16.9.2010 | 23:01
Silfur, síld og forsetinn
Ég veit ekki til þess að nokkur hafi skilgreint verksvið forsetans á þann hátt, að það sé óeðlilegt að hann taki þátt í baráttu fyrir brýnum hagsmunamálum þjóðarinnar.
Þannig svaraði Ólafur Ragnar í fréttum RÚV, þegar hann var krafinn skýringa á því að hafa rætt við erlenda fréttamenn, útskýrt málstað Íslendinga skilmerkilega og sagt sannleikann. Enda eigum við því ekki að venjast af hálfu ráðamanna.
Til eru þeir sem ekki kunna að meta framlag forsetans. Eina mögnuðustu athugasemd bloggheima, gegn glæsilegri framgöngu Ólafs Ragnars, er að finna í færslu á Eyjublogginu. Þar beitir höfundur þeirri áróðurstækni sem upp á ensku er kennd við rauða síld, "red herring". Hún gengur út á að beina umræðunni að einhverju ljótu og neikvæðu og tengja andstæðinginn eða málstað hans við það.
Á vef-Silfrinu var þessi klausa birt úr færslunni, undir fyrirsögninni Lengi getur vont versnað:
Þegar forseti Íslands er farinn að gagnrýna ESB, samtök sem eru eitthvað sterkasta aflið í heiminum sem berjast fyrir mannréttindum, í landi eins og Kína þar sem mannréttindi eru fótum troðin hefur Lýðveldið Ísland ná enn einum lágpunkti. Lengi getur vont versnað, er það eina sem maður getur sagt.
Einu sinni var síldin kölluð silfur hafsins. Þessi rauða síld er sóðaleg aursletta úr uppskriftabók áróðurstækna.
Það að forsetinn gefi erlendum fjölmiðli heiðarleg svör við spurningum um Icesave og íslenskan efnahag er tengt við mannréttindabrot í Kína. Höfundur notar svo tækifærið til að upphefja Evrópusambandið í leiðinni.
Líklega hefur Eyjubloggarinn ekki vitað að sama dag og hann ritaði færslu sína skipaði ESB sinn fyrsta sendiherra í Kína. Í fréttum Evrópusambandsins um hið nýja embætti er ekki minnst orði á mannréttindabrot. Skyldi hann skrifa nýja færslu af því tilefni?
16.9.2010 | 00:22
"God bless his political memory"
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, er ekki besti vinur utanríkisráðherra í dag. Össur segir forsetann ekki hafa umboð til að gera neitt annað en það sem Alþingi ákveður.
Össur er eflaust búinn að steingleyma því þegar hann sjálfur laumaðist úr landi sem ferðamaður í fyrrasumar - án vitneskju þingsins, ríkisstjórnarinnar og utanríkisnefndar - og leitaði stuðnings við mál sem Alþingi hafði ekki afgreitt.
Ólafur Ragnar stóð sig mjög vel í viðtali á Bloomberg í dag.
Það var kröftugt hvernig hann lýsti yfirgangi Gordons Brown, bæði þegar hann sagði Ísland gjaldþrota og þegar hann beitti hryðjuverkalögum. Inn á milli skaut Ólafur frábærri athugasemd: "God bless his political memory".
Össur utanríkisráðherra ætti að vera Ólafi Ragnari þakklátur. Hann var óhræddur við að segja það sem flestir hugsa og ráðamenn áttu að segja fyrir löngu, en gerðu ekki.
Ólafur Ragnar hafði meira umboð til að tala í dag en Össur hafði á Möltu í fyrra, 98% atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu er nokkuð skýrt umboð.