17.9.2010 | 12:57
"Þið eruð ekki þingið"
Það er vond staða fyrir Alþingi að þurfa að taka ákvörðun um hvort draga skuli fyrrum ráðherra fyrir Landsdóm. Að vera handhafar ákæruvaldsins. Ég öfunda engan þingmann af því hlutskipti.
En það var vanhugsað hjá nokkrum þingmönnum Samfylkingar að funda í gær með Ingibjörgu Sólrúnu, einum hugsanlegra sakborninga, á meðan málið er enn til afgreiðslu hjá Alþingi. Annað hvort átti að funda með þeim öllum eða engum.
"Þið eruð ekki þingið" hefði Ingibjörg Sólrún getað sagt með réttu.
Það eru þingmenn allir sem sameiginlega fara með (eða sitja uppi með) ákæruvaldið í þessu máli. Þess vegna orkar tvímælis að nokkrir þingmenn úr einum flokki boði slíkan fund, það gefur honum yfirbragð leyndar og baktjaldamakks. Ef fundað er á annað borð með hugsanlegum sakborningum ættu þingmenn úr öllum flokkum og helst allir þingmenn að sitja fundinn.
Bergsteinn Sigurðsson, einn albesti penni Fréttablaðsins, skrifar Bankþanka dagsins og telur Landsdóm ekki tilheyra nútímanum. Pistillinn, sem ber yfirskriftina Hinir dómbæru, er í léttum dúr þótt fjallað sé um alvöru málsins. Ég mæli með lestri hans.
![]() |
Þungbær skylda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)