17.9.2011 | 15:06
Evrópa er hauslaus
Höfuðlaus her er ekki til stórræðanna. Yannis Varoufakis, prófessor við háskólann í Aþenu, telur að auk evruvandans búi ríki ESB við leiðtogakreppu. Rætt var við hann í þættinum Jeff Randall Live á Sky í vikunni.
Viðtalið er stutt og fróðlegt en ég vek sérstaka athygi á tvennu:
"If they use it, they will lose it"
Randall spyr um lausnir (2:45 mín) og svar Grikkjans sýnir að "rödd við borðið", eins og það heitir á brusselsku, færir minni ríkjunum engin áhrif.
Leiðtogi og stjórnandi er ekki það sama ...
Varoufakis á mjög athyglisvert svar (4:45 mín), sem er kveikjan að fyrirsögn þessarar færslu.
HVERS VEGNA er Evrópa* hauslaus?
Grikkinn telur að Merkel og Sarkozy séu bara stjórnendur; verkstjórar sem láti stjórnast af skoðunum almennings. Kohl og Mitterand voru leiðtogar sem gátu leitt þjóðir sínar, ef á þurfti að halda. (Hann nefndi líka Chruchill, sem ekki heyrist vegna smá truflunar.)
Þeir ræða ekki ástæður hausleysisins, en ég varpa fram þessari tilgátu:
Þegar yfirþjóðlegt stjórnkerfi vex úr hófi verður skilvirknin minni. Þungt kerfið býður ekki upp á skjót eða markviss viðbrögð, þótt nauðsyn krefji. Yfir skrifræðinu í Brussel sitja forsetarnir Barroso og Rompuy; annar er maóisti með stórveldisdrauma, hinn er pólitískt nóbodý sem enginn þekkir.
Þegar "helstu ráðamenn" eru tveir stórir þjóðarleiðtogar, spilltur Ítali, breskur áhorfandi og tveir yfirþjóðlegir forsetar (sem enginn kaus), er ekki við góðu að búast. Pólitískar skoðanir helstu ráðamanna geta líka verið ólíkar. Skrifræði á 23 tungumálum flýtir ekki fyrir.
Pólitísk markmið eru á reiki, stefnan er moðsuða og lýðræðið gleymt. Minni "raddir við borðið" bíða af kurteisi eftir pósti með fréttum af sínum eigin ákvörðunum, en enginn er til að taka af skarið.
Er þetta ekki meinið í Evrulandi? Enginn veit hver á að segja "kaffi!"
----- ----- -----
* Í fréttum af endalausum hrakförum evrunnar er jafnan talað um "Evrópu" þótt aðeins sé átt við þau ríki sem eru Sambandinu/Evrulandi.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 15:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.9.2011 | 01:45
Ekki góðgerðarstofnun
"Umræðan um Evrópusambandið hér á landi hneigist stundum í þá átt að þetta stórpólitíska samband sé eins konar góðgerðarstofnun til þess sett á laggirnar að líta yfir öxl smáríkja svo komið verði í veg fyrir að þau hagi sér kjánalega.
Nær væri að segja með hæfilegri einföldun að Evrópusambandið sé upprunalega klæðskerasniðið utan um Frakkland og Þýskaland, þar sem hagsmunir ríkjanna á sviði orku og auðlinda voru reyrðir saman í eins konar spennitreyju.
Það átti svo eftir að koma í ljós hvernig öðrum Evrópuþjóðum gengi að vaxa inn í treyjuna."
----- ----- -----
Textinn hér að ofan er úr greininni "Stórveldið og smáríkin", sem er 3. af 15 vönduðum greinum sem Tómas Ingi Olrich ritaði um Evrópusambandið fyrr á árinu. Hægt er að sjá allar greinar hans hér.
Myndin er af húsakynnum ESB í Strassbourg, sem eru notuð fjóra daga í mánuði.