23.8.2011 | 22:18
Steingrímsson og Newton
Isaac Newton er einn þekktasti vísindamaður Breta og var tvisvar kjörinn á þing. Sagt er að hann hafi aðeins einu sinni tekið þar til máls og þá til að biðja um að loka glugga.
Guðmundur Steingrímsson hefur tvisvar verið kjörinn á þing. Fyrst sem varaþingmaður Samfylkingar og svo fyrir Framsókn. Á síðasta þingi lagði hann ekki fram neitt frumvarp, en átti eina tillögu til þingsályktunar um bjartari morgna með því að seinka klukkunni.
En nú segir hann að það sé "kominn tími til að gera eitthvað". Hvað?
Fyrir hvað stendur Guðmundur í pólitík?
Helsti vegvísirinn er að hann greiddi iðulega atkvæði með Samfylkingunni í stóru málunum á síðasta vetri. Við vitum að hann vill ljúka aðildarsamningi, flýta klukkunni og gera eitthvað.
Líklega var skilnaður hans við Framsókn báðum til góðs og hægt að óska Framsókn til hamingju og Guðmundi velfarnaðar. Ekki liggur fyrir hvort hann vill sitja við opinn glugga eða lokaðan meðan hann gerir eitthvað á björtum morgnum.
Ég spái því að hann gangi aftur í Samfylkinguna rétt fyrir næstu kosningar.
![]() |
Þakka Guðmundi samstarfið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.8.2011 | 08:41
„Maður á að segja að allt sé í allrabesta lagi“
Svo blindir geta menn orðið í trúnni á draum sinn, að hvítt verður svart og vont verður gott. Þingmaður skrifaði grein í Fréttablaðið og er engu líkara en að Birtíngur hafi stýrt pennanum.
Birtíngur trúði af sakleysi öllu sem Altúnga, lærifaðir hans, kenndi honum, enda mikið einfaldur að hjartalagi". Altúnga kenndi að þeir lifðu í hinum allra besta heimi og að allt sem þar gerist miði til góðs.
Þeir sem segja að alt sé í lagi eru hálfvitar; maður á að segja að alt sé í allrabesta lagi.
Magnús Orri Schram ritar í Fréttablaðið og tekst, eins og Birtíngi, að lesa vondar fréttir sem gleðitíðindi. Evrópskir stjórnmálamenn óttast aukna miðstýringu en Magnús Orri kallar það nánara samstarf". Ytra telja menn að aldrei verði hægt að ná sátt um slíkt fullveldisafsal, en okkar maður telur það jákvæðar breytingar".
Þannig trúir hann að allt sem gerist í Evrópusambandinu miði til góðs, sama hversu slæmt það er. Hann trúir bábiljunum öllum og getur varla beðið eftir evrunni, sem sligar nú hvert jaðarríkið á fætur öðru.
Magnús Orri bregður sér í hlutverki Birtíngs, Evrópusambandið er hans Kúnígúnd og Össur er lærifaðirinn Altúnga. Þingmaðurinn er jafn blindaður af hrifningu sinni á Brussel og Birtíngur var af ást sinni á Kúnígúnd.
Vinstrihandargiftíng
Birtíngur eyddi aumri ævinni í að leita að æskuástinni Kúnígúnd. Þrátt fyrir samfelldar hrakningar og þjáningar trúði hann því að hlutirnir geti ekki verið öðru vísi en þeir eru og hljóti að fá hinn allra besta endi.
Þegar hann loks fann Kúnígúnd hafði hún ljókkað svo mjög að hann hrökk skelfdur þrjú skref afturábak. Hann bar enga löngun til að giftast henni en hún gekk svo freklega eftir honum að hann komst ekki undan því.
Lærifaðirinn Altúnga tók saman ritgerð og sannaði að hin eðalborna Kúnígúnd gæti gifst Britíngi vinstrihandargiftíngu. Jafnvel þegar allir draumar Birtíngs höfðu molnað sannaði Altúnga að þeir byggju í hinum besta allra heima.
Birtíngur tók að efast í mesta mótlætinu og taldi brjálsemi að halda því fram að allt sé í lagi þegar allt er í ólagi". Þingmaðurinn á eftir að ná þeim þroska. Og að skilja að hamingjan fæst ekki með því að giftast óhrjálegri evrópskri Brussu vinstrihandargiftíngu.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)