Eru ráðherrar "bara hásetar"?

Þegar fjölmiðlar spyrja fólkið á götunni um landsdómsmálið er enginn sáttur, þótt af mismunandi ástæðum sé. Flestir segja að annað hvort hefði átt að ákæra alla eða engan. Sumir, sem tjá sig á vefnum, telja þó niðurstöðuna ásættanlega og vísa til sjóprófa, þar sem skipstjórinn einn er dreginn til ábyrgðar vegna sjóslysa.

En skipstjórarökin halda ekki.

Geir Haarde var sannarlega skipstjórinn. En að líkja Árna, Björgvini, Ingibjörgu og hinum ráðherrunum við óbreytta háseta er út í hött. Þau voru ráðherrar! Þau voru handhafar framkvæmdavalds og þingmenn að auki. Hásetarnir á þjóðarskútunni eru mörgum mörgum lögum neðar í pýramída samfélagsins. Að jafna málinu við sjópróf gengur ekki upp.

Alþingi átti að fjalla um athæfi sem varða refsingu, en ekki (flokks)pólitískt uppgjör.

Komist menn á annað borð að þeirri niðurstöðu að framin hafi verið athæfi sem varða fangelsisvist, þá er óhugsandi að slíkur gjörningur geti skrifast á einn mann í tólf manna ríkisstjórn. Ekki einu sinni þótt hann sé forsætisráðherra, hrunið snertir of marga þætti til þess. Beri "skipstjórinn" meiri ábyrgð en aðrir, ætti það að endurspeglast í úrskurði landsdóms en ekki í pólitískum sýknudómi Alþingis.

Alþingi er máttlítið og ósjálfstætt.

Rannsóknarnefnd Alþingis gerir í skýrslu sinni margar athugasemdir við framgöngu stjórnmálamanna undanfarin ár, sem einskorðast ekki við ráðherra. Alþingi er gagnrýnt fyrir skort á sjálfstæði og faglegum vinnubrögðum, fyrir að lúta leiðtogavaldi og að vera eins afgreiðslustimpill fyrir framkvæmdavaldið. Gagnrýnt fyrir að bregðast almenningi.

Afgreiðslan á landsdómsmálinu var ekki til þess fallin að auka virðingu almennings fyrir hinni aldagömlu löggjafarstofnun. Það læðist jafnvel að manni sá grunur að sumir þingmenn hafi ekki skilið til fulls hvað í þingsályktuninni fólst. Afgreiðslan breyttist í pólitískan hráskinnaleik, sem var því miður fyrirséð.

Það þarf greinilega að endurreisa Alþingi á alla vegu: Virðingu þess, sjálfstæði og faglega getu. Þangað til er Alþingi ófært um að fara með ákæruvald.

 


mbl.is Ískalt viðmót á þinginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. september 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband