24.6.2012 | 12:49
Ef Ólafur Ragnar væri ekki í framboði ...
Ef Ólafur Ragnar Grímsson hefði ákveðið að bjóða sig ekki fram til endurkjörs væri Þóra Arnórsdóttir ekki í framboði heldur. Það kemur æ betur í ljós að framboð hennar er mótframboð - og mótframboð eingöngu.
Hin fjögur hefðu trúlega boðið sig fram og mjög líklega einhverjir fleiri.
Samtökin Betri kost á Bessastaði voru stofnuð gagngert til að fella Ólaf Ragnar og þau fundu kandídatinn Þóru. Auglýsingastofu-framboð hennar ber það með sér að til þess var stofnað af andstæðingum sitjandi forseta. Hlutur Samfylkingarinnar er augljóslega nokkur.
Auglýsingar og persónudýrkun í 2007-stíl
Síðustu daga hefur framboð Þóru verið auglýst grimmt, ólíkt hinum. Heilsíður í blöðum, plaköt í strætóskýlum og auglýsingar í útvarpi og sjónvarpi. Greinilega nóg af peningum. Það er engin furða að sumum blöskri og kalli á opið bókhald.
Það nýjasta er að bjóða upp á Þóru-boli og Þóru-daginn og svo er pylsuveisla og Þóru-andlitsmálning fyrir börnin! Rétt eins og Justin Bieber væri á ferð. Það lýsir örvæntingu þegar stuðningsmenn ætla að veðja á persónudýrkun og mátt peninganna á lokasprettinum. Þetta er nú bara kona sem er þekkt andlit úr sjónvarpi og stóð sig ágætlega í vinnunni.
Þegar allt er saman tekið er á framboðinu sorglegur 2007-stíll, sem er illa úr takti við tíðarandann. Ætli framboð hennar kosti ekki 50 sinnum meira en öll hin til samans. Eða meira. Jafnvel hinn orðvari Björn Valur er orðinn tvístígandi í stuðningi sínum og segir Þóru-bolir eru ekki beint heillandi vegvísir í kjörklefann". Ef Þóru sjálfri finnst þetta í lagi er hún ekki verðug þess að gegna embætti forseta.
Ég hef endanlega gert upp hug minn. Ég ætla að kjósa Ólaf Ragnar. Þrátt fyrir langa setu er hann betri kostur á Bessastaði. Framganga hans síðustu misserin sýnir að hann veldur embættinu og er traustsins verður. Það er einmitt það sem skiptir mestu máli.
![]() |
Frambjóðendur opni bókhaldið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |