6.9.2010 | 08:27
Ég held með bændum
"Það ætti að leggja niður landbúnað og flytja hann inn í dósum" sagði ein sögupersónan í Punktinum hans Péturs, ef ég man rétt. En ég held með bændum, þótt aldrei hafi ég verið í sveit. Það væri nær að endurreisa stolt hins íslenska bónda.
Tvö síðustu sumur hef ég ferðast nokkuð innanlands og nýtt mér þjónustuna Beint frá býli sem hefur farið mjög vaxandi síðustu ár. Þetta er eitt af því sem bændur leggja til aukins fjölbreytileika í íslensku samfélagi.
Grænmeti í Árnessýslu, silungur frá Útey við Laugarvatn, nautakjöt frá Hálsi í Kjós og sauðakjöt frá Stað í Reykhólahreppi er meðal þess sem ég hef keypt beint frá býli. Að auki ávexti, kæfur, sultur, rjómaís, egg, reyktan rauðmaga og ýmislegt smálegt víða um land. Og nú er hægt að komast á bændamarkað í Reykjavík, þótt það jafnist ekki á við heimsókn í sveitina.
En bændur gera meira. Svo miklu meira.
Þegar maður keyrir um sveitir landsins er fátt yndislegra en að sjá bleika akra og slegin tún, kýr á beit og hesta í haga. Og þegar bóndi keyrir traktorinn og rúllar heyinu upp í "sykurpúða" er hann að nýta eina af auðlindunum; það sem landið gefur. Víða eru skjólbelti og öflug trjárækt, sem verður myndarlegri með hverju árinu. Bændur gera fallegt landið enn fallegra.
Búskapur hefur breyst mikið á fáum áratugum. Menn eru ekki lengur bara með nokkrar kýr í túninu heima og fé á fjalli eins og forðum. Nýjungarnar eru margvíslegar, t.d. eru ekki margir áratugir síðan kjúklingur var nær óþekktur á borðum landsmanna. Menn höfðu efasemdir um gróðurhúsin þegar þau komu en nú er íslensk kornrækt orðin að veruleika. Bændur hafa í raun verið duglegir við nýsköpun af ýmsu tagi.
Ferðaþjónusta og orkubúskapur
Bændur bjóða upp á fjölbreytta ferðaþjónustu; gistingu, veitingar, sumarhús, hestaferðir, jöklaferðir og margt fleira. Margir fóru útí ferðaþjónustu til að drýgja tekjurnar, núna er hún ómissandi þáttur í þjónustu við ferðamenn hringinn í kringum landið. Án framlags bænda væri útilokað að bjóða upp á þá fjölbreyttu kosti sem ferðalöngum standa til boða.
Svo er það orkubúskapurinn. Bændur virkja ár og læki og selja rafmagn inn á landsnetið. Aðrir bora eftir heitu vatni á jörðum sínum og selja orku til neytenda. Það er ekki lengur hægt að setja samansem merki á milli bænda og sauðkindarinnar. Það er löngu liðin tíð. Bændur í dag eru jafnan vel menntaðir í búfræðum og margir með fína menntun á háskólastigi, enda störf til sveita orðin mjög fjölbreytt og krefjandi.
Umtalsverð atvinnusköpun
Þau störf sem landbúnaðurinn skapar - fyrir utan bústörf - skipta þúsundum. Nokkur fyrirtæki vinna úr mjólk og framleiða osta, jógúrt og fleira. Enn fleiri eru í kjötvinnslu og þar eykst fjölbreytnin á hverju ári. Grillkjöt af öllum gerðum er gott dæmi. Allt skilar þetta margvíslegum tekjum í ríkissjóð auk þeirra gæða sem víða má sjá og hvergi eru færð til bókar. Ef landbúnaðurinn væri "fluttur inn í dósum" myndu meira en tíu þúsund Íslendingar missa vinnuna.
Bóndi er bústólpi
Í viðtengdri frétt er sagt frá ólgu meðal sauðfjárbænda vegna verðskrár sláturleyfishafa og nýlega var talað um að sekta bændur fyrir að selja mjólk umfram kvóta. Reglulega heyrum við svo frá fólki sem sýpur hveljur yfir styrkjum til íslensks landbúnaðar. Þó myndu afskrifaðar skuldir miðlungs útrásardólgs dekka styrki til landbúnaðarins í einhverja áratugi.
Kerfið er auðvitað ekki gallalaust, en það fylgir sjaldnast sögunni hvað við fáum fyrir peningana. Það er þó svo miklu meira er ódýr mjólk og kótelettur á grillið.
Í flestum/öllum vestrænum löndum er landbúnaður styrktur. Tveir stærstu styrkþegar Evrópusambandsins eru stórar sykurverksmiðjur á Ítalíu. Hér ganga greiðslur beint til bænda í samræmi við framleiðslu. Kerfin geta því verið margvísleg.
Hvetjum bændur til frekari dáða
Frekar en að þrengja að bændum ættu stjórnvöld að vinna að metnaðarfullri framtíðarsýn fyrir fjölbreyttan íslenskan landbúnað í góðri samvinnu við bændur. Renna stoðum undir búskapinn, lækka orkuverð til gróðurhúsa, lækka verð á áburði og ýta undir frekari nýsköpun. Þá mætti styrkja bændur enn betur til uppgræðslu og skógræktar því enginn hugsar betur um sveitir landsins en þeir sem búa þar.
Allt þetta er líka stór þáttur í að halda landinu öllu í byggð, að halda landinu fallegu, að viðhalda öflugri þjónustu í hinum dreifðu byggðum og að byggja undir ferðaþjónustu til framtíðar. Á endanum græðum við öll.
![]() |
Ólga í sauðfjárbændum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)