24.10.2010 | 23:43
Jón Ásgeir að kaupa Sjóvá?
Eftir að hafa séð makalaust drottningarviðtal á Stöð 2 í kvöld læðist að manni sá grunur að Jón Ásgeir, eigandi stöðvarinnar, sé í hópi þeirra fjárfesta sem Heiðar Már fer fyrir. Tæplega undir eigin kennitölu þó, eins og stemmingin er í samfélaginu.
Heiðar Már Guðjónsson, fyrrum framkvæmdastjóri hjá Björgólfi Thor, var mættur í viðtal. Hann fer fyrir hópi fjárfesta í kaupum á tryggingafélaginu Sjóvá. Síðustu daga hefur hann verið nokkuð í fréttum, sagður áhættusækinn fjárfestir og sakaður um að braska með krónuna.
Viðtalið var betra en besta PR-átak fyrir Heiðar Má og samfelld auglýsing um ágæti hans. Það var eins og spurningarnar hefðu verið sérsniðnar til að hvítþvo viðmælandann. Ekkert kom honum á óvart, hann átti góð svör við öllu og engri spurningu var fylgt eftir af spyrjanda. Bara spurt um næsta atriði eins og eftir handriti.
Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um viðskiptatengsl Heiðars Más Guðjónssonar og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Má vera að maður sé orðinn svo tortrygginn eftir allt sukkið sem afhjúpað hefur verið síðustu misseri að maður vantreysti öllu. En ég tel samt að það hafi verið eitthvað bogið við þetta viðtal. Það var of þægilegt til að vera ekta.
24.10.2010 | 13:16
Álfheiður, Styrmir og áróðurstæknin
Það er þekkt aðferð úr áróðursfræðum að nota "merkimiða" til að gera málstað andstæðingsins fráhrindandi. Þetta er gjarnan notað þegar menn geta ekki með góðu móti fært rök fyrir sínum eigin skoðunum og er merki um málefnafátækt, slæma samvisku eða vondan málstað. Stundum allt í senn.
Álfheiður Ingadóttir notar einmitt "merkimiða" í ESB málinu, þegar hún segir að ekki megi láta Björn Bjarnason og Styrmi Gunnarsson stjórna umræðunni. Þar velur hún tvö nöfn sem ekki njóta fylgis innan raða VG og gerir þá að tákni fyrir mál þeirra flokksmanna VG sem eru á annarri skoðun en hún sjálf.
Með þessari aðferð beinir hún athyglinni frá því að það var Vinstrihreyfingin grænt framboð sem samdi sína eigin stefnuskrá, skilgreindi sig sem andstæðing ESB-aðildar, gaf kosningaloforð, fékk stuðning vegna þeirra, sveik þau og brást kjósendum sínum illilega. Það er Birni og Styrmi óviðkomandi.
Það væri hægt að skrifa heila bók um allan þann pólitískan spuna og áróður sem notaður hefur verið í íslenskum stjórnmálum síðustu misserin. Líklega er enginn saklaus í þeim efnum. Viðbrögð Álfheiðar eru dæmi um þá stjórnmálalegu ómenningu sem Páll Skúlason lýsti í mjög góður viðtali í þættinum Návígi á RÚV.
![]() |
Fullt umboð til að halda áfram viðræðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |