28.7.2011 | 16:44
Rotin, spillt eða skemmd
Nú er bannað að halda kökubasar nema bakkelsið sé framleitt í viðurkenndu eldhúsi". Húsmæður, sem af myndarskap hafa bakað í þágu góðra mála, mega ekki lengur baka heima hjá sér. Eldhúsin þeirra eru ekki "viðurkennd".
Það er eitthvað bogið við þetta.
Konur (og stöku karlar), sem baka til að gefa, framleiða góðgætið í eldhúsinu heima, sem er reglulega þrifið með Cillit Bang. Þar er rennandi vatn, kæliskápur, hrærivél og bakaraofn. Hráefnin eru þau sömu og notuð yrðu þótt taka þyrfti viðurkennt eldhús" á leigu fyrir baksturinn.
Lög um matvæli eiga að tryggja gæði, öryggi og hollustu matvæla. Þar segir að óheimilt sé að markaðssetja matvæli" sem eru heilsuspillandi eða óhæf til neyslu vegna mengunar eða vegna þess að þau eru rotin, spillt eða skemmd."
Ég nennti ekki að lesa lögin staf fyrir staf til að finna forsendur fyrir banninu, en þær eru eflaust þar.
Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir eiga að annast eftirlit. Lögin eru yfirgripsmikil og miðast við fyrirtæki í matvælaframleiðslu á öllum stigum. Ekki kemur á óvart að vísað er í fjölmargar gerðir Evrópusambandsins í lögunum. Stór lagabreyting sem tók gildi 1. mars 2010 er samkvæmt bandormi frá Brussel.
Er það ekki einmitt vandamálið?
Heildarlöggjöf sem á að passa upp á alla sölu og framleiðslu matvæla í fjölmörgum löndum leiðir af sér bann við bakkelsi í heimahúsum. Klukkutíma kökubasar er settur undir sama hatt og fjölþjóðleg verslunarkeðja. Lítil fjáröflun í góðgerðarskyni lýtur sömu reglum og atvinnurekstur í hagnaðarskyni.
Mig grunar að bannið sé bjánaleg hliðarverkun. Risavaxið skrifræðisbatterí stígur á lággróðurinn án þess að taka eftir því.
Múffu-mömmurnar á Akureyri geta komist framhjá lögunum með því að bjóða bakkelsið gefins og hafa söfnunarkassa á staðnum. Þeir sem fá gefins múffur setja örugglega nokkra hundraðkalla í kassann til að styrkja gott málefni.
![]() |
Múffurnar lutu í lægra haldi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.7.2011 | 01:05
Hrói Höttur: „Hættið allri skattheimtu“
Hrói snýr heim ásamt þjóni sínum eftir áralanga fjarveru í Landinu helga þar sem þeir börðust fyrir konung. Það hefur mikið breyst í Skírisskógi og allt til hins verra.
Fólk lifir í ótta við nýja fógetann, sem innheimtir skatta af hörku. Sá fyrsti sem gefur sig á tal við þá við komuna heim til Locksley segir við erum skattpínd til að standa straum af stríðsrekstrinum í Landinu helga".
Hróa blöskrar óttinn og örbirgðin og heldur rakleitt til Nottingham. Þar blasir við sár fátækt og markaðurinn er ekki skugginn af sjálfum sér.
Hrói fer á fund fógeta, sem ræðir við rukkara sína um þörf konungs fyrir auknar skatttekjur og krefst enn harðari innheimtu.
Orðaskipti Hróa og fógetans byrja þannig:
Hrói: Hættið allri skattheimtu. Í dag.Fógeti (glottandi): Skemmtilegt.
Hrói: Ég er ekki að spauga. Það er markaðsdagur í dag og þó er enginn markaður.
Fógeti: Og hvað áttu við með því?
Hrói: Ef maður framleiðir meira en hann þarf til að framfleyta sér og fjölskyldunni fer hann með afganginn á markaðinn. Hann skiptir á varningi og skírið tekur sinn skerf.
En þar til svo er, verðum við að hjálpa öllum að sjá fyrir fjölskyldum sínum. Koma viðskiptunum á að nýju.Fógeti: Sá sem sér fyrir fjölskyldu sinni verður værukær og latur. Hann vill ekki vinna. Við þurfum soltna menn.
Okkar göfugi vinur virðist gleyma því að soltnir menn eru dyggðugir.
Samtalið er úr þættinum Will you tollerate this? sem er sá fyrsti í þáttaröð BBC um Robin frá Locksley, jarlinn af Huntington. Í framhaldi af deilum sínum við fógetann var hann gerður útlægur og varð þekktur sem Robin Hood, eða Hrói Höttur leiðtogi útlaganna og bjargvættur alþýðunnar.
Þetta var árið 1192. Skyldi Hrói eiga sér skoðanasystkin nú, 819 árum síðar?
![]() |
Hærri skattar skila sér lítið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)