skríða í skjól. Ég tel að þrátt fyrir allt sé íslenskt samfélag mjög lífvænlegt. 

Haraldur Hansson, 23.1.2010 kl. 11:47

4 Smámynd: Haraldur Hansson

Auður: Það er full djúpt í árinni tekið að segja að fátækt og örbirgð blasi við í hverju horni Evrópuríkisins. En það er rétt að hagkerfi evrusvæðisins virðist standa á brauðfótum.

Ef menn vilja skoða inngöngu í Evrópuríkið sem bjargráð í efnahagsmálum, þá er nóg að skoða staðreyndir til að sjá að það er ekki skref í rétta átt. Þar verður ekki að finna þau vaxtarskilyrði sem við þurfum næstu áratugina.

Haraldur Hansson, 23.1.2010 kl. 11:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband