20.9.2011 | 00:57
Hamfarir eru himnasending
Hamfarakenningin, heitir þáttur sem RÚV sýndi í vikunni sem leið. Þar var fjallað um hvernig vondir menn nýta upplausnarástand til að koma fram málum sem ekki væri hægt undir eðlilegum kringumstæðum. Ná þeim fram meðan þjóð er í sjokki vegna t.d. stríðs eða náttúruhamfara.
Rauði þráðurinn var harkaleg gagnrýni kanadískrar blaðakonu, Naomi Klein, á frjálshyggjumanninn Milton Friedman og kenningar hans. Tók hún mörg dæmi máli sínu til stuðnings, m.a. valdaránið í Chile. Ég hef ekki sterkar skoðanir á Friedman. Færslan er hvorki um hann né hagfræði.
Frásögn Klein af einu svæðanna sem varð fyrir barðinu á flóðbylgjunni miklu jólin 2006 hringdi bjöllum. Meðan þjóðin var í sjokki fengu stórfyrirtæki í gegn leyfi til að byggja upp stór hótel og ferðaþjónustu sem heimamenn voru á móti. Þeir misnotuðu áfall almennings sem hafði hugann við annað. Áður stóð þar látlaus byggð heimamanna.
Voru hamfarir nýttar" á Íslandi?
Þegar íslenska þjóðin var í áfalli eftir hrunið kaus hún nýja valdhafa til að leiða endurreisnina, sem vonlegt var. En því miður leyndust vondir menn í hópnum sem gerðu allt annað en það sem þeir voru kjörnir til.
Í stað þess að vinna að hag almennings var farið af stað með alls konar mál, sem ekki hefðu haft hljómgrunn undir eðlilegum kringumstæðum. Þeir misnotuðu áfall almennings.
Vanhugsuð aðför að útgerðinni og atlaga gegn þjóðinni í Icesave málinu eru tvö dæmi. Stjórnarskráin fær ekki einu sinni að vera í friði. Stærsta hamfaramálið" er þegar umsókn um aðild að Evrópusambandinu var þröngvað í gegnum þingið með því að afbaka lýðræðið.
Vondir menn finnast víða
Það eru örugglega til vondir menn sem misnota sér áföll, neyð og erfiðleika. Bæði einstaklinga og heilla þjóða. En í pólitík er það greinilega ekki bundið við hægri frekar en vinstri. Við eigum ömurlegt dæmi um slíkt fólk hér á landi. Núna.
Hvað skyldu margir vondir menn misnota sér aðstæður á Grikklandi, einmitt þessa dagana, mitt í áfallinu vegna efnahagslegra hamfara?
![]() |
Grikkir ræða við AGS og ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |