Af stóru málunum skuluð þér þekkja þá


Í sumar hafa verið til afgreiðslu sannkölluð stórmál, bæði í USA og ESB. Mikill munur á meðferð þeirra sýnir að það er sitt hvað, alvöru lýðræði og brusselskt "lýðræði".

 

eu-flag-ballÍ ESB var evruvandinn afgreiddur baksviðs. Merkel og Sarkozy  skrifuðust á og héldu svo fund í París eða Berlín. Fréttamönnum var skýrt frá niðurstöðum en fulltrúar annarra evruríkja fengu í besta falli að vera með á mynd.

Ríkisstjórn Barrosos var ýtt út í kant og Evrópuþingið var í hlutverki áhorfandans. Fréttamenn höfðu lítinn aðgang að ráðamönnum og þurftu oft að geta í eyðurnar. Engar opnar umræður á vettvangi stjórnmálanna. Bara niðurstaða.

 

usa-flag-ball 
Í USA
var tekist á um skuldaþak ríkisins. Málið var afgreitt í þinginu fyrir opnum tjöldum. Fréttamenn fylgdust með hverju fótmáli forsetans og þingmanna, með vélar sínar á lofti. Daglega var rætt við fulltrúa beggja flokka í fjölmiðlum, oft í beinni útsendingu.

Forsetinn þurfti að ná sátt við þingið þar sem stjórnarandstaðan er með meirihluta í fulltrúadeildinni. Tekist var á af hörku um leiðir, allt fram á síðasta dag. Niðurstaðan var málamiðlun sem báðir sættu sig við.

 

Menn geta haft ólíkar skoðanir á niðurstöðum málanna tveggja. En ekki verður deilt um að það er gríðarlegur munur á aðferðunum sem beitt var vestan hafs og austan. 

Hvað sem mönnum finnst um USA þá verður það ekki af Bandaríkjamönnum tekið að lýðræðið þeirra er kröftugt og ekta. Til fyrirmyndar. 

Alvöru lýðræði mun aldrei verða komið á innan Evrópusambandsins (nánar um það í næstu færslu). Þar vilja ráðamenn fá frið fyrir kjósendum. Þegar ESB verður formlega gert að Sambandsríki er það dæmt til að verða meira í sovéskum stíl en bandarískum. Og mistakast.

 


ÍBV – KR ... og fiskveiðar

18. september mætast toppliðin KR og ÍBV í Pepsí-deild karla í Eyjum. Leikurinn gæti ráðið úrslitum um hvar titillinn lendir. Bæði liðin vilja auðvitað vinna. Hagsmunir þeirra eru, eðli máls samkvæmt, eins ólíkir og hugsast getur.

Ef stjórn knattspyrnudeildar KR tæki þá ákvörðun að fela Heimi þjálfara ÍBV að velja lið KR fyrir leikinn og treysta því að hann gætti hagsmuna KR-inga í hvívetna, fengi hún minna fylgi í Vesturbænum en glæsileg niðurstaða um Icesave.

Það væri jafn glórulaus ákvörðun og ef Íslendingar tækju upp á því að fela erlendum embættismönnum í Brussel formleg yfirráð yfir miðunum umhverfis Ísland og treysta því að þeir gættu hagsmuna Íslands í hvívetna. Hagsmunir Íslands og ESB eru nefnilega líka eins ólíkir og hugsast getur.

Hér er útgerð undirstöðugrein en í ESB gengur hún fyrir styrkjum, oft á félagslegum grunni. ESB flytur inn mikinn fisk en Ísland er stór fiskútflytjandi. Hér eru stór og gjöful fiskimið en ESB leitar logandi ljósi að nýjum miðum fyrir ofvaxinn flota sinn.

Það eru minni líkur á því að Ísland geti áfram rekið arðbæra útgerð til framtíðar innan ESB en að KR gefi leikinn í Eyjum.

Hugmyndin um inngöngu Íslands í ESB á ekki skilið meira fylgi en vondur Icesave samningur. Hún á í raun ekki skilið neitt fylgi. 0% væri alveg passlegt.

 


Bloggfærslur 6. september 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband