Er þetta frétt að skrýtla?

Önnur málsgrein fréttarinnar endar á þessari setningu: Frumvarpið hefur ekki enn verið lagt fram. Samt segir í fyrirsögn að 65% séu fylgjandi frumvarpi Árna Páls.

Það sem helst hefur komið frá ráðherranum um málið eru fyrstu viðbrögð, daginn sem hæstiréttur felldi úrskurð um vexti af gengistryggðum lánum, sem áður höfðu verið úrskurðuð ólögleg.

Sumarið 2009 voru líka margir fylgjandi Icesave frumvarpinu, en það var áður en nokkur maður fékk að lesa samninginn. Væri ekki ráð að bíða með að kanna skoðun fólks þangað til eitthvað skriflegt hefur verið kynnt, eins og t.d. frumvarp til laga?

Þessa dagana er verið að senda mönnum bakreikninga vegna bílalána, sem þó hafa verið greidd upp. Aðrir telja breytingu á sumum húsnæðislánum vera óhagstæða. Veit einhver hvernig þetta verður í frumvarpinu? Um hvað var spurt? Hverju var fólk að svara?

Árni Páll boðaði líka breytingar á lánum fyrirtækja. Þó þannig að sum fengju leiðréttingu en önnur ekki, þar sem ekki þyrfti að aðstoða félög "með sterkar gengisvarnir" eins og hann orðaði það. Hvernig verður það útfært? Er hægt að setja lög sem leyfa sumum en öðrum ekki?

Þessi sami ráðherra hefur áður lýst hugmyndum sínum í fjölmiðlum, t.d. um tryggingagjald og atvinnuleysisbætur, sem síðan hafa ekki orðið að neinu. Sjáum frumvarpið fyrst og metum það svo.

Ég vona sannarlega að það finnist einhver lausn, sem hægt er að setja í lög. Lausn sem sátt skapast um og færir málin til betri vegar. Lausn sem léttir á vanda hins almenna borgara og þeirra fyrirtækja sem þurfa að veita atvinnu.

Á meðan ekkert er komið fram annað en óformleg viðbrögð eins ráðherra í viðtali, áskil ég mér rétt til að bíða með að fagna. Traust mitt á stjórnamálamönnum er ekki meira en það.

 


mbl.is 65% fylgjandi frumvarpi Árna Páls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. október 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband