27.6.2012 | 12:19
Hræðsluáróður ... sögðu þeir
Fyrst eftir hrun var afgerandi stuðningur við umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Það var skiljanlegt að fólk vildi leita lausna eftir svo mikið áfall. Finna leiðir. Bara eitthvað. Það voru viðbrögð við áfallinu. Eftir því sem sjálfstraust þjóðarinnar hefur vaxið hefur fylgið við feigðarförina til Brussel minnkað. Nú er öruggur meirihluti þjóðarinnar andvígur. Blessunarlega.
Þegar andstæðingar aðildar Íslands að ESB skrifuðu um aukinn samruna og skert fullveldi í aðdraganda Lissabon sáttmálans árið 2009 voru algeng viðbrögð ESB-sinna að saka okkur um hræðsluáróður og rugl. Þó svo að í sáttmálanum fælist meiri tilfærsla valda til Brussel en áður þekktist og að þar væri lagt fyrir nýjum valdaembættum. Háværum ásökunum um hræðusláróður, upphrópanir, rangfærslur og ómálefnalegan málflutning fylgdu oft smekklaus ókvæðisorð.
En nú eru þetta allt staðreyndir. Enginn getur lengur þrætt.
Ráðamenn stærstu ríkjanna leggja til aukinn samruna upphátt og kinnroðalaust. Forseti framkvæmdastjórnarinnar gerir það líka. Nær daglega koma fréttir af þessari þróun. Sumir tala um að "dýpka samstarfið" og telja það hljóma betur en tala um skert fullveldi. En það er beinlínis stefnan. ESB er að breytast úr sambandi margra sjálfstæðra ríkja í eitt sjálfstætt sambandsríki.
Og svo er það evran.
Hún átti að vera hin gómsæta beita. Nú er öllum (flestum) ljóst að ein mynt fyrir mörg ólík hagkerfi gengur ekki upp. Grikkland er þekktasta dæmið og Spánn það stærsta (ennþá). Nýjasta dæmið er Kýpur sem var hent út á Guð og gaddinn í gær. Jafnvel RÚV kemst ekki hjá því að sýna svo sem einn þátt um evruhrunið mikla. Samruninn er nú talinn óumflýjanlegur ef takast á að bjarga evrunni. Útkoman verður allt annað Evrópusamband en það sem Ísland sótti um aðild að; samband sem við eigum enn minna erindi inní en það sem var fyrir gildistöku Lissabon sáttmálans.
![]() |
Hár lántökukostnaður að sliga Spán |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.6.2012 | 00:10
Forsetafrúin Glanni glæpur
Þegar fyrstu vangaveltur birtust um hugsanlega frambjóðendur til forseta var leikkonan Steinunn Ólína nefnd. Það fannst mér flott hugmynd, þó ekki væri nema fyrir það að þá yrði Glanni glæpur forsetafrú.
Þrátt fyrir nafnið er Glanni enginn glæpon. Hann myndi aldrei berja tennur úr fólki eða sýna gamalli konu ruddaskap. Ekki heldur langömmu barnanna sinna. Hann veit að þá ætti hann ekkert erindi á Bessastaði.
Glanni er nefnilega enginn ofbeldismaður, heldur meinlaus hrekkjalómur sem stríðir íþróttaálfinum. Hann gefur krökkum karamellur (þó það sé ekki nammidagur) eða hnuplar af þeim epli. Í knyttum hans leynist boðskapur og Glanni hefur fræðandi hlutverk.
Synd að Steinunn Ólína skuli ekki hafa boðið sig fram. Hún hefði eflaust sómt sér vel í embætti og Glanni glæpur verið betri kostur á Bessastöðum, eins og sagt er.
![]() |
Tæp 16.000 atkvæði komin í hús |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)