8.6.2011 | 08:50
Draumurinn um 0,8% Ísland
Í gær birtu tveir vefmiðlar fréttir af væntanlegum áhrifum Íslands við atkvæðagreiðslur innan ESB, ef svo illa færi að þjóðin léti plata sig þangað inn. Í báðum tilfellum er talað um 0,8%, þótt fjallað sé um sitt hvorn hlutinn. Það er rétt hjá báðum, svo langt sem það nær, en sé skyggnst aðeins fram í tímann er útlitið miklu verra en það.
Vefurinn AMX bendir á að Ísland fengi 0,8% þingsæta, eða 6 sæti af 750.
Vefur Heimssýnar segir að í Ráðherraráðinu yrði vægi fulltrúa Íslands líka 0,8%, eins og Möltu sem fer með 3 atkvæði af 345.
Svartir dagar framundan fyrir smáríkin
En það eru miklu svartari dagar framundan fyrir fámennustu ríki ESB. Með Lissabon bandorminum var atkvæðareglum í Leiðtogaráðinu og Ráðherraráðinu breytt þannig að vægi Þýskalands nær tvöfaldast á meðan vægi Kýpur, Lúxemborgar og Möltu er skert um 90%. Þessi breyting tekur gildi 1. nóvember 2014. Það verður svartur dagur fyrir smáríkin í ESB. (Sjá nánar um breytinguna á þessari mynd.)
Ef Ísland væri nú þegar í þessum ógæfuklúbbi myndi vægi okkar í Leiðtogaráðinu og Ráðherraráðinu skerðast um 92,6% við gildistökuna; færi úr nánast engu niður í akkúrat ekkert. Þetta er gert um leið og neitunarvald, öryggisventill smáríkjanna, er fellt niður í 68 málaflokkum.
Þessi breyting gæti verið í lagi ef í ESB væri líka "öldungadeild" eins og er í Bandaríkjunum, þar sem öll fylki eiga tvo fulltrúa, óháð íbúatölu. En því er ekki að heilsa í Brussel svo breytingin er alveg skelfileg fyrir fámennu ríkin.
Það getur verið að Össur eigi sér draum um 0,8% Ísland. En takist honum það fólskuverk að draga Íslendinga yfir velferðarbrú til Brussel þá verða áhrifin ekki nema 0,064%, eða minna en einn tólfti af því sem núna er. En hann mun ekki upplýsa íslenska kjósendur um það.